Mótmæli á mörkum óeirða
Eftirfarandi lýsing er frá Steingrími Sævari Ólafssyni af eyjan.is
"Þetta var fjölskyldufólk, sumir með börn, aðrir sem eiga líklega uppkomin börn. Þetta voru ráðsettir einstaklingar, millistéttin. Þetta var hinn hefðbundni Íslendingur, þetta var vísitölufjölskyldan, fólkið sem kaupir áskrift að Stöð 2, finnst Spaugstofan skemmtileg og er spennt yfir Útsvari og man hvernig Ísland var áður en bjórinn var leyfður. Þetta var fólk sem er seinþreytt til vandræða, fólkið sem á Lazy-Boy stólana, sem á fjölskyldupassa í Fjölskyldu- og Húsdýragarðinn, á hvorki jeppa né smábíl heldur station-bíl, borgar skattana og hlustar á hádegisfréttir Ríkisútvarpsins. Þetta var „venjulegt fólk“!"
Óhætt er að segja að SSÓ hafi hitt naglann á höfuðið hvað varðar mat á því hverjir voru að mótmæla kvöldið 4. október. Reyndar er það rangt hjá honum að í fyrri mótmælum hafi verið um einhverja afmarkaða hópa að ræða. Það voru alltaf ósköp hversdagslegir íslendingar sem fylltu massann af mótmælendum. Þannig hefur það einnig verið á útifundum HH og Alþingi götunnar. Margir þeir sem hafa tjáð sig um samsetningu mótmælenda voru ýmist ekki á staðnum og hreinlega giskuðu eða horfðu á fólkið í gegn um litgleraugu gömlu stjórnmálaflokkanna.
Hávaðinn var ærandi næst alþingishúsinu. Stöðugur straumur var af fólki til og frá Austurvelli. Það er erfitt að áætla hversu margir voru á staðnum en við skjótum á að þegar mest var hafi verið yfir 10 þúsund. Hugsanlega hafa 15 til 20 þúsund upplifað mótmælin með beinum hætti ef tekið er með í reikninginn að fólk var að koma og fara allan tímann.
Þegar maður gekk inn á Austurvöll heltist yfir mann óreiða af hljóðum en undir því var þungur taktur sem myndaðist úr óreiðunni. Skilaboðin eru alveg kýrskýr. Heimilin okkar verða ekki seld til að byggja banka andskotans! Sníða þarf bankana eftir þörfum þjóðarinnar en ekki öfugt. Hagsmunasamtök heimilanna ráðleggja Alþingi og ríkisstjórn að hrinda í framkvæmd almennum leiðréttingum á húsnæðislánum. Samtökin hafa lagt fram kröfur og tillögur um hvernig þetta megi gera. Einnig þarf að samþykkja lyklafrumvarpið og frumvarp um 4 ára fyrningu. Fyrir ári síðan vildu yfir 75% landsmanna að húsnæðislánin væru leiðrétt, 80% vildu afnám verðtryggingar af húsnæðislánum. Ef að líkum lætur hefur fylgi við hugmyndir HH aukist frekar en hitt. Ef þið trúið okkur ekki, athugið þetta sjálf. Setjið þessi mál í þjóðaratkvæði.