Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Heimilin eiga skýlausan rétt á óháðri ráðgjöf á fjármálamarkaði

Heimilin eiga skýlausan rétt á óháðri ráðgjöf á fjármálamarkaði

Fréttatilkynning

Hagsmunasamtök heimilanna hafa sent félagsmálaráðherra erindi þar sem þau fara fram á að fá fjárveitingar til jafns við Umboðsmann skuldara til að aðstoða neytendur og berjast fyrir réttindum þeirra á fjármálamarkaði.

Rökin fyrir slíkri fjárveitingu eru m.a. eftirfarandi:

  • Aðstöðumunur: Allt „kerfið“ stendur með fjármálafyrirtækjunum.

  • Ofurefli: Neytandi má sín einskis komi upp ágreiningur á milli hans og bankans.

  • Þekking: Gríðarleg sérþekking á málefnum skuldara og réttindum neytenda á fjármálamarkaði hefur safnast upp innan vébanda Hagsmunasamtaka heimilanna. Þessa þekkingu er hvergi annars staðar að finna. 

Árið 2010 var embætti Umboðsmanns skuldara stofnað en það sinnir ekki neytendavernd og hefur því miður ekki virkað sem skyldi fyrir skuldara. Ekki er til eitt einasta dæmi um að UMS hafi mótmælt kröfu banka fyrir hönd skuldara eða farið fram á endurútreikninga því það er ekki hans hlutverk að rugga bátnum. UMS  gerir hins vegar greiðsluáætlun fyrir skuldarann til að standa undir kröfum bankans. Embætti UMS er á framfæri fjármálafyrirtækjanna og hefur fengið um 5 milljarða frá stofnun til að sinna þessu hlutverki.

Í öllu „kerfinu“ er enginn aðili sem gætir réttinda neytanda á fjármálamarkaði. Þar eru hins vegar ansi margir sem með beinum og óbeinum hætti gæta hagsmuna fjármálafyrirtækja.

 

Neytendvernd á fjármálamarkaði

Hagsmunasamtök heimilanna eru þau einu á Íslandi sem gæta hagsmuna og réttinda neytenda á fjármálamarkaði og það hefur því miður sýnt sig að ekki er vanþörf á. Það er sorgleg staðreynd að þó staða neytenda á fjármálamarkaði sé alls ekki góð, væri hún mun verri ef Hagsmunasamtaka heimilanna hefði ekki notið við.

Það er einnig staðreynd að Hagsmunasamtök heimilanna hafa hjálpað meira en 4000 einstaklingum og fjölskyldum með beinum hætti, í baráttu þeirra við banka og fjármálastofnanir, sem eru svipað margir og þeir sem komist hafa í gegnum skilyrði UMS til að hljóta aðstoð. Í því samhengi má minna á að Hagsmunasamtök heimilanna eru grasrótar og sjálfboðaliðasamtök sem eru rekin með valkvæðum félagsgjöldum og nær engum opinberum styrkjum. Það er eitthvað mjög skakkt við þessa mynd auk þess sem það samsvarar illa valfrelsi neytenda að einungis sé í boði „ein ríkisleið“, lendi fólk í vanda með fjárskuldbindingar sínar. Neytendur eiga rétt á óháðri ráðgjöf um stærstu skuldbindingar lífsins og að hafa val um hvert þeir leita, þurfi þeir aðstoð eða óháða ráðgjöf um möguleika sína og leiðir. Það eru grundvallarmannréttindi.

Það minnsta sem núverandi ríkisstjórn getur gert er að tryggja jöfnuð og að skuldarar eigi kost á bestu hjálp og réttargæslu sem til er. 

Því verður ekki á móti mælt að þekkingin á réttindum neytenda á fjármálamarkaði er hvergi meiri en innan Hagsmunasamtaka heimilanna og það er skýlaus skylda ríkisstjórnarninnar að tryggja aðgengi neytenda að henniFasteignalán heimilanna eru stærstu skuldbindingar þeirra. Samt er ekki um nein formleg fjárframlög að ræða frá ríkinu fyrir óháða neytendavernd á fjármálamarkaði sem þarf nauðsynlega að vera til staðar, líka í góðæri. Nú er kreppa í uppsiglingu og ljóst að mörg heimili munu lenda í vandræðum og þurfa á ráðgjöf að halda og því enn meiri nauðsyn enn annars að tryggja neytendum óháða og góða ráðgjöf um réttindi sín og lánamöguleika.

Hagsmunasamtök heimilanna telja eðlilegt til að alls jafnræðis sé gætt að þau fái sömu fjárveitingar og UMS, en sé tregða til að auka útgjöld úr ríkissjóði á þessum tímum gerum við það að tillögu okkar að það fé sem ætlað sé til rekstrar UMS, skiptist jafnt á milli embættisins og Hagsmunasamtaka heimilanna, til hagsbóta fyrir skuldara og neytendur á fjármálamarkaði.

Hagsmunasamtök heimilanna

 


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum