Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Mikill innheimtuvandi fjármálafyrirtækja

Eftirfarandi upplýsingar eru fengnar úr skýrslu AGS Iceland Staff Report 2010 A4 and 3 review.

Í nýlegri skýrslu AGS er að finna ýmsar athyglisverðar upplýsingar. Þar eru m.a. tvö meðfylgjandi gröf. Það fyrra sýnir hlutfall lána sem eru það sem nefnt er NPL (Non-performing Loans) þ.e.a.s. lán sem eru í vanskilum (NPL eru lán sem eru í 90 daga vanskilum eða meira). Þetta hlutfall er hvorki meira né minna en 63% samkvæmt línuritinu. Í Febrúar 2010 virðast þetta hafa tekið að aukast lítillega. Hugsanlega tengist það greiðsluverkfalli HH en það þarf þó ekki að vera.

Aðeins 37% lána eru samkvæmt þessu í skilum. Einhver mundi segja að hér væri kannski skortur á greiðsluvilja eða þá að menn geti ekki greitt af lánunum. Líklega er um sambland af þessum tveimur ástæðum að ræða en það skiptir litlu máli. Hvorutveggja er grafalvarlegt fyrir fjármálakerfið. Maður spyr sig óneitanlega hvort einhver sé hugsi yfir þessu í kerfinu, hvort menn geti gert eitthvað til að bæta úr? T.d. lækkað kröfurnar og lækkað vexti eins og HH hefur lagt til. Flest annað hefur verið reynt eða hvað? Hótanir um gjaldþrot og eignaupptöku eru ekki að bíta, svo mikið er víst.

Seinna grafið er súlurit sem sýnir innheimtufjárhæð lána í samanburði við bókað virði þeirra. Síðustu tölur eru greinilega frá því í apríl 2010. Það er sem sagt verið að reyna að innheimta 3.750 milljarða en bókað virði er 1.700 milljarðar. Þarna staðfestist að rauða línan í fyrra grafinu er heildar bókað virði krafna þ.e. 45% (nema að það sé villa í þessum gröfum því ekki getur heildar bókað virði verið 1.700 millja. og bókað virði NPL einnig verið 1.700 milljarðar). Þeir gera sem sagt ráð fyrir að ná inn 8% af heildarkröfum úr NPL hlutanum þ.e. 300 milljarðar. Það er nú allt og sumt.

Óneitanlega hlýtur einhver að spyrja hvort ekki náist hærri fjárhæð með því að semja við fólk um lækkun krafna. Það geti þá rekið sín fyrirtæki og heimili áfram, staðið í skilum og verið þátttakendur í uppbyggingu efnahagslífs þessa lands. 8% í gegn um fjárnám, nauðungarsölur og gjaldþrot hljómar sem nokkuð rýr afrakstur. Þetta lítur meira út sem uppskrift að hruni en nokkuð annað.

Þau lán sem eru að skila einhverju núna gætu breyst ansi hratt í NPL lán sé ekki breytt um stefnu. Segjum sem svo að öll lán fengju höfuðstólslækkun upp á svo sem 40% og hugsanlega einhverja vaxtalækkun gæti einhverjum látið sér detta í hug að inn næðust t.d. 55% krafna. Það gerir 10% aukningu sem eru hvorki meira né minna en 300 milljarðar í viðbót í eigið fé bankanna og 75 milljarðar í ríkissjóð (skattur af hagnaði) svo ekki sé minnst á afleidd áhrif á skatttekjur og minni útgjöld í atvinnuleysisbætur, heilbrigðismál ofl. ofl.  Hvað sem því líður að þá getur heildar innheimtan vart orðið verri og menn fengju í bónus ánægðari og trausta viðskiptavini, þróttmeira efnahagslíf og trú á framtíðina. Eftir hverju er verið að bíða?

 


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum