Almenningur er ekki fóður fyrir bankana!
Opið bréf til forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra
Nokkrar ályktanir sem má draga af hagnaðartölum bankanna
Á fyrstu þremur mánuðum ársins högnuðust bankarnir þrír um 17 milljarða. Það er erfitt að fá það til að ganga upp að hagnaður bankana á einum ársfjórðungi sé 17.000 milljónir á sama tíma og heimsbyggðin gengur í gegnum einhverja verstu kreppu síðari tíma.
Hagsmunasamtök heimilanna vilja benda ráðherrum ríkisstjórnarinnar á nokkrar ályktanir sem má draga af þessum gríðarlega hagnaði bankanna:
- Bankarnir hafa nægilegt svigrúm til að lækka vexti enn frekar.
- Heimilin hafa ekki verið varin eins og ríkisstjórnin lofaði.
- Hagnað bankanna á að nýta til uppbyggingar, þjóðinni allri til heilla.
Ályktun #1
Bankarnir hafa nægilegt svigrúm til að lækka vexti enn frekar
Vextir bankanna á húsnæðislánum neytenda eru enn allt of háir á Íslandi. Það er staðreynd að vaxtalækkanir Seðlabankans hafa ekki skilað sér nema að litlu leyti til heimilanna. Núverandi vextir eru þannig um 230% hærri en þeir gætu verið sé tekið mið af stýrivaxtalækkunum undanfarinna tveggja ára. Þetta eru háar fjárhæðir sem hvert heimili munar um.
Hagsmunasamtök heimilanna krefjast þess að Seðlabankinn og stjórnvöld sjái til þess að bankarnir komist ekki upp með að lítilsvirða Seðlabankann með því að hunsa vaxtaviðmið hans og lækki vexti sína á lánum til neytenda án tafar ásamt því að endurgreiða þeim þá vexti sem hafa verið ofteknir.
Ályktun #2
Heimilin hafa ekki verið varin eins og ríkisstjórnin lofaði
Frá því í mars í fyrra, um það leyti sem heimsfaraldurinn var að stinga sér niður hér á landi, hafa Hagsmunasamtök heimilanna ítrekað sent frá sér ályktanir og áskoranir til ríkisstjórnarinnar um að standa vörð um hagsmuni heimilanna og verja fjölskyldurnar í landinu fyrir áhrifum faraldursins.
Sú síðasta var send í síðustu viku: Stjórnvöld hafa brugðist réttmætum væntingum heimilanna.
Ábyrgð ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur er mikil og þá sérstaklega hennar sjálfrar og fjármálaráðherra Bjarna Benediktssonar.
Fjármálaráðherra fullyrti ítrekað að engin hætta væri á verðbólgu, sem núna er komin langt umfram verðbólguviðmið Seðlabanka Íslands. Á sama tíma fullyrti forsætisráðherra að heimilin yrðu varin.
Heimilin hafa ekki verið varin. Það eru heimilin sem veikast standa sem ekki hafa getað flúið verðtryggðu lánin og sitja þar föst ásamt þeim sem ákváðu að treysta orðum ráðherranna tveggja.
Þessi heimili bera núna og um alla framtíð, kostnaðinn af verðbólguskotinu sem fjármálaráðherra hafði „engar áhyggjur af“.
Hagsmunasamtök heimilanna krefjast þess að sett verði þak á verðtryggingu lána heimilanna og afleiðingar þessa verðbólguskots sem heimilin töldu sig varin fyrir. Samtökin telja eðlilegt að þakið verði miðað við verðbólgustigið þann dag sem loforðið um vernd heimilanna var gefið þann 31. mars 2020, og að ríkisvaldið bæti heimilunum þann aukakostnað sem hefur fallið á þau vegna aðgerðarleysis stjórnvalda.
Ályktun #3
Hagnað bankanna á að nýta til uppbyggingar, þjóðinni allri til heilla.
Hagsmunasamtök heimilanna eru alfarið á móti einkavæðingu bankanna og hafa barist gegn henni af krafti. Þau hafa sent frá sér ítrekuð mótmæli og aðvaranir vegna allra hugmynda um einkavæðingu bankanna (sjá t.d. hér, hér og hér).
Þó fleira komi til byggist afstaða samtakanna aðallega á tveimur grundvallaratriðum:
- Hagnað sem þennan á alls ekki að einkavæða heldur nýta okkur öllum til góða.
- Afleiðingar bankahrunsins 2008 hafa ekki enn verið gerðar upp og fjölskyldunum sem misstu heimili sín hefur ekki enn verið bættur skaðinn.
Hagsmunasamtök heimilanna krefjast þess að allar fyrirætlanir um sölu Íslandsbanka, í heild eða að hluta, verði lagðar á hilluna þangað til að kosningum loknum í haust.
Sala Íslandsbanka var ekki á dagskrá síðustu kosninga og ljóst er að andstaða við einkavæðingu bankanna er mikil hjá þjóðinni. Það er lágmark að allir flokkar gefi upp afstöðu sína til einkavæðingar bankanna og gefi þannig þjóðinni kost á að segja hug sinn í lýðræðislegum kosningum. Að öðrum kosti væri sjálfsagt að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mál, því eins og þessar hagnaðartölur bera með sér eru gríðarlegir hagsmunir í húfi fyrir okkur öll.
Ríkisstjórnin þarf að standa undir réttmætum væntingum heimilanna
Heimilin eru ekki afgangsstærð í hagkerfinu heldur undirstaða þess. Án heimilanna væri ekkert hagkerfi því án þeirra væri enginn til að kaupa neinar vörur eða þjónustu.
Orðum fylgir ábyrgð og stjórnmálamenn, ekki síst æðstu ráðamenn þjóðarinnar eins og forsætisráðherra og fjármálaráðherra, verða að vera ábyrgir orða sinna, sérstaklega þegar jafn mikið er í húfi fyrir hvert og eitt heimili og raun ber vitni.
Hagsmunasamtök heimilanna fara hér með fram á fund með forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra við allra fyrsta tækifæri til að ræða um eftirfarandi atriði:
- Hvernig ríkisstjórnin hyggist efna loforð sín um að “verja heimilin” fyrir verðbólguskotinu sem fjármálaráðherra hafði “engar áhyggjur af” en hefur nú raungerst.
- Hvaða aðgerða ríkisstjórnin geti gripið til, í því skyni að tryggja að vaxtalækkanir Seðlabanka Íslands skili sér til neytenda að fullu. Heimilin geta ekki sætt sig við 230% hærri vexti en þeir ættu að vera ef þeir hefðu fylgt vaxtalækkunum seðlabankans í sama hlutfalli.
Við minnum á að almenningur er ekki fóður fyrir bankana!
Hagsmunasamtök heimilanna