Hagsmunasamtök heimilanna 6 ára
Hagsmunasamtök heimilanna fagna um þessar mundir 6 ára afmæli sínu, en samtökin voru stofnuð þann 15. janúar 2009. Þau spruttu úr þeirri óreiðu sem skapast hafði í kjölfar hruns fjármálakerfisins og þeirra stórfelldu neikvæðu áhrifa sem það hafði á fjárhagsstöðu heimila landsins. Félagsmönnum hefur fjölgað mikið frá stofnun samtakanna og eru þeir orðnir vel á níunda þúsund talsins og svo er svipaður fjöldi sem fylgist með og tekur þátt í umræðum um stöðu heimilanna á Facebook síðu samtakanna. Það má í raun segja sem svo að ef Hagsmunasamtök heimilanna væru ekki til staðar, væri líklegast engin umræða eða krafa uppi um afnám eða leiðréttingu á verðtryggingarþætti lána heimilanna.
Helstu baráttumál samtakanna hafa snúið að því að krefjast leiðréttingar á þeim gríðarlegu hækkunum sem gengis- og verðtryggð neytendalán urðu fyrir vegna áhrifa af starfsemi gömlu bankanna og algjöru hruni bankakerfisins haustið 2008. Samhliða því hefur verið barist fyrir afnámi verðtryggingar neytendalána til frambúðar og bættri stöðu heimilanna í því fjármálaumhverfi sem þeim hefur verið búið. Aukin áhersla á vægi neytendaverndar er lykilþáttur í því samhengi og er það grundvöllur þeirra málaferla sem samtökin reka fyrir hönd félagsmanna sinna, þar sem nú er beðið dóms frá fjölskipuðum Héraðsdómi Reykjavíkur.
Einnig hafa samtökin beint sjónum sínum að þeim framfærsluvanda sem allt of mörg heimili búa við á íslandi í dag sem er ekkert annað en fátækt með öðrum orðum. HH hafa bent á að þurfa finni út hvað það kostar að lifa svokölluðu hófsömu mannsæmandi lífi á íslandi og stilla svo þjóðfélagið út frá því eins og gert er í þeim löndum sem við miðum okkur almennt við. HH hafa bent á að þau framfærsluviðmið sem notuð eru í dag eru ekkert annað en fölsun því þau mæla í raun aðeins eyðslu fólks á ákveðnu tímabili sem grunn, vitandi það að fólk getur ekki eytt meiru en það á og því hafa núverandi framfærsluvið ekkert með það að gera hvað kostar að lifa á Íslandi.
Hagsmunasamtök heimilanna hafa einnig í sívaxandi mæli tekið þátt í að reyna að hafa áhrif á það lagaumhverfi sem heimilum landsins er boðið upp á með því m.a. að fara yfir þau lagafrumvörp sem lögð eru fram og skrifa umsagnir um þau í því skyni að hafa áhrif til að bæta hag og stöðu heimilanna og fjölskyldna landsins. Eitt brýnasta málið sem Alþingi þarf að taka á núna er að lögfesta heimildir til endurupptöku mála þeirra fjölmörgu aðila sem hafa mátt þola aðför, sem oft endar í árangurslausu fjárnámi, nauðungarsölu, eða orðið gjaldþrota, á grundvelli ólöglegra lána eða vegna afleiðinga þeirra á fjárhag heimilisins.
Þó ýmislegt hafi áunnist þá á enn heilmikið verk eftir að vinna og því miður yrði listinn sem við vinnum að í viðbót við ofantalið og það sem við þyrftum að geta unnið að í viðbót allt of langur til að telja upp hér en Hagsmunasamtök heimilanna eru greinilega komin til að vera í íslensku samfélagi því gagngerra breytinga er þörf til að afstýra því að hér verði algjör uppgjöf, vonleysi og landflótti.
Stærstur hluti af starfi samtakanna er unninn í sjálfboðavinnu og eru formennska og stjórnarstörf þar með talin en reksturinn byggist að öðru leyti á félagsgjöldum og framlögum. Þar að auki hefur Velferðarráðherra veitt okkur ágætan styrk sem við erum mjög þakklát fyrir og einnig má nefna Reykjavíkurborg, auk þess sem nokkur verkalýðsfélög og einkaaðilar hafa stutt vel við samtökin. Rétt er að nota tækifærið til að þakka þeim félagsmönnum sem hafa séð sér fært að greiða félagsgjöld og minna hina á að ef þeir hafa getu til, þá erum við þakklát fyrir allt. Með meiri fjárráðum gætum við gert ennþá betur.
Þegar dómur verður fallinn í máli HH gegn ólöglega kynntri verðtryggingu fasteignatengdra neytendalána, en vonandi verður það sem fyrst, munu Hagsmunasamtök heimilanna standa fyrir borgarafundi. Allir sem láta sig málefni heimila varða eru hvattir til að fjölmenna á þann fund og vera með puttann á þjóðarpúlsinum. Það eru miklar breytingar framundan í íslensku þjóðlífi ef við stöndum saman.
Til hamingju með afmælið!
Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna