Tryggjum að enginn missi heimili sitt vegna verðbólgu og vaxtahækkana!
Áskorun - Hagsmunasamtök heimilanna hafa sent ríkisstjórn Íslands áskorun um að tryggja að enginn missi heimili sitt vegna verðbólgu og vaxtahækkanna.
Ríkisstjórnin kynnti í lok síðustu viku aðgerðir til handa þeim sem verst eru staddir vegna þeirrar verðbólgu sem nú geisar og fyrirsjáanlegra vaxtahækkana bankanna. Hún tók jafnframt ákvörðun um að ráðast ekki í neinar aðgerðir fyrir þá sem þurfa að greiða af húsnæðislánum.
Afleiðingar heimsfaraldurs og stríðs
Frá upphafi heimsfaraldursins hafa Hagsmunasamtök heimilanna kallað eftir vernd fyrir heimilin; að enginn missi heimili sitt vegna afleiðinga heimsfaraldurs enda ekki á valdi einstaklinga eða fjölskyldna að hafa áhrif á afleiðingar hans. Sama á nú við um afleiðingar stríðsátaka í Úkraínu.
Þrátt fyrir að eiginfjárstaða heimilanna hafi vissulega batnað með hækkandi fasteignaverði, hafa ráðstöfunartekjur þeirra ekki hækkað að sama skapi. Eiginfjárstaða borgar enga reikninga.
Ljóst er að mörg heimili standa frammi fyrir miklum fjárhagslegum erfiðleikum á næstu mánuðum, þegar greiðslubyrði lána mun hækka um tugi þúsunda. Húsnæðismarkaður hefur verið erfiður þannig að margir hafa neyðst til að spenna bogann hátt til að geta komið sér þaki yfir höfuðið.
Hagsmunasamtök heimilanna telja augljóst að nú sé tímabært að ríkisstjórnin taki pólitíska ákvörðun um að enginn skuli missa heimili sitt í því ástandi sem fyrirsjáanlegt er að vari um hríð og beina því til Ríkisstjórnar Íslands, að gefa út yfirlýsingu þess efnis.
Þar sem er vilji, þar er vegur. Ríkisstjórnin hefur tekið meðvitaða ákvörðun um að láta vaxtahækkanir falla af fullum þunga á heimili landsins, væntanlega í þeirra von að þær skili tilætluðum árangri. Sú von getur reynst þúsundum heimila gríðarlega dýrkeypt og í því sambandi má minna á að á flestum heimilum búa börn, sem samkvæmt sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna, eiga rétt á að búa á öruggu heimili.
Hagsmunasamtök heimilanna minna á að tugþúsundir misstu heimili sín í kjölfar bankahrunsins 2008. Slíkar hörmungar mega aldrei endurtaka sig.
Við biðjum ríkisstjórn Íslands að lýsa því yfir að þær fjölskyldur sem ekki geti staðið undir hækkandi greiðslubyrði komandi mánaða, muni ekki missa heimili sín, heldur verði leitað allra leiða til að hjálpa þeim út úr þessum tímabundnu erfiðleikum svo þær geti risið á ný þegar aftur sér til sólar.
Hagsmunasamtök heimilanna búa yfir meiri og víðtækari þekkingu en nokkur annar aðili eða stofnun á Íslandi, á afleiðingum hrunsins fyrir heimili og einstaklinga, ásamt því sem vel var gert og því sem betur hefði mátt fara, til að koma í veg fyrir heimilismissi tugþúsunda.
Samtökin bjóða fram þekkingu sína og aðstoð við útfærslu á þeim leiðum sem hægt væri að fara til að tryggja að enginn missi heimili sitt vegna afleiðinga utanaðkomandi aðstæðna og atburða sem þau hafa enga stjórn á. Með virku samtali stjórnvalda, lánveitenda og neytenda er vel hægt að búa svo um hnútana, samstaða og samfélagsleg ábyrgð er allt sem þarf.
Ef Ísland á að vera land tækifæranna verður að gefa heimilunum tækifæri til að dafna.
Almenningur er ekki fóður fyrir fjármálakerfið!
Hagsmunasamtök heimilanna
9. maí 2022 Fréttablaðið:
Hagsmunasamtök heimilanna skora á ríkisstjórn að styðja við heimilin í landinu
9. maí 2022 Útvarp Saga: