Heimilin eiga skýlausan rétt á óháðri ráðgjöf á fjármálamarkaði
Fréttatilkynning
Hagsmunasamtök heimilanna hafa sent félagsmálaráðherra erindi þar sem þau fara fram á að fá fjárveitingar til jafns við Umboðsmann skuldara til að aðstoða neytendur og berjast fyrir réttindum þeirra á fjármálamarkaði.
Rökin fyrir slíkri fjárveitingu eru m.a. eftirfarandi:
-
Aðstöðumunur: Allt „kerfið“ stendur með fjármálafyrirtækjunum.
-
Ofurefli: Neytandi má sín einskis komi upp ágreiningur á milli hans og bankans.
-
Þekking: Gríðarleg sérþekking á málefnum skuldara og réttindum neytenda á fjármálamarkaði hefur safnast upp innan vébanda Hagsmunasamtaka heimilanna. Þessa þekkingu er hvergi annars staðar að finna.
Árið 2010 var embætti Umboðsmanns skuldara stofnað en það sinnir ekki neytendavernd og hefur því miður ekki virkað sem skyldi fyrir skuldara. Ekki er til eitt einasta dæmi um að UMS hafi mótmælt kröfu banka fyrir hönd skuldara eða farið fram á endurútreikninga því það er ekki hans hlutverk að rugga bátnum. UMS gerir hins vegar greiðsluáætlun fyrir skuldarann til að standa undir kröfum bankans. Embætti UMS er á framfæri fjármálafyrirtækjanna og hefur fengið um 5 milljarða frá stofnun til að sinna þessu hlutverki.
Í öllu „kerfinu“ er enginn aðili sem gætir réttinda neytanda á fjármálamarkaði. Þar eru hins vegar ansi margir sem með beinum og óbeinum hætti gæta hagsmuna fjármálafyrirtækja.
Neytendvernd á fjármálamarkaði
Hagsmunasamtök heimilanna eru þau einu á Íslandi sem gæta hagsmuna og réttinda neytenda á fjármálamarkaði og það hefur því miður sýnt sig að ekki er vanþörf á. Það er sorgleg staðreynd að þó staða neytenda á fjármálamarkaði sé alls ekki góð, væri hún mun verri ef Hagsmunasamtaka heimilanna hefði ekki notið við.
Það er einnig staðreynd að Hagsmunasamtök heimilanna hafa hjálpað meira en 4000 einstaklingum og fjölskyldum með beinum hætti, í baráttu þeirra við banka og fjármálastofnanir, sem eru svipað margir og þeir sem komist hafa í gegnum skilyrði UMS til að hljóta aðstoð. Í því samhengi má minna á að Hagsmunasamtök heimilanna eru grasrótar og sjálfboðaliðasamtök sem eru rekin með valkvæðum félagsgjöldum og nær engum opinberum styrkjum. Það er eitthvað mjög skakkt við þessa mynd auk þess sem það samsvarar illa valfrelsi neytenda að einungis sé í boði „ein ríkisleið“, lendi fólk í vanda með fjárskuldbindingar sínar. Neytendur eiga rétt á óháðri ráðgjöf um stærstu skuldbindingar lífsins og að hafa val um hvert þeir leita, þurfi þeir aðstoð eða óháða ráðgjöf um möguleika sína og leiðir. Það eru grundvallarmannréttindi.
Það minnsta sem núverandi ríkisstjórn getur gert er að tryggja jöfnuð og að skuldarar eigi kost á bestu hjálp og réttargæslu sem til er.
Því verður ekki á móti mælt að þekkingin á réttindum neytenda á fjármálamarkaði er hvergi meiri en innan Hagsmunasamtaka heimilanna og það er skýlaus skylda ríkisstjórnarninnar að tryggja aðgengi neytenda að henni. Fasteignalán heimilanna eru stærstu skuldbindingar þeirra. Samt er ekki um nein formleg fjárframlög að ræða frá ríkinu fyrir óháða neytendavernd á fjármálamarkaði sem þarf nauðsynlega að vera til staðar, líka í góðæri. Nú er kreppa í uppsiglingu og ljóst að mörg heimili munu lenda í vandræðum og þurfa á ráðgjöf að halda og því enn meiri nauðsyn enn annars að tryggja neytendum óháða og góða ráðgjöf um réttindi sín og lánamöguleika.
Hagsmunasamtök heimilanna telja eðlilegt til að alls jafnræðis sé gætt að þau fái sömu fjárveitingar og UMS, en sé tregða til að auka útgjöld úr ríkissjóði á þessum tímum gerum við það að tillögu okkar að það fé sem ætlað sé til rekstrar UMS, skiptist jafnt á milli embættisins og Hagsmunasamtaka heimilanna, til hagsbóta fyrir skuldara og neytendur á fjármálamarkaði.
Hagsmunasamtök heimilanna