VIÐVÖRUN TIL NEYTENDA! - Vegna endurfjármögnunar fasteignalána
VIÐVÖRUN TIL NEYTENDA!
vegna endurfjármögnunar fasteignalána
NEYTENDUR ERU HVATTIR TIL:
Að kynna sér vel skilmála um uppgreiðslugjöld
Að vera á varðbergi gagnvart skilyrðum um önnur viðskipti
Að gæta þess að frumrit eldri skuldabréfa fáist afhent
Að vera meðvitaðir um ókosti höfuðstólsverðtryggingar
Að undanförnu hefur borið talsvert á fyrirspurnum frá neytendum í tengslum við endurfjármögnun fasteignalána enda hafa útlánsvextir flestra lánveitenda lækkað. Að mörgu er að hyggja í því sambandi og mikilvægt að neytendur séu meðvitaðir um réttindi sín ásamt þeim skyldum sem hvíla á lánveitendum.
Hagsmunasamtök heimilanna hvetja lántakendur til ábyrgrar neytendahegðunar enda eru fasteignalán í flestum tilfellum einhverjar stærstu skuldbindingar venjulegs neytanda. Upplýsingar um lánakjör eru jafnan aðgengilegar á vefsíðum lánveitenda ásamt reiknivélum. Hinir ýmsu kostnaðarliðir geta verið lagðir á með mismunandi hætti og því ekki alltaf hægt að bera saman lánstilboð á vaxtaprósentunni einni saman. Samkvæmt lögum um neytendalán á jafnframt að upplýsa um árlega hlutfallstölu kostnaðar og heildarlántökukostnað að teknu tilliti til allra kostnaðarliða vegna lántöku og hvaða áhrif breytingar á vöxtum eða öðrum þáttum hafa á þann kostnað. Þegar um verðtryggð lán er að ræða skal einnig taka mið af áhrifum verðbólgu við slíka útreikninga og upplýsa neytendur um þá hækkun sem hún veldur á höfuðstól og greiðslubyrði þegar líður á lánstímann. Lánveitanda ber jafnframt að útskýra alla samningsskilmála rækilega fyrir neytendum og áhrif þeirra, þar á meðal um skilyrði og heimildir til uppsagnar samnings og afleiðingar vanskila.
Uppgreiðslugjöld
Neytendum er ráðlagt að kanna vel hvort eldri eða ný lán hafi að geyma skilmála um uppgreiðslugjald áður en ráðist er í endurfjármögnun. Aðeins er heimilt að krefjast uppgreiðslugjalds af lánum sem bera fasta vexti en óheimilt ef vextirnir eru breytilegir. Almennt er óheimilt að krefjast hærra uppgreiðslugjalds en sem nemur tjóni lánveitanda af uppgreiðslunni. Af lánum teknum eftir 1. nóvember 2013 er óheimilt að krefjast hærra uppgreiðslugjalds en 1% af fjárhæð endurgreiðslu ef meira en eitt ár er til loka lánstíma en annars 0,5%. Af fasteignalánum teknum eftir 1. apríl 2014 [innskot: hér ætti með réttu að standa 2017] má uppgreiðslugjald ekki fara yfir 0,2% af endurgreiðslu fyrir hvert heilt ár sem eftir er af binditíma vaxta en þó aldrei meira en sem nemur kostnaði lánveitanda af uppgreiðslunni eða að hámarki 4% af endurgreiðslu. Þá er rétt að hafa í huga að ef ástæða fyrir uppgreiðslunni er gjaldfelling láns, svo sem vegna vanskila, er jafnan óheimilt að krefjast uppgreiðslugalds.
Hagsmunasamtökum heimilanna hafa borist fyrirspurnir frá neytendum varðandi uppgreiðslugjöld þar sem slíkir skilmálar voru ekki kynntir sérstaklega fyrir neytendum við lántöku og ekkert upplýst um áhrif þeirra á umfang skuldbindinganna. Samkvæmt dómaframkvæmd Evrópuréttar getur upplýsingaskortur leitt til þess að staðlaðir skilmálar sem eru neytanda í óhag teljist vera óréttmætir en samtökunum er þó ekki kunnugt um að reynt hafi á slíkt fyrir íslenskum dómstólum.
Skilyrði um önnur viðskipti
Borist hafa ábendingar um að lánveitendur kunni að setja skilyrði fyrir endurfjármögnun eldri lána, svo sem að neytendur gangist undir samninga um ýmisskonar aðra og ótengda fjármálaþjónustu. Með nýlegum lögum um fasteignalán til neytenda var þó lagt bann við því að binda lánasamninga og lánstilboð slíkum skilyrðum. Er því rétt að vara neytendur við slíkum viðskiptaháttum en verði þeirra engu að síður vart er hægt að beina kvörtunum til Neytendastofu.
Veðsetningarhlutföll
Við nýja lántöku í tengslum við endurfjármögnun eldri veðlána getur skipt máli hversu hátt hlutfall nýrrar lánsfjárhæðar er af verðmæti fasteignarinnar. Samkvæmt nýlegum reglum um hámark veðsetningarhlutfalls fasteignalána til neytenda má það að hámarki nema 85% af markaðsverði eða 90% ef um er að ræða fyrstu kaup á fasteign. Sumir lánveitendur hafa strangari skilyrði um veðsetningarhlutföll, til dæmis að hámarki 60-75% eða þá að lánveiting umfram þau mörk sé með óhagstæðari vaxtakjörum. Er því rétt að neytendur kanni vel áður en þeir ráðast í endurfjármögnun hvaða áhrif slík skilyrði hafa við samanburð á vaxtakjörum.
Frumrit eldri skuldabréfa
Áður en gengið er frá endurfjármögnun er mikilvægt að fá að sjá frumrit þeirra skuldabréfa sem eldri lán byggjast á. Það er réttur þess sem greiðir upp skuldabréf að fá frumrit þess afhent enda kaupir hann það í raun og veru til baka með því að greiða upp skuldina, til dæmis með nýju lánsfé. Jafnframt er nauðsynlegt að frumriti sé framvísað svo hægt sé að aflýsa veðsetningu fasteignar samkvæmt veðskuldabréfi. Nokkuð hefur borið á því að frumrit liggi ekki fyrir þegar kemur að fullnustu eða uppgreiðslu lána og er því mikilvægt að neytendur gangi úr skugga um slíkt áður en nokkuð er gert sem kann að hrófla við þeim réttindum sem byggjast á frumriti veðskuldabréfs.
Verðtrygging
Loks vilja Hagsmunasamtök heimilanna vara við því að verðtryggð lán séu endurfjármögnuð til lengri tíma en eftir er af upphaflegum lánstíma. Slík framlenging á lánstíma eykur enn við söfnun verðbóta á höfuðstól og margfaldar endanlega greiðslubyrði. Hægt er að draga úr þessum áhrifum með því að gæta þess að nýtt lán sé ekki til lengri lánstíma en eftir er af eldra láninu. Auðvitað er það endanlegt markmið okkar að verðtrygging á lánum heimilanna eigi ekki að vera valkostur því á meðan lán heimilanna eru verðtryggð hafa ráðandi öfl á fjármálamarkaði ekki sama hag og við hin af því að halda verðbólgu í skefjum. Þannig virka alvöru hagkerfi eins og við viljum miða okkur við.
Auglýsing birt í Fréttablaðinu 9. september 2017