Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Ályktun frá Ámunda á útifundi 30. jan. 2010

Eftirfarandi ályktun var borin upp á útifundi á Austurvelli 30. jan. 2010 af Ámunda Loftssyni og samþykkt af fundarmönnum með lófataki.

"Með réttlætingu í fjármálalegu neyðarástandi á Íslandi hafa ríkisstjórnir landsins hafið til vegs nýja yfirstétt. Með lagavaldi, erlendum lántökum og hertri skattheimtu er innistæðueigendum og fjárfestum hlíft við öllum afleiðingum þess að þeir með vaxtagræðgi sinni og óraunhæfum arðskröfum komu bankastarfsemi landsins í þrot haustið 2008.

Á sama tíma  hafa verðtryggðir okurvextir, sem ekki eiga neina hliðstæðu annars staðar í heiminum, leitt af sér tvö- til þreföldun skulda  með velþóknun og afskiptalausu samsinni stjórnvalda.

Á Íslandi er réttarstaða skuldara gagnvart lánadrottnum sú lakasta í allri norðurálfu.

Þúsundir landsmanna hafa með þessum hætti verið ofurseldar óvægnum fjármálastofnunum fyrir lífstíð, samtímis því sem hagur hinna efnameiri vænkast dag frá degi.

Almennur útifundurinn á Austurvelli haldinn 30. Janúar 2010 krefst tafarlausrar og afgerandi stefnubreytingar stjórnvalda í málefnum skuldara.

Fundurinn krefst þess að stökkbreyttur höfuðstóll lána verði leiðréttur.

Fundurinn krefst einnig tafarlausrar og afgerandi lækkunar vaxta.

Að bannað verði að tengja vexti við vísitölur eða gengi erlendra gjaldmiðla.

Að þegar í stað verði sett lög er bæti réttarstöðu skuldara til jafns við það sem annarsstaðar þekkist.

Að þegar verði upprætt spilling í íslensku stjórnkerfi og fjármálastofnunum, sem m.a. forseti landsins ræddi í síðasta nýársávarpi sínu til þjóðarinnar.

Fundurinn hafnar frekari erlendum lántökum eða skattaálögum í þeim tilgangi að verja hag hinna efnameiri og skuldlausu og viðhalda hinu vaxandi misrétti og efnamun sem við blasir og vinstri menn og jafnaðarmenn í ríkisstjórn Íslands hafa gert að málstað sínum.

Fundurinn heitir á samtök vinstri manna og jafnaðarmanna hvar sem þau finnast, að beita áhrifum sínum gagnvart systurflokkum þeirra á Íslandi sem með framgöngu sinni gagnvart skuldurum og blindri hagsmunavörslu fyrir fjármagnseigendur, fótumtreður allar hugsjónir félagshyggju og jafnaðarmanna. Ennfremur að þau leitist við að hafa áhrif á afstöðu ríkisstjórna landa sinna og tryggja að Íslensku ríkisstjórninni verði ekki veitt frekari lánafyrirgreiðsla fyrr en hlutur hinna skuldsettu  á Íslandi hefur verið leiðréttur.

Fundurinn skorar á alla sem láta sig velferð íslensks almennings og samfélags varða að taka undir þessa ályktun."


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum