Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Opið bréf til Umboðsmanns skuldara

vegna morgunverðarráðstefnu í samstarfi við Samtök fjármálafyrirtækja þann 25. mars 2019

 Sæl Ásta Sigrún,

Við hjá Hagsmunasamtökum heimilanna lýsum furðu okkar á samstarfi embættis Umboðsmanns skuldara við Samtök fjármálafyrirtækja og teljum fyrirhugaða morgunráðstefnu í samstarfi við þau vera kalda kveðju til skjólstæðinga embættis þíns.

Frá hruni hafa lántakendur mátt sitja undir skelfilegum yfirgangi fjármálafyrirtækja eins og þínu embætti ætti að vera fullkunnugt um, enda stofnað til þess  að aðstoða þá sem lentu í klónum á þessum fyrirtækjum í kjölfar hrunsins.

Þér ætti því líka að vera fullkunnugt um að frá hruni hafa a.m.k. 15.000 fjölskyldur misst heimili sín í hendurnar á þessum fyrirtækjum og kennitöluflökkurum, oft vegna ólögmætra aðgerða þeirra.

Aukin heldur hafa 117.000 árangurslaus fjárnám verið gerð frá hruni af þessum sömu fyrirtækjum.

117.000 í 340.000 manna þjóðfélagi!

Á bak við þessa ótrúlegu tölu eru nokkrir tugir þúsunda einstaklinga sem hafa verið svipt „fjárhagslegum réttindum“ sínum, þau eiga þannig ekki kost á lánafyrirgreiðslum, kreditkortum eða nokkru því sem þarf til að geta verið virkur þátttakandi í samfélaginu.

Þetta veist þú og þú ættir einnig að vita að þessum aðgerðum fjármálafyrirtækjanna er ekki enn lokið, þau eru enn þá að valta yfir heimili landsins í krafti yfirburðastöðu sinnar.

Við viljum líka minna á að fjárhagsleg, sem og andleg áhrif þessara aðgerða fjármálafyrirtækjanna á einstaklinganna sem fyrir þeim urðu, eru langvarandi. Margir, meðal annars þínir skjólstæðingar, munu sitja uppi með afleiðingarnar allt sitt líf og við sjáum þær einnig í auknum kvíða hjá bæði  börnum og fullorðnum, ásamt kulnun, svo ekki sé minnst á skelfilegan leigumarkað sem mörg fórnarlömb fjármálafyrirtækjanna eru föst á.

Með fyrirhuguðum morgunverðarfundi ert þú að taka þér stöðu við hlið Samtaka fjármálafyrirtækja því hann er svo til algjörlega í höndum þeirra:

Yfirlögfræðingur Samtaka fjármálafyrirtækja setur fundinn
Sviðstjóri hjá Arion banka heldur erindi og situr í pallborði
Framkvæmdarstjóri Framtíðarinnar, lánafyrirtækis í eigu Gamma, heldur erindi
Stjórnarformaður Creditinfo heldur erindi og er í pallborði
Verkefnastjóri fjármálafræðslu hjá Samtökum fjármálafyrirtækja stýrir pallborðsumræðum
Framkvæmdarstjóri Almenna lífeyrissjóðsins er fundarstjóri

Fulltrúar neytenda eru eftirfarandi:

Umboðsmaður skuldara
Formaður neytendasamtakanna
Sviðsstjóri hjá Neytendastofu

6 – 3 fyrir fjármálafyrirtækjunum!

Fyrir utan það að staðan sé augljóslega Samtökum fjármálafyrirtækja í vil, þá verður því miður að segjast að engin ykkar sem eruð talsmenn neytenda í þessum fundi, hafið verið talsmenn réttinda  neytenda á fjármálamarkaði hingað til.

Formaður Neytendasamtakanna á meira að segja rætur að rekja til fjármálafyrirtækjanna sem lengi vel voru helstu stuðningsaðilar hans.

Öllum sem fylgst hafa fylgst með málum ætti að vera það fullljóst að þeir einu sem virkilega hafa barist fyrir réttindum neytenda á fjármálamarkaði frá hruni eru Hagsmunasamtök heimilanna.

Þeim var ekki boðin þátttaka og hafa ekki einu sinni fengið boð um að mæta á þennan fína fund.

Hvernig getur þú Ásta Sigrún, í ljósi sögunnar og hlutverks embættis Umboðsmanns skuldara, varið þetta samstarf með Samtökum fjármálafyrirtækja?

Þessi fundur er eins og blaut tuska framan í skjólstæðinga þína og alla þá sem lent hafa í “aðgerðum” fjármálafyrirtækjanna frá hruni.

Með þessu samstarfi við Samtök fjármálafyrirtækja er embætti Umboðsmanns skuldara að taka sér stöðu með þeim sem valdið hafa bæði skjólstæðingum þess, félagsmönnum Hagsmunasamtakanna heimilanna og raunar landsmönnum öllum ómældum skaða sem mun seint eða aldrei verða að fullu bættur.

Hagsmunasamtök heimilanna

 


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum