Fjölmiðlar - Síðan er í vinnslu

Mótmælum stafrænum nauðungarsölum!

Hagsmunasamtök heimilanna mótmæla alfarið fyrirhuguðu frumvarpi dómsmálaráðherra um stafrænar nauðungarsölur. Það á ekki að líðast að hægt verði að svipta fólk heimili sínu einfaldlega með því að senda tölvupóst. Sérstaklega ekki nema tryggt verði að því hafi að minnsta kosti fyrst borist tilkynning um að hætta á slíku sé yfirvofandi svo hægt sé að bregðast við í tæka tíð.

Frumvarp í samráðsgátt

Með drögum að frumvarpi sem dómsmálaráðuneytið hefur birt í samráðsgátt stjórnvalda er lagt til að stafræn málsmeðferð verði innleidd í fjárnáms- og nauðungarsölumálum. Yfirlýstur tilgangur þess er að auka hagræði og skilvirkni, en við nánari athugun blasir við að það yrði alfarið í þágu kröfuhafa og á kostnað réttaröryggis almennra borgara.

Lesa áfram...

Gjaldtaka og arðsemi bankanna

Í ágústlok kom út skýrsla starfshóps menningar- og viðskiptaráðherra um gjaldtöku og arðsemi banka á Íslandi. Kristín Eir Helgadóttir var fulltrúi Hagsmunasamtaka heimilanna í starfshópnum. Hér er að finna ályktun frá stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna vegna útgáfu skýrslunnar. 

Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna telur að helstu niðurstöður hafa í aðalatriðum blasað við eins og samtökin hafa oft bent á, en þær eru:

  • Bankarnir hafa aldrei hagnast meira en í fyrra
  • Lækkun bankaskatts hefur ekki skilað sér til neytenda
  • Stærsti tekjupóstur bankanna eru vextir af lánum
  • Arðsemi bankanna hefur aldrei verið meiri 

Fleira mætti tína til, en þetta er í samræmi við þær áherslur sem Hagsmunasamtökin hafa haldið á lofti.

Það voru þó ákveðnar takmarkanir við gerð þessarar skýrslu sem fulltrúi samtakanna gerði ítrekað athugasemdir við en þær koma ekki fram í skýrslunni. Það skiptir máli að koma þeim athugasemdum að, sérstaklega í ljósi þess að nú hamast bankarnir við að hampa sjálfum sér í tengslum við skýrsluna.

Frá árslokum 2022 og fram að öðrum ársfjórðungi 2023 hafa orðið miklar breytingar sem eiga rætur sínar að rekja til stýrivaxtahækkana. Vaxtamunur hefur aukist stöðugt frá árslokum 2022 þegar hann var 2,8% í tæplega 3,1% í lok annars ársfjórðungs 2023 og er nú hærri en áður en bankaskatturinn var lækkaður en það er töluverð hækkun á stuttum tíma.

Allt of lítil áhersla var lögð á að skoða hækkandi greiðslubyrði óverðtryggðra íbúðalána og vaxtatekjur sem bankarnir moka inn af þeim. Það er sama sagan, þetta er ekki skoðað frá árslokum 2022 og það sem af er ári 2023. Það er stóri vandinn sem skiptir mestu máli núna.

Það fór líka of lítil vinna og rannsókn í að skoða bæði neytendamál og samkeppnismál þar sem það gafst ekki tími til þess sökum umfangs og afmörkunar verkefnisins og það vantar í skýrsluna. Þetta eru málefni sem eru gríðarlega mikilvæg, sérstaklega þar sem neytendur semja í dag frá sér öll réttindi þegar þeir skrifa undir margra blaðsíðna neytendalánaskilmála við lántöku.

Verðskrá bankanna er einnig síbreytileg en frá því að greining fór fram, fram að árslokum 2022, hafa bankarnir breytt verðskrám og sá banki sem kom best út í gjaldaliðum kemur verst út núna.

Þetta sýnir okkur að eina leiðin til að veita bönkunum aðhald á markaði er að skýrsla sem þessi sé gefin út á hverju ári. Það skiptir máli að bankarnir geti ekki skýlt sér á bak við hluta af niðurstöðum sem „besti bankinn“ í þessu hraðbreytilega umhverfi vaxta og kostnaðar þegar mestu máli skiptir að ná tökum á vaxta- og verðbótagreiðslum heimilanna!

Þessi skýrsla staðfestir þó algjörlega málflutning samtakanna öll þessi ár. Það að bankarnir geti sett sér 10-13% arðsemiskröfur og greitt út milljarða í arð en látið svo eins og þeir séu að lepja dauðann úr skel því að þessi arðsemi gangi þeim svo nærri segir allt sem segja þarf!



Lesa áfram...

Ríkisstyrkt barátta fyrir hagsmunum fjármálamarkaðarins

Hagsmunasamtök heimilanna vilja þakka Viðskiptablaðinu fyrir sýndan og óvæntan áhuga á samtökunum. Á undanförnum vikum hefur Viðskiptablaðið birt a.m.k. fjórar greinar um Hagsmunasamtök heimilanna þar sem hefur greinilega verið kafað ofan í ársskýrslur samtakanna allt frá árinu 2018.

Fyrirsagnirnar í þessum greinaflokki voru: Ríkisstyrkt barátta gegn verðtryggingu, Sakar bankana um land­ráð í „mál­efna­legri bar­áttu“, Vill að ríkið fjármagni aukin umsvif, Styrkir Hagsmunasamtök heimilanna og Samtök leigjenda. Greinarnar má lesa hér fyrir neðan.

Hagsmunasamtökin hafa sjaldan eða aldrei aldrei fengið viðlíka umfjöllun og í þessum greinaflokki og eru vægast sagt þakklát fyrir hana.

Eitt af því sem greinar Viðskiptablaðsins hafa dregið fram er hversu lítið Hagsmunasamtökin hafa fengið af opinberu fé á þeim 14 árum sem hafa liðið síðan þau voru stofnuð, því það eru ekki nema 34 milljónir, eða um 2,4 milljónir á ári. Á sama tíma hefur Umboðsmaður skuldara fengið um 6 milljarða, eða um 430 milljónir á ári.

Lesa áfram...

Forvarnir fyrir heimilin alltaf en ekki síst í kreppum

Ráðgjafarþjónusta samtakanna hlýtur styrk

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið hefur veitt Hagsmunasamtökum heimilanna rekstrarstyrk að upphæð 3.000.000 kr. fyrir árið 2023. Um er að ræða styrk af safnliðum fjárlaga sem samtökin sóttu um 11. nóvember 2022. Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið hefur stutt við uppbyggingu óháðrar ráðgjafarþjónustu samtakanna síðastliðinn ár, sem hefur gert samtökunum kleift að ráða til sín ráðgjafa í fullt starf í greiðsluerfiðleikaþjónustu og réttindagæslu. Óháð ráðgjafarþjónusta á fjármálamarkaði er mikilvægur hlekkur í hagsmunagæslu heimilanna og almennt séð fyrir lántakendur á Íslandi. Fulltrúar samtakanna mættu því á athöfn á vegum ráðuneytisins 13. mars og veittu styrknum viðtöku ásamt öðrum styrkþegum. Þó svo að samfélagið sé ekki í kreppu samkvæmt skilgreiningum hagfræðinnar þá kreppir svo sannarlega að hjá stórum hluta þjóðarinnar nú í hárri verðbólgutíð, sem hefur m.a. haft umtalsverð áhrif á húsnæðiskuldbindingar heimilanna. Samkvæmt nýlegum könnunum á rúmlega þriðjungur landsmann erfitt með að ná endum saman eða hreinlega nær ekki endum saman og safnar skuldum. Við hvetjum fólk til að leita til samtakanna eftir mati á sinni stöðu og aðstoð við að koma henni til betri vegar - This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..

Lesa áfram...

Áhrif vaxtahækkana - ákall til fjármálastofnana

Hagsmunasamtök heimilanna hafa sent forstöðumönnum einstaklingsþjónustu bankanna eftirfarandi áskorun: Ákall til fjármálastofnana um samfélagslega ábyrgð, aukna og samhæfða þjónustu. Borið hefur á því í fyrirspurnum til Hagsmunasamtaka heimilanna vegna aukinnar greiðslubyrði lána að einstaklingar fái ekki alltaf þá þjónustu sem þeir þarfnast og eiga tilkall til, hjá viðskiptabanka sínum. Af þeim sökum sendu samtökin fyrirspurn til þjónustudeilda allra viðskiptabanka heimilanna, í desember síðastliðnum.

Skortur á samhæfðri þjónustu

Það er áberandi við nánari ígrundun á svörum bankanna og fyrirspurnum sem til samtakanna hafa borist, að skortur er á samhæfðri þjónustu vegna þeirrar stöðu sem uppi er í samfélaginu. Eina niðurstaðan sem hægt er að draga af þessum skorti er ábyrgðar- og sinnuleysi fjármálastofnanna gagnvart þeim kostnaðarauka sem þeir hafa varpað yfir á heimilin, þegar hagnaður af starfseminni er langt fyrir ofan ásættanlega arðsemi. Við auknum greiðsluerfiðleikum heimila þurfa fjármálastofnanir að bregðast við með samfélagslegri ábyrgð.

Lesa áfram...

Fjármálaþjónusta - Lánshæfismat

Hagsmunasamtök heimilanna gefa út greinargerð um lánshæfismat Creditinfo

Mat á lánshæfi er mælikvarði á hæfi lántakenda til lántöku. Sú krafa er lögð á lánveitendur með lögum um neytendalán (33/2013) að þeir meti lánshæfi umsækjenda áður en samningur um neytendalán er gerður. Með tilliti til hagsmuna lántakenda kynna Hagsmunasamtök heimilanna hér greinargerð sína um lánshæfismat Creditinfo og þær forsendur sem lagðar eru til grundvallar við útreikning þess. Markmið samtakanna er ávallt að standa vörð um hagsmuni lántakenda og tryggja vernd þeirra með tilliti til laga og reglna. Við hvetjum fólk til þess að leita til samtakanna ef þörf er á leiðsögn. Eftirfarandi er meginskilgreining lánshæfismatsins í lögum um neytendalán:

Sjá skilgreiningu í k-lið 5. gr. laga um neytendalán nr. 33/2013 sbr. 17. tölulið 4. gr. laga um fasteignalán til neytenda nr. 118/2016:

Lánshæfismat: Mat lánveitanda á lánshæfi lántaka byggt á upplýsingum sem eru til þess fallnar að veita áreiðanlegar vísbendingar um líkindi þess hvort lántaki geti efnt lánssamning. Lánshæfismat skal byggt á viðskiptasögu aðila á milli og/eða upplýsingum úr gagnagrunnum um fjárhagsmálefni og lánstraust. Lánshæfismat felur ekki í sér greiðslumat nema slíkt sé áskilið sérstaklega.

Lesa áfram...

Vaxtahækkanir og skyldur lánveitenda

Hagsmunasamtök heimilanna vekja athygli á upplýsingaskyldu lánveitanda í tengslum við vaxtahækkanir. Þegar Seðlabanki Íslands hækkar meginvexti sína (stýrivexti) fylgja oftast í kjölfarið hækkanir á útlánsvöxtum hjá fjármálastofnunum. Þær eru mismiklar og háðar mati hverrar fjármálastofnunar fyrir sig, en lögum samkvæmt verður þó að vera gagnsæi um slíkar ákvarðanir og forsendur þeirra. Samtökin hafa gagnrýnt vaxtahækkanir seðlabankans og lánveitenda. Burtséð frá þeirri gagnrýni lúta lánveitendur lögum og reglum sem þeir eiga að fylgja við framkvæmd þessara hækkanna.

Lesa áfram...

Samstarf í neytendavernd á fjármálamarkaði

Þjónustusamningur við menningar- og viðskiptaráðuneytið

Fyrsta júní síðastliðinn undirritaði formaður Hagsmunasamtaka heimilanna þjónustusamning fyrir hönd samtakanna, við ráðuneyti menningar- og viðskipta um óháða ráðgjafaþjónustu og réttindagæslu á fjármálamarkaði. Samstarfið er tímamót í starfi samtaka sem hafa lengi talað opinberlega fyrir auknum réttindum og bættum kjörum lántakenda í viðskiptum sínum. Þá ekki síst í sambandi við bæði fjárhagslegar og félagslegar afleiðingar efnahagshrunsins. Það hefur lengi verið þörf á að styrkja stoðir neytendaréttar á fjármálamarkaði og óháð ráðgjafarþjónusta er ein birtingarmynd þess.

Lesa áfram...

Neytendavernd á fjármálamarkaði

Hagsmunasamtök heimilanna hafa hlotið styrk frá Félagsmála- og vinnumarkaðsráðuneytinu til verkefnisins Neytendaréttur á fjármálamarkaði - ráðgjöf, stuðningur og hagsmunagæsla. Um er að ræða styrk frá ráðuneytinu af safnliðum fjárlaga 2022 að upphæð 3.000.000 kr.

Í umsókn Hagsmunasamtaka heimilanna um styrk til ráðuneytisins var sótt um styrk og brautargengi fyrir hagsmunagæslu lántakenda og lögfræðilegri ráðgjöf því öll heimili eiga rétt á og skal tryggður aðgangur að óháðri réttindagæslu gagnvart lánveitendum fasteignalána og annarra neytendalána. Skilyrðislaus hagsmunagæsla og óháð ráðgjöf er brýnust í alvarlegum greiðsluerfiðleikum og álitamálum, ekki síst ef nauðungarsala heimilis gæti verið yfirvofandi.

Lesa áfram...
Subscribe to this RSS feed

© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum