Húsnæðislán gætu lækkað verulega vegna dómsmáls
Dómari dæmdur til að dæma í máli á vegum Hagsmunasamtaka heimilanna. -
Síðastliðinn föstudag úrskurðaði Hæstiréttur í máli sem höfðað hefur verið með stuðningi Hagsmunasamtaka heimilanna vegna verðtryggðs láns frá Íbúðalánasjóði. Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem héraðsdómari tilkynnti að hann myndi víkja sæti í málinu vegna þess að hann hefði tekið lán hjá Íbúðalánasjóði árið 2007, en lánið hefði hækkað umtalsvert síðan þá og í ljósi þess gæti hann ekki fjallað efnislega um málið því þá yrði hægt að draga óhlutdrægni hans í efa við úrlausn um lögmæti slíks láns.
Í dómi Hæstaréttar um hæfi dómarans kom fram að þótt fjárhagslegir hagsmunir dómara geti við ákveðnar aðstæður valdið vanhæfi í einkamálum, þá gildi það ekki um hagsmuni almenns eðlis. Fyrir lægi, meðal annars með vísan til niðurstöðu EFTA-dómstólsins um hæfi íslenskra dómara í svipuðum málum sem þar eru til úrlausnar, að stór hluti þeirra sem búa hér á landi skuldi verðtryggð húsnæðislán og að úrslit málsins hefðu áhrif á fjárhagslega hagsmuni þessa hóps eða a.m.k. verulegs hluta hans. Svo almennir hagsmunir gætu ekki einir og sér valdið vanhæfi dómara. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómarann að fara áfram með málið.
Einnig kemur fram í dómsorði Hæstaréttar að sóknaraðilar færi þær málsástæður fyrir kröfum sínum að lánið falli undir lög nr. 121/1994 um neytendalán og hafi upplýsingagjöf varnaraðila til þeirra við töku lánsins ekki uppfyllt skilyrði laganna. Af þeim sökum hafi varnaraðila verið óheimilt að krefja þau um lántökukostnað, svo sem vexti og verðbætur. Verði fallist á kröfur sóknaraðila, hvort sem er aðal- eða varakröfur þeirra, sé ljóst að lánsfjárhæðin muni lækka mjög verulega frá því sem varnaraðili hefur krafist greiðslu á samkvæmt skilmálum skuldabréfsins.
Þess má geta að Neytendastofa hefur nú þegar komist að þeirri niðurstöðu með ákvörðun nr. 8/2014 í máli gegn Íslandsbanka sem er að mörgu leyti sambærilegt, að bankinn hafi brotið gegn lögum nr. 121/1994 um neytendalán auk laga nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum, með því að tilgreina engan kostnað vegna áætlaðra verðbóta í greiðsluáætlun, heildarlántökukostnaði og árlegri hlutfallstölu kostnaðar. Er sú niðurstaða í fullu samræmi við málatilbúnað í fyrrnefndu máli á vegum Hagsmunasamtaka heimilanna um verðtryggð húsnæðislán, sem nú mun fara til efnislegrar meðferðar Héraðsdóms Reykjavíkur.