Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Neysluviðmið fyrir íslensk heimili

Ályktun Hagsmunasamtaka heimilanna um skýrslu Velferðaráðuneytisins: Neysluviðmið fyrir íslensk heimili.

Að mati Hagsmunasamtaka heimilanna ber að líta útgáfu skýrslu velferðarráðuneytisins  jákvæðum augum.  Mikilvægt er þó að hafa í huga að þau neysluviðmið sem kynnt eru í skýrslunni endurspegla ekki raunframfærslukostnað eða lágmarks framfærslukostnað heldur rauntölur um neyslu fólks á Íslandi seinustu ár.

Til skýringa felst munurinn á útreiknuðum neysluviðmiðum og raunframfærsluviðmiðum í því að annars vegar er miðgildi raunneyslu mælt út frá fyrirliggjandi tölum Hagstofunnar en hins vegar er eðlileg raunframfærsla fundin út af sérfræðingum og er þá miðað við að þeir setji saman ýtarlega vöru, þjónustu og neyslukörfu sem á að teljast fullnægjandi lýsing á hóflegri eða eðlilegri framfærsluþörf fjölskyldu af tiltekinni stærð á tilteknum stað á tilteknum tíma. Raunframfærslukostnaður og lágmarks framfærsluviðmið unnin út frá þeim hafa um margra ára skeið verið opinber á öðrum Norðurlöndum, svo sem Danmörku, Svíþjóð og Noregi.

Af efni nýútkominnar skýrslu velferðarráðuneytisins er ekki hægt að segja til um hvort og þá hversu margir eru með ráðstöfunartekjur undir framfærslukostnaði eða hvað þá lágmarks framfærslukostnaði. Margt bendir þó til þess að mjög margar fjölskyldur safni skuldum um hver mánaðarmót eða lifi við skort brýnna nauðsynja. Sérstaklega á þetta við um barnafjölskyldur auk heimila sem þurfa að treysta á bætur og / eða framfærslu hins opinbera auk fjölda fólks í láglaunastörfum sem eru í raun föst í fátækragildru.

Stjórnvöldum ber skylda að komast að því hver raunframfærslukostnaður heimilanna  er svo unnt sé að lögfesta raunframfærslu og lágmarksframfærsluviðmið unnin út frá þeim. Á meðan sú vinna stendur yfir er nauðsynlegt að hið opinbera gefi nú þegar út lágmarksframfærsluviðmið til bráðabirgða sem taki mið af nýkynntum neysluviðmiðum. Þessi krafa er þar að auki byggð á 25. grein Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna.

Án þess að draga dul á hækkunarþörf launa að raunframfærsluviðmiðum vilja Hagsmunasamtök heimilanna benda á að eindregin krafa þeirra um almenna leiðréttingu stökkbreyttra íbúðalána er ein öflugasta kjarabót sem völ er á. Sú leiðrétting hefði veruleg áhrif til lækkunar á framfærslukostnaði þorra almennings.

Fyrir hönd Greiðsluerfiðleikateymis (GET) hóps HH, Vilhjálmur Bjarnason meðstjórnandi og Harpa Njáls félagsfræðingur.

Hagsmunasamtök heimilanna
15. febrúar 2011


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum