Nýbirt gögn styðja málflutning Hagsmunasamtaka heimilanna
Víglundur Þorsteinsson fyrrverandi stjórnarformaður BM Vallár sendi í gærkvöldi frá sér fréttatilkynningu ásamt miklu magni af gögnum er varða stofnun nýju viðskiptabankanna og yfirfærslur lánasafna frá föllnu bönkunum til þeirra nýju. Gögnin ásamt greinargerð Víglundar um innihald og merkingu þeirra, styðja fyllilega þann málflutning sem Hagsmunasamtök heimilanna hafa haldið úti svo að segja frá stofnun þeirra fyrir rúmum 6 árum síðan. Það er að segja að við yfirfærslu þessa og þá gjörninga sem tóku við í framhaldi hafi margvíslegum rangindum verið beitt, þannig að hagsmunum heimila og almennings hafi verið stórlega misboðið.
Samtökin hafa á undanförnum árum staðið í margvíslegri gagnaöflun, og reynt með öllum ráðum að komast yfir og gera opinberar sem mestar upplýsingar um þetta ferli allt saman, í nafni gagnsæis og til þess að sýna fram á hversu gróflega framferði fjármálafyrirtækja hafi brotið og sé enn að brjóta gegn lögum og hagsmunum almennings. Ekki má heldur gleyma "hinum" fjármálafyrirtækjunum það er að segja öðrum en stóru bönkunum þremur, til að mynda fjármögnunarfyrirtækjum eða fyrirtækjum á borð við Dróma hf. sem eru jafnvel ekki löglega skráð fjármálafyrirtæki.
Meðal þess sem ráða má af gögnum Víglundar er að ekki aðeins hafi almenningur og margir stjórnmálamenn verið blekktir, heldur hafi jafnvel dómstólar landsins einnig verið beittir blekkingum í tengslum við hin ótalmörgu og gríðarlega umfangsmiklu málaferli sem bankar og aðrir kröfuhafar hafa herjað á heimili og fyrirtæki með undanfarin 6 ár. Því verður varla lýst með nógu sterkum orðum hversu alvarlega slíkt framferði vegur að virðingu dómskerfisins, og þar með að sjálfu réttarríkinu, að eyða svo miklu sem raun ber vitni af takmörkuðum tíma dómstólanna að ófyrirsynju í tilhæfulaus málaferli árum saman.
Ítarlega hefur verið fjallað um afhjúparnir Víglundar í helstu fjölmiðlum í dag, en fyrsta fréttin af þeim birtist á vef Útvarps Sögu nokkru eftir miðnætti í gærkvöldi, ásamt þeim gögnum sem um ræðir. Hér fyrir neðan er tilkynning Víglundar í heild sinni, ásamt tenglum á gögnin sem vísað er til.
Bréf Víglundar til forseta Alþingis
Minnisblað um stofnúrskurði FME
Ákvörðun FME vegna Landsbankans
Ákvörðun FME vegna Kaupþings
Ákvörðun FME vegna Glitnis
Forsendur fyrir skiptingu efnahagsreikninga
Stofnefnahagsreikningur Nýja Landsbankans
Stofnefnahagsreikningur Nýja Kaupþings
Stofnefnahagsreikningur Nýja Glitnis