Heimilin á óvissutímum
Ávarp formanns til félagsmanna í nýlegu fréttabréfi HH
Það er í algjörum forgangi hjá Hagsmunasamtökum heimilanna á þessum tímum að verja heimilin fyrir afleiðingum Covid-19. Krafa okkar er sú að enginn, ekki ein einasta fjölskylda, eigi að missa heimili sitt vegna aðstæðna sem þær bera enga sök á. Þetta höfum við fjallað um í ræðu og riti en eins og sjá má á listanum neðst í þessu fréttabréfi yfir verkefni HH síðan veiran kom upp, höfum við ekki legið á liði okkar.
Það er miður að enn sem komið er höfum við enga tryggingu fyrir því að þessari sjálfsögðu kröfu okkar verði mætt. Það er fyrst og fremst pólitísk ákvörðun hvort heimilin verði varin eða ekki og við erum að gera okkar besta til að setja þrýsting á stjórnvöld um að taka þá ákvörðun.
Þó að fullvissan sem við viljum fá fyrir heimilin sé ekki enn fengin, erum við samt alls ekki búin að gefast upp, og munum aldrei gefast upp!
Samtökin hafa, eins og svo margir aðrir, þurft að skipta um gír á þessu ári. Það hefur ekki enn fengist réttlæti fyrir þá sem brotið var á eftir hrun. Sú barátta er ekki gleymd, en hins vegar má segja að hún sé geymd um þessar mundir, því núna erum við fyrst og fremst í varnarbaráttu, því hvað sem öðru líður mega skelfingarnar sem áttu sér stað í kjölfar bankahrunsins, alls ekki endurtaka sig!
Það er staðreynd að enginn er að berjast fyrir hagsmunum heimilanna nema HH. Auðvitað skiptir barátta annarra, eins og t.d. verkalýðsfélaga, máli fyrir heimilin, en barátta þeirra er samt á öðrum grunni. Hvað varðar hagsmuni og réttindi neytenda á fjármálamarkaði, standa HH ein og hvergi er viðlíka þekking á þeim málum eins og innan vébanda samtakanna.
Við þurfum ykkar stuðning. Allir stjórnarmenn sinna störfum sínum fyrir HH í sjálfboðastarfi fyrir utan önnur störf. Aðstöðumunur okkar annars vegar og hins vegar hagsmunasamtaka fjármálafyrirtækja (SFF) er gríðarlegur en ef ekki væri fyrir HH væri engin fyrirstaða fyrir þau til að valta yfir heimilin.
Á tímum sem þessum eru sterk samtök neytenda á fjármálamarkaði jafnvel enn mikilvægari en annars.
Takk fyrir þinn stuðning.
Kær kveðja,
Ásthildur Lóa Þórsdóttir, formaður.
Hagsmunasamtökin hafa ekki legið á liði sínu í baráttunni fyrir heimilin frá því að Covid faraldurinn hófst. Hér fyrir neðan má sjá nokkuð af því sem samtökin hafa gert:
Tilkynningar á vefsíðu samtakanna: Guð blessi heimilin - aftur? - Tími til aðgerða er núna! - ÍTREKUN - Tryggjum heimilunum skjól undir öruggu þaki
Yfirlit yfir helstu verkefni HH síðan COVID-19 faraldurinn braust út:
Frá 11. mars til 28. október
- 28. október Fulltrúar HH taka þátt í samráðsfundi félagsmálaráðherra um stöðu heimila í veirukreppunni
- 20. október HH senda umsögn í samráðsgátt um drög að reglugerð um hlutdeildarlán
- 20. október HH senda Alþingi umsögn um lyklafrumvarp
- 20. október Fulltrúar samtakanna fjarfunda með félagsmálaráðherra, Ásmundi Einari Daðasyni um málefni heimilanna
- 7. október Formaður HH í viðtali í útvarpsþættinum Harmageddon á X-inu í tilefni af yfirlýsingu stjórnar (1:48:30)
- 6. október HH senda frá sér yfirlýsingu stjórnar í tilefni dagsins - Guð blessi heimilin - aftur? (Sjá einnig: Alþingismaður fjallar um fréttatilkynningu HH)
- 29. september Fulltrúar HH funda með Ragnari Þór Ingólfssyni, formanni VR um mál tengd verðtryggingunni og fleira
- 17. september Visir.is birtir grein eftir formann HH - Tími til aðgerða er núna!
- 15. september HH senda frá sér fréttatilkynningu með ítrekun - Tryggjum heimilunum skjól undir öruggu þaki
- 15. september HH beina áskorun til ráðherra ríkisstjórnarinnar - Tryggjum heimilunum skjól undir öruggu þaki
- 8. september HH senda frá sér fréttatilkynningu - Hræðsluáróður um óverðtryggð lán (Sjá umfjöllun mbl.is: Aldrei varað við verðtryggðum lánum)
- 31. ágúst Fulltrúar HH funda með Kristjáni Þórði Snæbjarnarsyni, formanni Rafiðnaðarsambandsins og 1. varaforseta ASÍ í tilefni af því að Rafiðnaðarsambandið lýsti yfir stuðningi við gerð rannsóknarskýrslu heimilanna, um eignaupptöku heimila eftir bankahrunið
- 20. ágúst Formaður HH í viðtali í síðdegisútvarpinu á Útvarpi Sögu um stöðu heimilanna í Covid-kreppunni
- 3. ágúst Eldri grein formanna HH og VR aftur meðal þeirra mest lesnu á visir.is eftir endurbirtingu á facebook síðu HH
- 10. júní HH senda frá sér fréttatilkynningu - Heimilin eiga skýlausan rétt á óháðri ráðgjöf á fjármálamarkaði (Sjá umfjöllun Eyjunnar/DV: Krefjast fjárveitingar - grundvallarmannréttindi)
- 29. maí Formaður HH í viðtali í þættinum Rauða borðinu á streymisvarpinu Samstöðin, ásamt fleirum (félagsleg staða skuldarans rædd)
- 28. maí HH birta fréttatilkynningu - Glæpur gegn heimilunum að tengja skuldir þeirra við vísitölu neysluverðs
- 22. maí Fulltrúar HH sækja kynningarfund hjá Hagstofu Íslands um vísitölu neysluverðs
- 19. maí HH birta frétt á Neytendatorgi um grein formanna HH og VR - Eiga bankar að hagnast á Covid-19?
- 14. maí Visir.is birtir grein eftir formenn HH og VR - Þarf endilega að fleygja einhverjum útbyrðis í þetta sinn?
- 14. maí HH halda rafrænan félagsfund með fjarfundabúnaði þar sem forysta samtakanna situr fyrir svörum
- 8. maí HH senda erindi til félagsmálaráðuneytisins vegna fjármögnunar á óháðri ráðgjöf á fjármálamarkaði
- 6. maí HH senda Alþingi umsögn um frumvarp um frestun á nauðungarsölum vegna áhrifa heimsfaraldurs
- 30. apríl HH birta og senda út fréttatilkynningu - Hindrar Hagstofan lækkun vísitölu?
- 21. apríl Formaður HH í viðtali í þættinum 21 á Hringbraut um stöðu heimilanna
- 21. apríl Fjarfundur með allsherjarnefnd Alþingis um frumvarp um símafyrirtökur sýslumanna o.fl.
- 20. apríl Fréttatilkynning birt og send til fjölmiðla - Dómsmálaráðherra vill "síma-nauðungarsölur" (Sjá umfjöllun visir.is: Misskilnings gætt með frumvarp um rafræna þjónustu)
- 20. apríl HH senda Alþingi umsögn um frumvarp um rafræna málsmeðferð hjá sýslumönnum og dómstólum
- 17. apríl Visir.is birtir grein eftir formenn HH og VR - Erum við öll í sama báti?
- 16. apríl Formaður HH í viðtali í þættinum Rauða borðinu á Samstöðinni, ásamt verkalýðsforkólfum
- 6. apríl Formaður HH í Bítið á Bylgjunni og Stöð 2 um stöðu heimilanna í efnahagssamdrætti
- 3. apríl Visir.is birtir opið bréf formanns HH til forsætisráðherra - „Alveg eins og var gert eftir hrun”
- 31. mars HH senda spurningar til forsætisráðherra í umræðuþátt á RÚV um stöðu heimilanna
- 26. mars Formaður HH í viðtali í Reykjavík síðdegis um aðgerðir ríkisstjórnarinnar
- 26. mars HH senda frá sér fréttatilkynningu vegna afstöðu Seðlabankastjóra til þaks á verðtryggingu
- 25. mars Fjarfundur með fjárlaganefnd Alþingis um aðgerðir vegna heimsfaraldurs kórónuveiru
- 24. mars Formaður HH í viðtali í þættinum Rauða borðinu á Samstöðinni, ásamt verkalýðsforkólfum
- 24. mars Fjarfundur með efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis um aðgerðir vegna heimsfaraldurs
- 24. mars HH senda Alþingi umsögn um aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru
- 24. mars Visir.is birtir grein eftir forystufólk HH - Hagsmuna fjármálafyrirtækja gætt en heimilin sniðgengin
- 18. mars Áskorun til ríkisstjórnarinnar og alþingismanna - Heimilin eru grunnstoðir samfélagsins!
- 11. mars HH beina áskorun til ríkisstjórnarinnar - Viðspyrnu er þörf fyrir hagkerfið og heimilin
Almenningur er ekki fóður fyrir bankana!
Með kveðju frá Hagsmunasamtökum heimilanna