Hagsmunasamtök heimilanna vilja harðari aðgerðir
Reykjavík síðdegis tók í gærdag viðtal við formann Hagsmunasamtaka heimilanna. Félagsmenn og aðrir gestir neytendatorgs geta hlustað á viðtalið hér: Reykjavík síðdegis - Hagsmunasamtök heimilanna vilja enn frekari aðgerðir til að verja heimilin.
Það vakti eftirtekt fulltrúa samtakanna að hlustandi hafði kallað eftir sjónarhorni þeirra í Reykjavík síðdegis deginum áður. Það hefur ávallt verið sannfæring stjórnarmanna sem leitt hafa starf samtakanna að þau eigi stórt bakland úti í samfélaginu, enda eru Hagsmunasamtök heimilanna meðal stærstu frjálsu félagasamtaka á Íslandi, með nærri níu þúsund félagsmenn og tala alltaf út frá sjónarhorni heimilanna. Stjórn HH hefur því starfað af hugsjón í sjálfboðastarfi fyrir auknum réttindum og bættum kjörum heimilanna á fjármálamarkaði. Með þá sannfæringu að leiðarljósi, að brotið hafi verið á neytendarétti og stjórnarskrárvörðum eignarétti margra þúsunda lántakenda á árunum eftir hrun og að ekki verði við unað fyrr enn þau brot verði viðurkennd og hin mikla eignaupptaka rannsökuð.
Þeir sem hafa áhuga á að skrá sig í samtökin geta gert það hér: http://www.heimilin.is/varnarthing/felagaskraning.html
Það sem gerðist í síðasta efnahagshruni má ekki endurtaka sig
Fulltrúar stjórnar hafa unnið að því síðustu vikurnar að koma sínu sjónarhorni að í umræðunni og fylgjast því grannt með áætlunum og aðgerðum stjórnvalda. Um leið og fyrstu aðgerðir ríkisstjórnarinnar voru kynntar, vakti það athygli að hvergi var minnst á heimilin. Um hæl sendu samtökin frá sér ákorun til ríkisstjórnarinnar: Viðspyrnu er þörf fyrir hagkerfið og heimilin, með sérstakri áherslu á heimilin sem grunnstoð samfélags. Áskorun sem var tekin til umfjöllunar meðal annars hjá RÚV "Ekki minnst einu orði á heimilin" og á Mbl.is: Minntust ekkert á heimilin.
Viðsnúningur náði fram að ganga í aðgerðum stjórnvalda og fagna samtökin því. Fjölmargt er á döfinni og hafa samtökin meðal annars verið kölluð til samráðs á fundi efnahags- og viðskiptanefndar sem og fjárlaganefndar Alþingis um aðgerðir vegna heimsfaraldurs. Það eru vissulega til þingmenn á Alþingi sem styðja málstað samtakanna en heimilin þurfa að vera í forgrunni í allri ákvarðanatöku þingheims og ríkisstjórnarinnar. Formaður og varaformaður HH hafa því fjallað um það með gagnrýnum hætti hve greiður aðgangur fulltrúa hagsmunasamtaka fjármálafyrirtækja (SFF) er að ákvörðunum ríkisstjórnarinnar, þegar fulltrúar neytenda eða heimilanna eru víðs fjarri (sjá nánar á Visi.is: Hagsmuna fjármálafyrirtækja gætt og heimilin sniðgengin). Það er ekki sjálfgefið að Alþingismenn séu í öllum sínum verkum málsvarar heimilanna. Reynslan hefur sýnt það.
Hagsmunasamtök heimilanna vilja tryggja og efla stöðu heimilanna sem grunnstoð hagkerfisins, hið minnsta til jafns við atvinnulíf og fjármálakerfi, þar sem framfærsla, eignarréttur og neytendaréttur heimilanna er í hávegum hafður. Á það hefur skort á Íslandi alllengi.