Ríkisstyrkt barátta fyrir hagsmunum fjármálamarkaðarins
Hagsmunasamtök heimilanna vilja þakka Viðskiptablaðinu fyrir sýndan og óvæntan áhuga á samtökunum. Á undanförnum vikum hefur Viðskiptablaðið birt a.m.k. fjórar greinar um Hagsmunasamtök heimilanna þar sem hefur greinilega verið kafað ofan í ársskýrslur samtakanna allt frá árinu 2018.
Fyrirsagnirnar í þessum greinaflokki voru: Ríkisstyrkt barátta gegn verðtryggingu, Sakar bankana um landráð í „málefnalegri baráttu“, Vill að ríkið fjármagni aukin umsvif, Styrkir Hagsmunasamtök heimilanna og Samtök leigjenda. Greinarnar má lesa hér fyrir neðan.
Hagsmunasamtökin hafa sjaldan eða aldrei aldrei fengið viðlíka umfjöllun og í þessum greinaflokki og eru vægast sagt þakklát fyrir hana.
Eitt af því sem greinar Viðskiptablaðsins hafa dregið fram er hversu lítið Hagsmunasamtökin hafa fengið af opinberu fé á þeim 14 árum sem hafa liðið síðan þau voru stofnuð, því það eru ekki nema 34 milljónir, eða um 2,4 milljónir á ári. Á sama tíma hefur Umboðsmaður skuldara fengið um 6 milljarða, eða um 430 milljónir á ári.
Það er ánægjulegt að Viðskiptablaðið veki athygli á þessu mikla misræmi á milli aðila sem eiga samkvæmt skilgreiningu að veita sömu þjónustu. Hitt er svo annað mál að þeir gera það ekki. UMS hefur t.d. aldrei nokkurn tímann mótmælt einni einustu kröfu frá bönkunum, heldur einfaldlega útskýrt fyrir skuldaranum hvernig hann eigi að standa undir þeim og hverju hann þurfi að fórna til þess. Í raun má segja að UMS matreiði skuldarana fyrir bankana.
Aftur á móti fara Hagsmunasamtök heimilanna rækilega yfir kröfurnar og mörg dæmi eru um að fólk sem UMS leiðbeindi bara á fyrrgreindan hátt, hafi leitað til HH sem hafa gert athugasemdir við útreikninga bankanna þegar við á og í kjölfarið fengið kröfur þeirra lækkaðar eða jafnvel felldar niður.
Nýtt dæmi er um konu, sem samkvæmt UMS átti að selja heimili sitt vegna 600.000 króna skattaskuldar, sem hún réð ekki við ofan á hækkaðar húsnæðisskuldir. Hún átti 72% í þessari eign og lausn UMS var að hún skyldi selja hana vegna 600.000 króna skuldar. Hún leitaði til HH og þar fannst lausn sem var kynnt fyrir bankanum sem samþykkti hana. Konan þarf því ekki að selja húsið og getur staðið í skilum við skattinn.
Það er því lífsnauðsynlegt að Hagsmunasamtökin geti eflt starfsemi sína. Það má þakka ráðherrunum Lilju Alfreðsdóttur og Guðmundi Inga Guðbrandssyni fyrir nýveitta styrki, en ekki síst verðum við að þakka Ásmundi Einari Daðasyni, sem veitti samtökunum hæsta einstaka styrk sem þau hafa fengið, árið 2021. Fram að því höfðu styrkir ríkisins til samtakanna verið sléttar 20 milljónir á 11 árum, eða 1,8 milljónir að meðaltali á ári.
Þetta er sérstaklega áhugavert þegar litið er til annarra styrkja eins og t.d. til fjölmiðla. Þannig fékk Viðskiptablaðið rúmar 50 milljónir úr ríkissjóði á árunum 2021 og 2022, eða 25 milljónir að meðaltali á ári.
Hagsmunasamtökin hafa ekki fundið neina umfjöllum um þessa styrki, þó þau hafi leitað að fyrirsögnunum „Ríkisstyrkt barátta fyrir hagsmunum hins frjálsa markaðar“ eða „Ríkisstyrkt barátta fyrir hagsmunum fjármálamarkaðarins“.
Spurningin er, hvernig passa þessir háu ríkisstyrkir við kenningarnar um frjálsan markað?
Eru það kannski kenningar sem ganga ekki alveg upp?
Og er það eðlilegt að barátta Viðskiptablaðsins fyrir hagsmunum fjármálamarkaðarins sé ríkisstyrkt, í mun meira mæli en neytendavernd á þessum sama markaði, sem er kjarninn í starfsemi Hagsmunasamtaka heimilanna?
Hagsmunasamtök heimilanna
Umfjöllun Viðskiptablaðisins um Hagsmunasamtök heimilanna: Ríkisstyrkt barátta gegn verðtryggingu, Sakar bankana um landráð í „málefnalegri baráttu“, Vill að ríkið fjármagni aukin umsvif, Styrkir Hagsmunasamtök heimilanna og Samtök leigjenda.
Ríkisstyrkt barátta gegn verðtryggingu
Hagsmunasamtök heimilanna hafa fengið yfir þrjátíu milljónir í ríkisstyrki í gegnum tíðina. Styrkur menningar- og viðskiptaráðuneytisins gerði þeim kleift að ráða ráðgjafa í fullt starf sem var síðar tilnefndur í vinnuhóp ráðuneytisins um gjaldtöku bankanna.
Hagsmunasamtök heimilanna (HH) fengu 14,1 milljón króna í ríkisstyrk á síðustu tveimur árum. Þar á meðal fengu samtökin 2 milljóna greiðslu frá menningar- og viðskiptaráðuneytinu vegna þjónustusamnings sem var í gildi frá 1. júní til 31. desember 2022.
Samningurinn, sem Viðskiptablaðið hefur fengið afhentan, felst í:
- Samstarf við ráðuneytið um neytendavernd á fjármálamarkaði.
- Fræðsla til almennings um húsnæðisskuldbindingar og réttindi lántakenda.
- Stuðningur við ráðgjöf, réttindagæslu og önnur hagsmunamál félagsmanna Hagsmunasamtaka heimilanna.
Eitt helsta baráttumál HH, sem voru stofnuð árið 2009, er afnám verðtryggingar. Þá veita samtökin félagsmönnum sínum „óháða ráðgjöf um viðskipti sín á fjármálamarkaði, með hliðsjón af vernd í löggjöfinni og reynslu samtakanna af efnahagshruninu“.
Ásthildur Lóa Þórsdóttir, sem var kjörin á þing haustið 2021 fyrir Flokk fólksins, hefur verið formaður HH frá árinu 2017 og gegnir því hlutverki enn.
Ásmundur Einar gaf 10 milljónir
Í ársskýrslu HH, sem birt var í ársbyrjun 2022, segir Ásthildur Lóa að samtökin hafi frá upphafi fengið 30 milljónir „af skúffufé ýmissa ráðherra“. Þar af fengu þau 10 milljónir króna árið 2021 frá félags- og barnamálaráðuneytinu en Ásmundur Einar Daðason var yfir ráðuneytinu á þessum tíma.
Samtökin telja að það halli mikið á sig sé horft til Umboðsmanns skuldara, ríkisstofnunar sem þau bera sig saman við. Umboðsmaður skuldara hafi kostað ríkið um 6 milljarða frá hruni. HH segja að álíka margir hafi leitað til sín frá hruni og Umboðsmaður skuldara hefur veitt liðsinni.
Segir verðtryggð lán „landráð“
Hagsmunasamtökin gáfu út nýja ársskýrslu í síðustu viku. Í henni lýsir Ásthildur Lóa því að einn helsti styrkur samtakanna sé „hversu málefnalega baráttu þau hafa rekið, alveg frá upphafi. Þau hafa ekkert gefið eftir í málflutningi sínum en aldrei verið með innantómar upphrópanir eða farið með fleipur.“
Ásthildur Lóa gengur skrefi lengra og segir það vera „staðreynd sem vert er að halda á lofti, að aldrei hefur verið hægt að hrekja nokkuð í málflutningi samtakanna“.
Í sama ávarpi ber hún saman greiðslubyrði 40 ára óverðtryggðs láns og verðtryggðs láns til 25 ára og bendir í kjölfarið á margfalt hærri mánaðarlega meðalgreiðslu verðtryggða lánsins (sem virðist m.a. byggja á forsendum um óbreytt vaxtarkjör og að verðbólga verði áfram langt yfir markmiði Seðlabankans næstu áratugina).
„Þetta er glæpur gegn þjóðinni og ég vil ganga svo langt að kalla þetta landráð,“ segir Ásthildur Lóa.
„Staða heimilanna er ekki slæm vegna verðbólgunnar, heldur vegna þess að tekin hefur verið meðvituð ákvörðun um það að koma heimilum landsins á vonarvöl og færa bönkunum þau á silfurfati,“ skrifar Ásthildur Lóa. Hún segir að heimilin gætu siglt í gegnum 10% verðbólgu ef ekki væri fyrir núverandi húsnæðislánakerfi.
Draumur að ríkið standi undir launakostnaði
Í ársbyrjun 2022 voru samtökin með eina launaða stöðu sem skiptist á tvo aðila, lögfræðing og starfsmann skrifstofu. Ásthildur Lóa lýsti því að samtökin stefndu að því að efla mikið ráðgjöf og leiðbeiningar sínar.
„Til þess að svo megi verða þurfum við aukinn fjárhagslegan styrk úr opinberum sjóðum og erum bjartsýn á að árangur náist í þeim efnum áður en langt um líður. Draumurinn væri að fá sem svarar launakostnaði tveggja starfsmanna í styrk frá ríkinu en við værum mjög sátt við einn. Þetta er ekki stór krafa þegar litið er á málin í víðara samhengi.“
Samtökin segja að í kjölfar þess að ofangreindur samningur við menningar- og viðskiptaráðuneytið var undirritaður réðu þau til sín ráðgjafa í fullt starf. Fram kemur að nýráðni starfsmaðurinn hafi verið tilnefndur í vinnuhóp ráðuneytisins um gjaldtöku bankanna. Vinnuhópurinn er enn að störfum.
Eftirtalin skipa vinnuhóp um greiningu á gjaldtöku og arðsemi bankanna:
Menningar- og viðskiptaráðuneyti: Daníel Svavarsson, formaður
Hagfræðistofnun HÍ: Gylfi Zoega
Neytendasamtökin: Breki Karlsson
Hagsmunasamtök heimilanna: Kristín Helgadóttir
ASÍ: Auður Alfa Ólafsdóttir
Samtök fjármálafyrirtækja: Yngvi Örn Kristinsson
Fjármálaráðuneyti: Tinna Finnbogadóttir
Ásthildur Lóa segir að nýr starfsmaður hafi komið sterkur inn, m.a. í umfjöllun Stundarinnar um verðtryggingu. „Hún var í góðu sambandi við blaðamanninn meðan á vinnslu greinarinnar stóð og var svo á forsíðu blaðsins undir fyrirsögninni „Verðtryggð lán fátækragildra“ sem vakti töluverða athygli.“
Ásthildur Lóa segir mikilvægt að þjónustusamningur HH við ráðuneytið verði framlengdur „því nú er tími hárrar verðbólgu og síendurtekinna vaxtahækkana“.
Sakar bankana um landráð í „málefnalegri baráttu“
Formaður Hagsmunasamtaka heimilanna, sem hreykja sér af málefnalegri baráttu, kallar framgöngu bankanna „landráð af verstu sort“.
Viðskiptablaðið fjallaði í vikunni um ríkisstyrki til Hagsmunasamtaka heimilanna (HH), sem berjast fyrir afnámi verðtryggingar. Samtökin fengu 14,1 milljón króna í ríkisstyrk á síðustu tveimur árum, samkvæmt nýútgefinni ársskýrslu þeirra.
Í henni lýsir Ásthildur Lóa Þórsdóttir, formaður HH og þingmaður Flokks fólksins, því að einn helsti styrkur samtakanna sé „hversu málefnalega baráttu þau hafa rekið, alveg frá upphafi. Þau hafa ekkert gefið eftir í málflutningi sínum en aldrei verið með innantómar upphrópanir eða farið með fleipur.“
Ásthildur Lóa gengur skrefi lengra og segir það vera „staðreynd sem vert er að halda á lofti, að aldrei hefur verið hægt að hrekja nokkuð í málflutningi samtakanna“.
Í sama ávarpi ber hún saman greiðslubyrði 40 ára óverðtryggðs láns og verðtryggðs láns til 25 ára og bendir í kjölfarið á margfalt hærri mánaðarlega meðalgreiðslu verðtryggða lánsins (sem virðist m.a. byggja á forsendum um óbreytt vaxtarkjör og að verðbólga verði áfram langt yfir markmiði Seðlabankans næstu áratugina).
„Þetta er glæpur gegn þjóðinni og ég vil ganga svo langt að kalla þetta landráð,“ segir Ásthildur Lóa. Hún bætir við að framganga bankanna gagnvart heimilum landsins sé „landráð af verstu sort“.
„Staða heimilanna er ekki slæm vegna verðbólgunnar, heldur vegna þess að tekin hefur verið meðvituð ákvörðun um það að koma heimilum landsins á vonarvöl og færa bönkunum þau á silfurfati,“ skrifar Ásthildur Lóa. Hún segir að heimilin gætu siglt í gegnum 10% verðbólgu ef ekki væri fyrir núverandi húsnæðislánakerfi.
Ásthildur Lóa fór mikinn á opnum fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í síðustu viku og spurði þar seðlabankastjóra að því hvort vaxtahækkanir væru verðbólguhvetjandi. Jafnframt sagðist hún líta svo á að vaxtahækkanir Seðlabankans í 10% verðbólgu væru eins og að „reyna að bjarga einhverjum frá drukknun með því að hella yfir hann meira vatni“.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun um Hagsmunasamtök heimilanna í Viðskiptablaðinusem kom út í gær, 2. mars 2023.
Vill að ríkið fjármagni aukin umsvif
Styrkur menningar- og viðskiptaráðuneytisins gerði Hagsmunasamtökum heimilanna kleift að ráða ráðgjafa í fullt starf sem var síðar tilnefndur í vinnuhóp ráðuneytisins um gjaldtöku bankanna.
Ásthildur Lóa Þórsdóttir, formaður Hagsmunasamtaka heimilanna (HH) og þingmaður Flokks fólksins, segir sérstaklega mikilvægt að þjónustusamningur samtakanna við menningar- og viðskiptaráðuneytið verði framlengdur nú á tímum „hárrar verðbólgu og síendurtekinna vaxtahækkana“.
Samtökin, sem berjast meðal annars fyrir afnámi verðtryggingar, fengu 2 milljónir króna samkvæmt samningi við ráðuneytið á seinni helmingi síðasta árs, m.a. fyrir að veita almenningi „fræðslu um húsnæðisskuldbindingar og réttindi lántakenda“. Alls hafa hagsmunasamtökin fengið 14,1 milljón króna í ríkisstyrk á síðustu tveimur árum.
Í ársbyrjun 2022 voru samtökin með eina launaða stöðu sem skiptist á tvo aðila, lögfræðing og starfsmann skrifstofu. Í nýrri ársskýrslu segja samtökin að í kjölfar þess að ofangreindur samningur var undirritaður réðu þau til sín ráðgjafa í fullt starf.
Fram kemur að nýráðni starfsmaðurinn hafi verið tilnefndur í vinnuhóp Lilju D. Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, um greiningu á gjaldtöku og arðsemi bankanna. Vinnuhópurinn er enn að störfum.
Vinnuhópur um greiningu á gjaldtöku og arðsemi bankanna
Menningar- og viðskiptaráðuneyti: Daníel Svavarsson, formaður
Hagfræðistofnun HÍ: Gylfi Zoega
Neytendasamtökin: Breki Karlsson
Hagsmunasamtök heimilanna: Kristín Helgadóttir
ASÍ: Auður Alfa Ólafsdóttir
Samtök fjármálafyrirtækja: Yngvi Örn Kristinsson
Fjármálaráðuneyti: Tinna Finnbogadóttir
Ásthildur Lóa segir í ársskýrslunni að nýi starfsmaðurinn hafi komið sterkur inn, m.a. í umfjöllun Stundarinnar um verðtryggingu. „Hún var í góðu sambandi við blaðamanninn meðan á vinnslu greinarinnar stóð og var svo á forsíðu blaðsins undir fyrirsögninni „Verðtryggð lán fátækragildra“ (sic) sem vakti töluverða athygli.“
Draumur að ríkið standi undir launakostnaði
Samtökin veita einnig félagsmönnum sínum ráðgjöf um viðskipti sín á fjármálamarkaði. Ásthildur Lóa lýsti í ársskýrslu samtakanna fyrir árið 2021 yfir markmiðum um að efla mikið ráðgjöf og leiðbeiningar sínar.
„Til þess að svo megi verða þurfum við aukinn fjárhagslegan styrk úr opinberum sjóðum og erum bjartsýn á að árangur náist í þeim efnum áður en langt um líður. Draumurinn væri að fá sem svarar launakostnaði tveggja starfsmanna í styrk frá ríkinu en við værum mjög sátt við einn. Þetta er ekki stór krafa þegar litið er á málin í víðara samhengi.“
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun um Hagsmunasamtök heimilanna í Viðskiptablaðinusem kom út á fimmtudaginn, 2. mars 2023.
Styrkir Hagsmunasamtök heimilanna og Samtök leigjenda
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, veitti 41 styrk fyrir 200 milljónir, þar á meðal til Hagsmunasamtaka heimilanna og Samtaka leigjenda.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, veitti í dag styrki til verkefna á sviði félags- og velferðarmála. Veittur var 41 styrkur og nam heildarfjárhæðin ríflega 200 milljónum króna. Þetta kemur fram í tilkynningu ráðuneytisins.
Meðal styrkhafa hafa eru Hagsmunasamtök heimilanna og Samtök leigjenda á Íslandi sem fá 3 milljónir króna í rekstrarstyrk hvor um sig.
Viðskiptablaðið fjallaði nýverið um ríkisstyrki til Hagsmunasamtaka heimilanna sem námu 14,1 milljónum á árunum 2021-2022. Eitt helsta baráttumál samtakanna er afnám verðtryggingar. Ásthildur Lóa Þórsdóttir, formaður samtakanna og þingmaður Flokks fólksins, sakaði viðskiptabankana um „landráð af verstu sort“ vegna verðtryggðra húsnæðislána í nýrri ársskýrslu samtakanna.
Á heimasíðu Samtaka leigjenda segir að markmið þeirra sé að bæta réttindi og hag leigjenda. Barátta samtakanna hefur að undanförnu einkum snúist um að berjast fyrir innleiðingu leiguþaks.
Samtök leigjenda eru nátengd hreyfingu Sósíalistaflokksins. Gunnar Smári Egilsson, formaður Sósíalistaflokksins, situr í stjórn samtakanna. Þá situr Guðmundur Hrafn Arngrímsson, formaður Samtaka leigjenda, í stjórn fjölmiðilsins Samstöðvarinnar sem Gunnar Smári fer fyrir.
Einnig má benda á að Sósíalistaflokkurinn lagði til fyrir síðustu þingkosningar sett yrðu á lög um húsleigu þar sem kveðið yrði um um að Samtök leigjenda væru samningsaðili um leiguverð.