Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Svör framboða við spurningum um málefni heimilanna

Svör framboða við spurningum um málefni heimilanna

Nú í aðdraganda Alþingiskosninga 2021 beindu Hagsmunasamtök heimilanna spurningum til stjórnmálaflokka um afstöðu þeirra til ákveðinna málefna sem snerta hagsmuni heimilanna. Við birtum nú þau svör sem hafa borist frá þeim tíu sem hafa lagt fram framboðslista á landsvísu, í stafrófsröð eftir heiti framboðs. Nokkur framboð hafa ekki svarað og eitt svaraði ekki fyrri hluta spurninganna, en þögn þeirra er metin sem svo að þeir hafi kosið að "skila auðu" um viðkomandi málefni. Vonandi geta þau svör sem hafa borist gagnast félagsmönnum samtakanna til að móta kosningavilja sinn.


Fyrst koma 6 krossaspurningar þar sem svarmöguleikarnir voru já eða nei.

1. Er þitt framboð fylgjandi því að fella heimildir til verðtryggingar lána til neytenda brott úr lögum?

  • Já: Flokkur fólksins, Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn, Píratar, Sósíalistaflokkur Íslands.
  • Nei: Samfylkingin, Viðreisn:

2. Er þitt framboð fylgjandi því að lögfesta rétt neytenda með eldri verðtryggð lán til að fá þeim breytt í óverðtryggð lán án íþyngjandi kostnaðar og skilyrða?

  • Já: Flokkur fólksins, Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn, Píratar, Samfylkingin, Sósíalistaflokkur Íslands.
  • Nei: Viðreisn.

3. Er þitt framboð fylgjandi því að afnema stimpilgjöld vegna kaupa á íbúðarhúsnæði?

  • Já: Flokkur fólksins, Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn, Píratar, Samfylkingin, Sósíalistaflokkur Íslands, Viðreisn.

4. Er þitt framboð fylgjandi því að Alþingi skipi Rannsóknarnefnd sem verði falið að vinna skýrslu um áhrif bankahrunsins og afleiðinga þess á heimilin og afdrif þeirra í kjölfarið, sem kalla mætti “Rannsóknarskýrslu heimilanna”?

  • Já: Flokkur fólksins, Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn, Píratar, Samfylkingin, Sósíalistaflokkur Íslands, Viðreisn.

5. Er þitt framboð fylgjandi því að Ísland undirriti og fullgildi valfrjálsa bókun við alþjóðasamninginn um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi?

  • Já: Flokkur fólksins, Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn, Píratar, Samfylkingin, Sósíalistaflokkur Íslands, Viðreisn.

6. Er þitt framboð fylgjandi endurskoðun á lögum um nauðungarsölu, aðför og öðrum lögum á tengdum sviðum, til að bæta réttarstöðu neytenda gegn kröfuhöfum?

  • Já: Flokkur fólksins, Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn, Píratar, Samfylkingin, Sósíalistaflokkur Íslands, Viðreisn.

Samanlagður fjöldi krossaspurninga sem hvert framboð svaraði játandi:

  • Flokkur fólksins: 6
  • Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn: 6
  • Píratar: 6
  • Sósíalistaflokkur Íslands: 6
  • Samfylkingin: 5
  • Viðreisn: 4

Eftirfarandi framboð skiluðu auðu við krossaspurningunum:

  • Framsóknarflokkurinn
  • Miðflokkurinn
  • Sjálfstæðisflokkurinn
  • Vinstri hreyfingin - grænt framboð

Næst koma 4 efnisspurningar sem framboðin gátu svarað hvernig sem þau vildu.

7. Hvernig telur þitt framboð best að tryggja nægilegt framboð viðunandi íbúðarhúsnæðis á hóflegu verði fyrir meðal- og lágtekjufólk?

Flokkur fólksins:

  • Tryggja þarf nægt framboð á byggingarlóðum fyrir íbúðarhúsnæði.
  • Íbúðalóðir eiga að vera seldar á kostnaðarverði, húsnæði er lífsnauðsyn sem á ekki að vera háð duttlungum markaðsbrasks.
  • Skipulags- og byggingareglugerðir mega ekki fela í sér og íþyngjandi skilyrði sem auka byggingarkostnað að óþörfu.

Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn:

  • Sjá heimasíðu okkar www.x-o.is

Píratar:

  • Byggja fleiri íbúðir.
  • Tryggja framboð á félagslegu húsnæði, nemendaíbúðum og dvalarúrræðum fyrir eldra fólk.

Samfylkingin:

  • Efla almenna íbúðarkerfið með mun fleiri stofnstyrkjum til sveitarfélaga, stéttarfélaga og óhagnaðardrifinna félagasamtaka.

Sósíalistaflokkur Íslands:

  • Við munum byggja 30.000 félagslegar íbúðir á næstu tíu árum.

Viðreisn:

  • Með því að binda gengi krónunnar við evru er hægt að ná vöxtum niður og skapa heilbrigðara vaxtaumhverfi í líkingu við það sem þekkist í löndunum í kringum okkur. Með bindingu krónunnar við evru skapast fyrirsjáanleiki sem gerir verðtryggingu óþarfa, líkt og í öðrum löndum. Hún mun því hverfa í kjölfarið.
  • Samhliða þessu þarf að tryggja nægilega uppbyggingu nýrra íbúða til að umframeftirspurn skapist ekki á markaðnum og þrýsti verðum upp. Fullnægjandi byggingarmagn næst með því að skipulag taki mið af raunverulegri þörf og með því að tryggja að regluverkið sé ekki of íþyngjandi. Þetta tvennt er til þess fallið að gera húsnæðismarkaðinn aðgengilegri fyrir meðal- og lágtekjufólk.

Vinstrihreyfingin - grænt framboð:

  • VG hefur talað fyrir áframhaldandi uppbyggingu og eflingu almenna íbúðakerfisins og hlutdeildarlána.
  • Til að tryggja nægilegt framboð af mannsæmandi húsnæði á viðráðanlegum kjörum þarf aukinheldur að fjölga úrræðum til að koma til móts við ólíkar þarfir fólks.
  • Til greina kemur að opna á möguleikann á búsetuskyldu í húsnæði í þéttbýli að tilteknum skilyrðum uppfylltum, eins og þekkist í nágrannalöndum okkar.
  • Útgangspunkturinn á að vera að húsnæði sé mannréttindamál og að öll þurfum við þak yfir höfuðið.
  • Hið opinbera þarf að setja kraft og fjármagn á komandi árum til að efla þessi kerfi en einnig er mikilvægt að líta til þátta eins og samgangna svo að hagstætt húsnæðisverð étist ekki upp í hærri samgöngukostnaði. Hagstjórnin þarf einnig að halda áfram að vera skynsöm til að tryggja gott atvinnustig og skikkanlegt vaxtastig í landinu og að vaxtastigið skili sér til neytenda.

8. Hvernig telur þitt framboð best að tryggja húsnæðisöryggi heimila í eigin húsnæði og á leigumarkaði og verja þau fyrir óvæntum áföllum á borð við efnahagskreppu, atvinnuleysi, slys, sjúkdóma eða annað sem getur skert greiðslugetu þeirra?

Flokkur fólksins:

  • Enginn á að vera sviptur heimili sínu vegna aðstæðna sem hann hefur ekki stjórn á eða er valdur að.
  • Leita þarf leiða til að hjálpa fólki yfir tímabundna erfiðleika sem geta komið upp á lífsleiðinni, svo sem vegna slysa, veikinda, atvinnuleysis og annarra ófyrirséðra atburða.

Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn:

  • Sjá heimasíðu okkar www.x-o.is

Píratar:

  • Stöðugleiki í efnahagsmálum til þess að gerðir samningar standist.
  • Nægt framboð á íbúðum.
  • Að tillitssemi sé ríkjandi viðhorf þegar kemur að húsnæðisöryggi fólks.

Samfylkingin:

  • Með húsnæðisbótum sem taka tillit til aðstöðu fólks og fjölskyldustærðar.

Sósíalistaflokkur Íslands:

  • Við munum byggja 30.000 félagslegar íbúðir á næstu tíu árum.

Viðreisn:

  • Með því að stuðla að heilbrigðu vaxtaumhverfi drögum við úr fasteignakostnaði allra, bæði í eigin húsnæði og á leigumarkaði. Það gefur fólki aukið ráðstöfunarfé og svigrúm til að mæta óvæntum áföllum. Fjölskyldur í landinu eiga ekki að borga fyrir það að við höldum uppi sveiflukenndum og dýrum gjaldmiðli.

Vinstrihreyfingin - grænt framboð:

  • Líkt og fram kom í ofangreindu svari telur VG það mikilvægt að halda áfram að efla félagslegu húsnæðiskerfin eins og almenna íbúðakerfið og hlutdeildarlánakerfið og halda áfram að fjölga úrræðum.
  • Það er einnig lykilatriði halda áfram að efla félagslegu framfærslukerfin þannig að öryggisnetið sé nógu þétt til að grípa fólk og tryggja framfærslu þess í hvers konar áföllum.

9. Hvernig telur þitt framboð best að styrkja réttarstöðu neytenda á fjármálamarkaði?

Flokkur fólksins:

  • Það er grundvallaratriði að efla og styðja við óháð samtök sem berjast fyrir réttindum og heildarhagsmunum neytenda á fjármálamarkaði. Hagsmunasamtök heimilanna hafa ein verið að gera þetta í rúman áratug eins og hægt er í sjálfboðavinnu gegn til dæmis SFF og öðru ofurvaldi lánastofnana og allra þeirra sem lána og höndla með peninga sem eru með fullt af fólki á góðum launum við að berjast gegn réttindum neytenda og almennings í landinu.
  • Komi í ljós að óréttmætir skilmálar séu í stöðluðum samningum eiga þeir skilmálar að falla sjálfkrafa niður og ekkert annað að koma í staðinn, svo að fjármálafyrirtækið sem samdi skilmálana finni fyrir afleiðingum gjörða sinna. Þetta kemur fram í þeim lögum sem við erum búin að innleiða en hefur ekki verið virt af stjórnvöldum eða dómskerfinu hingað til, því miður.
  • Tryggja þarf rétt neytenda sem verða fyrir barðinu á óréttmætum viðskiptaháttum að fá tjón sitt bætt að fullu þannig að tjónvaldurinn finni fyrir því.
  • Auka þarf aðgang neytenda og samtaka þeirra að dómstólum og öðrum viðeigandi réttarúrræðum til að leita réttar síns vegna ólögmætrar háttsemi.

Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn:

  • Sjá heimasíðu okkar www.x-o.is

Píratar:

  • Gott samkeppniseftirlit, fjármálaeftirlit og aðrar eftirlitsstofnanir.
  • Skýr viðurlög við brotum.
  • Svo þurfum við öfluga Neytendastofu, Neytendasamtök og meira gagnsæi í öllum neytendamálum.

Samfylkingin:

  • Með lagasetningu sem tryggir neytendavernd á fjármálamarkaði og með kröfum á fjármálafyrirtæki um skýrar upplýsingar til neytenda.
  • Fleiri tegundir banka, s.s. samfélagsbanka og viðskiptabanka annars vegar og fjárfestingabanka hins vegar leiðir til samkeppni á fjármálamarkaði til hagsbóta fyrir neytendur. Ríkjandi fákeppni á fjármálamarkaði bitnar á neytendum.

Sósíalistaflokkur Íslands:

  • Með nýrri neytendalöggjöf sem takmarkar vald fjármálafyrirtækja til að ákvarða einhliða kjör og kostnað.

Viðreisn:

  • Neytendamál hafa verið hornreka í íslenskri stjórnsýslu. Við þurfum að styðja við eftirlitsstofnanir á sviði neytendamála, eins og Neytendasamtökin, og tryggja að löggjöfin sé sanngjörn.
  • Aðstöðumunur neytenda og fjármálastofnana er mikill og við getum unnið gegn honum m.a. með því að tryggja að innheimtukostnaður sé innan eðlilegra marka, með því að gera neytendum kleift að sækja bætur vegna samkeppnislagabrota og með því að fjölga þeim verkfærum sem neytendum standa til boða, t.d. með því að heimila hópmálsóknir.

Vinstrihreyfingin - grænt framboð:

  • VG hefur í sinni neytendastefnu að auka neytendavernd meðal annars á fjármálamarkaði og talað fyrir heildstæðri löggjöf á sviði neytendamála. Í þeim efnum má til dæmis líta til nágrannalanda okkar.
  • Mikilvægt er að skapa fyrirsjáanleika og festu fyrir neytendur og að þeir sitji ekki í súpunni við áföll heldur að áhættunni sé skipt á sanngjarnan hátt og að fjármálastofnanir hafi það að leiðarljósi að aðstoða fólk í að vinna sig í gegnum vanda.

10. Hvað telur þitt framboð mikilvægast að gera til að tryggja öllum óháð stétt og stöðu að lágmarki nægilega framfærslu til að lifa hófsömu og mannsæmandi lífi?

Flokkur fólksins:

  • Þetta eru nokkur af stefnumálum flokksins sem svara þessari spurningu ágætlega:
  • Lágmarksframfærsla verði 350.000 kr. skatta- og skerðingalaust.
  • Skattleysismörk verði hækkuð í 350.000 kr. á mánuði.
  • Við munum koma á nýju almannatryggingakerfi, sem tryggir lágmarksframfærslu. Komum í veg fyrir að óskiljanlegar og víxlverkandi skerðingarreglur læsi fólk í fátæktargildru.
  • Við munum hækka frítekjumark ellilífeyris vegna lífeyristekna frá 25.000 kr. upp í 100.000 kr.
  • Við ætlum að leggja niður skerðingar á ellilífeyri vegna atvinnutekna.
  • Við ætlum að heimila öllum öryrkjum sem treysta sér til, að reyna fyrir sér á vinnumarkaði í tvö ár án skerðinga og án þess að örorka þeirra sé endurmetin.
  • Fyrir frekari upplýsingar sjá stefnumál flokksins á www.flokkurfolksins.is

Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn:

  • Sjá heimasíðu okkar www.x-o.is

Píratar:

  • Það er margt sem þarf að passa saman til þess að halda jafnvægi hjá þeim sem eru með lægstu tekjurnar þannig að þær standi rúmlega undir framfærslu.
  • Það þarf heilbrigðan húsnæðismarkað þar sem meira að segja fólk á lágmarkslaunum geta eignast húsnæði.
  • Það þarf stöðugleika til þess að viðhalda kaupmætti.
  • Það þarf hágæða heilbrigðisþjónustu þar sem fólk þarf ekki að velja á milli heilsu og að eiga fyrir mat.
  • Það þarf aðgengilegt menntakerfi sem býður öllum upp á tækifæri til þess að læra og gera meira.
  • Það er engin töfralausn. Það þarf stöðugt að viðhalda þessu jafnvægi.

Samfylkingin:

  • Öflug stéttarfélög sem semja um mannsæmandi laun. Verja rétt launafólks á vinnumarkaði og vinna gegn brotum á vinnumarkaði.
  • Barnabætur hækkaðar þannig að barnafólk með meðaltekjur fái óskertar barnabætur.
  • Tryggja að lífeyrir verði aldrei lægri en lágmarkslaun en mikill munur er þar á núna.
  • Efla húsnæðisbótakerfið sem tekur tillit til fjölskyldustærðar.
  • Peningastefna Seðalabankans og efnahagsstefna ríkisstjórnar togi vagninn í sömu átt til að halda verðbólgu niðri og vöxtum lágum.
  • Innganga í ESB og skipta krónunni út fyrir evru er mikið hagsmuna mál fyrir heimilin í landinu.

Sósíalistaflokkur Íslands:

  • Við viljum að ellilífeyrir og örorkubætur fylgi ávallt lágmarkslaunum þar til opinbert framfærsluviðmið hefur verið lögfest.

Viðreisn:

  • Eitt stærsta hagsmunamál neytenda að halda vöxtum og verðbólgu í skefjum og koma á stöðugleika í gengismálum. Það verður best gert með því að byrja á því að festa gengi krónunnar við evru. Þannig getum við dregið úr húsnæðiskostnaði og matarkostnaði heimilanna.
  • Því til viðbótar þarf að tryggja jaðarsettum hópum, á borð við lífeyrisþegum og atvinnulausum, fullnægjandi stuðning. Viðreisn berst fyrir því að enginn lífeyrisþegi almannatrygginga fái lægri heildartekjur en sem nemur lágmarkslaunum og að dregið sé verulega úr skerðingum.

Vinstrihreyfingin - grænt framboð:

  • Það þarf að leggja áherslu á ýmis atriði til að tryggja öllum nægilega framfærslu til að lifa mannsæmandi lífi.
  • Til að mynda er mikilvægt að halda áfram hækka laun þeirra lægst launuðu í samfélaginu í kjarasamningum sem og að hækka atvinnuleysisbætur.
  • Það skiptir jafnframt miklu máli að samspil almannatrygginga og lífeyrissjóða sé þannig að fólk hafi mannsæmandi framfærslu hvort það sem er á örorkulífeyri eða ellilífeyri og fari ekki niður fyrir ákveðin mörk í þeim efnum. Líkt og í kjarasamningum þarf að huga að því að hækka framfærslu þeirra sem lægstu framfærsluna hafa.
  • Í atvinnumálum er mikilvægt að skapa verðmæt störf hér á landi, til dæmis í grænum atvinnugreinum og öðrum þekkingargeirum en einnig með því að vinna hráefni eins og fisk að mestu leyti hér á landi.
  • Halda þarf áfram byggingu hagkvæms húsnæðis í almenna íbúðakerfinu og efla það kerfi áfram svo allir geti haft aðgang að leiguhúsnæði á viðráðanlegum og sanngjörnum kjörum með fyrirsjáanleika og húsnæðisöryggi að leiðarljósi. Að sama leyti þarf að efla hlutdeildarlánakerfið.
  • Það má einnig segja að hagstjórnin öll þurfi að halda áfram að miða að því að bæta líf fólksins í landinu og skapa velsældarhagkerfi þar sem litið er til ýmissa ólíkra þátta þegar hagsæld og lífsgæði eru mæld í stað þess að einblína eingöngu á hagvöxt.

Eftirfarandi framboð skiluðu auðu við efnisspurningunum:

  • Framsóknarflokkurinn
  • Miðflokkurinn
  • Sjálfstæðisflokkurinn

© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum