Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Afstaða stjórnmálaflokka til verðtryggingar opinberuð

Afstaða stjórnmálaflokka til verðtryggingar opinberuð

Undir þinglok lagði þingkonan Inga Sæland fram breytingartillögu við frumvarp um breytingu á lögum um fasteignalán til neytenda, sem var unnin í samvinnu við Hagsmunasamtök heimilanna.

Þessi hófsama tillaga snerist einfaldlega um að veita neytendum með verðtryggð húsnæðislán rétt til að breyta þeim í óverðtryggð lán, án íþyngjandi kostnaðar og án þess að þurfa nýtt greiðslumat og lánshæfismat, enda óþarft ef greiðslubyrðin hækkar ekki. Þetta hefði orðið mörgum heimilum til hagsbóta sem eru föst í gildru verðtryggðra lána, nú þegar verðbólgan er komin á flug.

Það hefði átt að vera auðvelt að fá tillöguna samþykkta þar sem hún samræmdist stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og stefnu margra flokka sem hafa sumir haft afnám verðtryggingar á stefnuskrám sínum árum saman. Jafnframt felur hún hvorki í sér boð né bann líkt og hefur helst verið gagnrýnt af ýmsum andstæðingum afnáms verðtryggingar sem segjast aðhyllast “valfrelsi neytenda”.

Þrátt fyrir stefnuskrár, fögur fyrirheit og loforð í tengslum við lífskjarasamninga um að taka markviss skref í átt til afnáms verðtryggingar, var tillagan felld með 27 atkvæðum gegn 8. Atkvæðin féllu alveg eftir flokkslínum og afstaða stjórnmálaflokka til að þess að veita neytendum valfrelsi um að afnema verðtryggingu húsnæðislána sinna liggur því fyrir eins skýr og hún getur orðið á þessu stigi.

Hagsmunasamtök heimilanna telja mikilvægt að nú í aðdraganda kosninga séu kjósendur vel upplýstir um afstöðu stjórnmálaflokkanna til afnáms verðtryggingar og valfrelsis neytenda á fjármálamarkaði ásamt afstöðu þeirra til þess að valfrelsi neytenda byggist á jafnræði en ekki mismunun eftir efnahag. Hér á eftir verður því gerð grein fyrir því hvernig hver flokkur um sig greiddi atkvæði um fyrrnefnda tillögu og hvernig sú afstaða kemur heim og saman við fyrri yfirlýsingar og verk þeirra.

(sjá nánari upplýsingar á vef Alþingis um breytingartillöguna og frumvarpið um breytingu á lögum um fasteignalán til neytenda)

Flokkur fólksins:

Flutningsmaður tillögunnar er í þessum flokki og báðir þingmenn hans hafa reynst öflugir talsmenn fyrir afnámi verðtryggingar. Það kemur því ekki á óvart að þau greiddu atkvæði með tillögunni.

Píratar:

Þrátt fyrir að stefnuskrá flokksins taki ekki afstöðu til verðtryggingar, hafa helstu talsmenn hans í slíkum málefnum lýst yfir stuðningi við afnám hennar á undanförnu kjörtímabili. Allir viðstaddir þingmenn flokksins greiddu atkvæði með tillögunni.

Miðflokkurinn:

Þingmenn þessa flokks hafa verið stóryrtir í yfirlýsingum um áherslur á málefni heimilanna í komandi kosningabaráttu og jafnvel lagt fram þingmál sem ætlað er að draga úr vægi verðtryggingar. Það kom því talsvert á óvart að allur þingflokkurinn skyldi sitja hjá við atkvæðagreiðsluna, sem gaf þeim kjörið tækifæri til að sýna afstöðu sína í verki.

Samfylkingin:

Þessi flokkur hefur lýst því yfir að vilja ekki afnema verðtryggingu lána til neytenda nema með því að Ísland gangi fyrst í Evrópusambandið. Hagsmunasamtök heimilanna hafa lengi furðað sig á þessu því annað er ekki háð hinu. Það er alltaf á valdi Alþingis að afnema heimildir til verðtryggingar og þar á að leiða málið til lykta. Allir viðstaddir þingmenn flokksins sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.

Viðreisn:

Yfirlýst stefna Viðreisnar um verðtryggingu lána neytenda er nánast afrit af stefnu Samfylkingarinnar í sama málaflokki. Þingmenn flokksins hafa verið skýrir um að þeir telji ekki koma til greina að afnema verðtryggingu nema Ísland gangi í Evrópusambandið og taki upp evru sem gjaldmiðil. Allir viðstaddir þingmenn flokksins sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.

Framsóknarflokkurinn:

Afnám verðtryggingar lána til neytenda hefur komið skýrt fram á stefnuskrá flokksins frá 2009. Engu að síður greiddu allir viðstaddir þingmenn flokksins atkvæði gegn tillögunni. Einfaldasta skýringin á því er að þannig hafi verið fylgt þeim línum sem hafi verið lagðar í ríkisstjórn og þessu stefnumáli fórnað á altari ríkisstjórnarsamstarfsins. Kjósendur verða sjálfir að leggja dóm á slíka málamiðlun og hvaða þýðingu hún hefur. 

Sjálfstæðisflokkurinn:

Þrátt fyrir að í formlega samþykktri stefnu flokksins hafi lengi mátt merkja stuðning við að draga úr vægi verðtryggingar lána til neytenda hefur það litlu skilað í framkvæmd. Margir þingmenn flokksins, þar á meðal ráðherra málaflokksins, hafa ítrekað látið í ljós efasemdir um afnám verðtryggingar. Allir viðstaddir þingmenn flokksins greiddu atkvæði gegn tillögunni, þrátt fyrir að hún væri til þess fallin að auka valfrelsi og hreyfanleika neytenda, líka þeirra sem verst standa, og stuðla þannig að samkeppni á fjármálamarkaði. 

Vinstrihreyfingin - grænt framboð:

Eins og hinir stjórnarflokkarnir hefur VG haft það á sinni stefnuskrá að draga úr vægi verðtryggingar en það hefur engu að síður litlu skilað í framkvæmd. Þingmenn flokksins hafa oft komið sér hjá því að svara fyrir þetta, en þegar það hefur mistekist hefur reynst fátt um haldbær svör. Allur þingflokkurinn greiddi atkvæði gegn tillögunni, en einfaldasta skýringin á því er eins og fyrr segir að sú lína hafi verið lögð í ríkisstjórn og henni fylgt. Tillagan hefði gagnast þeim best sem verst standa því það er sá hópur sem situr fastur í viðjum verðtryggingar og getur ekki nýtt sér vaxtalækkanir og skuldbreytt lánum sínum. Engar aðrar lausnir hafa komið frá ríkisstjórninni eða VG til að mæta þessum hópi.

Samantekt:

  • Fylgjandi: Flokkur fólksins, Píratar.
  • Sátu hjá: Miðflokkurinn, Samfylkingin, Viðreisn.
  • Andvíg: Framsóknarflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn, Vinstrihreyfingin - grænt framboð.

Hefðu atkvæðin fallið í samræmi við yfirlýsta stefnu hvers flokks um sig er líklegra en ekki að tillagan hefði getað fengist samþykkt, til mikilla hagsbóta fyrir íslenska neytendur. Engu að síður var hún felld með atkvæðum allra viðstaddra þingmanna ríkisstjórnarflokkanna.

Hagsmunasamtök heimilanna vilja einnig benda á að í hjásetu felst afstaða; afstaða með ríkjandi öflum, afstaða gegn breytingum og  afstaða gegn hagsmunum heimilanna á erfiðum tímum. 

Sama dag var frumvarpi fjármála- og efnahagsráðherra um takmarkanir á verðtryggingu vísað aftur til ríkisstjórnar og málið þar með svæft að svo stöddu, sem sýnir ekki heldur vilja til verksins.

Hagsmunasamtök heimilanna telja mikilvægt að kjósendur dragi sínar eigin ályktanir af fyrirliggjandi afstöðu stjórnmálaflokka til verðtryggingar og annarra málefna heimilanna og munu halda áfram að greina frá því hvernig þeir hafa látið þá afstöðu í ljós með orðum sínum og verkum.

Hagsmunasamtök heimilanna





© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum