Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Forvarnir fyrir heimilin alltaf en ekki síst í kreppum

Forvarnir fyrir heimilin alltaf en ekki síst í kreppum

Ráðgjafarþjónusta samtakanna hlýtur styrk

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið hefur veitt Hagsmunasamtökum heimilanna rekstrarstyrk að upphæð 3.000.000 kr. fyrir árið 2023. Um er að ræða styrk af safnliðum fjárlaga sem samtökin sóttu um 11. nóvember 2022. Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið hefur stutt við uppbyggingu óháðrar ráðgjafarþjónustu samtakanna síðastliðinn ár, sem hefur gert samtökunum kleift að ráða til sín ráðgjafa í fullt starf í greiðsluerfiðleikaþjónustu og réttindagæslu. Óháð ráðgjafarþjónusta á fjármálamarkaði er mikilvægur hlekkur í hagsmunagæslu heimilanna og almennt séð fyrir lántakendur á Íslandi. Fulltrúar samtakanna mættu því á athöfn á vegum ráðuneytisins 13. mars og veittu styrknum viðtöku ásamt öðrum styrkþegum. Þó svo að samfélagið sé ekki í kreppu samkvæmt skilgreiningum hagfræðinnar þá kreppir svo sannarlega að hjá stórum hluta þjóðarinnar nú í hárri verðbólgutíð, sem hefur m.a. haft umtalsverð áhrif á húsnæðiskuldbindingar heimilanna. Samkvæmt nýlegum könnunum á rúmlega þriðjungur landsmann erfitt með að ná endum saman eða hreinlega nær ekki endum saman og safnar skuldum. Við hvetjum fólk til að leita til samtakanna eftir mati á sinni stöðu og aðstoð við að koma henni til betri vegar - This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..

Félagsmenn samtakanna og aðrir áhugasamir geta kynnt sér hér að neðan röksemdir samtakanna fyrir starfsemi ráðgjafarþjónustunnar sem voru kynntar í umsókninni til ráðuneytisins í nóvember síðastliðnum:

Forvarnir fyrir heimilin alltaf og ekki síst í kreppum

Tryggja þarf íslenskum heimilum aðgang að óháðri ráðgjafarþjónustu gagnvart lánveitendum um húsnæðisskuldbindingar sínar. Þetta er skýr afstaða Hagsmunasamtaka heimilanna og byggir á reynslunni af efnahagshruninu, þegar mikill fjöldi fólks missti heimili sín, lagaleg álitamál voru fjölmörg og heimilin í brýnni þörf fyrir réttindagæslu. Sjálfboðaliðar samtakanna unnu þrekvirki á þessum erfiðu tímum en samtökin hafa ávallt tekið skýra afstöðu með heimilunum og þeirra hagsmunum. Þau vilja sjá betri lánskjör á Íslandi, aukna réttindagæslu, fyrirsjáanleika í húsnæðisskuldbindingum og veita fjármálastofnunum aðhald.

Í starfsemi samtakanna er lögð sérstök áhersla á réttinn til heimilis og að sá réttur sé virtur sem grundvallarmannréttindi, í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar íslenska ríkisins. Markmiðið með ráðgjafarþjónustu er því réttindagæsla lántakenda og vernd með tilliti til löggjafarinnar. Síðast en ekki síst veita samtökin lausnamiðaða þjónustu og hagsmunagæslu í greiðsluerfiðleikum sem mætir þörfum og getu viðkomandi hverju sinni. Síendurteknar hækkanir á mánaðarlegri greiðslubyrði fasteignalána valda nú áhyggjum, ásamt auknum framfærslukostnaði. Þessar hækkanir bitna alltaf verst á lág- og millitekjuhópum, sem og þeim sem einir standa að rekstri heimilis. Óháð ráðgjafarþjónusta Hagsmunasamtaka heimilanna felst því m.a. í forvörnum við alvarlegum greiðsluvanda og afleiðingum hans á borð við gjaldfellingu lána og nauðungarsölu. 

Forvörn gagnvart alvarlegum greiðsluvanda er þýðingarmikil, því félagsleg vandamál fylgdu gjaldþrotum bankanna 2008 lengi vel og til langs tíma aðstoðuðu samtökin félagsmenn við að leysa úr þeim. Stór hluti þeirra félagsmanna sem leituðu eftir aðstoð hjá samtökunum komu frá heimilum sem annað hvort fengu ekki úrlausn sinna mála hjá Umboðsmanni skuldara eða komu hreinlega þaðan í verri fjárhagslegri og félagslegri stöðu. Framan af voru því flestar fyrirspurnir félagsmanna um aðstoð lagalegs eðlis en aukning varð síðar á úrlausnum vegna vanskilaskráninga sem flestar voru vegna eftirstöða skulda sem rekja mátti beint til nauðungarsölu heimilis í hruninu. Oft var fátt annað hægt að gera í stöðunni en að reyna að þrauka út lögbundinn fyrningartíma. Margir voru lengir fastir á vanskilaskrá af þessum sökum og fastir á leigumarkaði án lánstrausts.

Það er því mikilvægt að vanmeta ekki áhrif efnahagslægða eða kreppu sem getur skapað langvinn félagsleg vandamál og skerðingu á lífskjörum, ef réttindagæsla og aðstoð er ekki fullnægjandi. Það er ekki raunhæft að búast við því að bankarnir sýni réttindum fólks til heimilis umhyggju. 

Nýr ráðgjafi samtakanna hefur sérhæfða reynslu í greiðsluerfiðleikamálum sem fellur vel að þeirri þekkingu sem fyrir er hjá samtökunum um neytendaverndarlöggjöf á fjármálamarkaði. Ófyrirsjáanleiki í kostnaði við íbúðarkaup heldur áfram að vera áskorun hér á landi og við búumst við mikilli aukningu í fyrirspurnum á nýju ári. Á sama tíma og hrunmálin eru nú hverfandi hjá samtökunum er fjölbreytileiki fyrirspurna að aukast, enda var það markmið samtakanna með ráðningu nýs starfsmanns. Með ráðgjafa í fullu starfi sækja samtökin fram, með þjónustu sem er þess eðlis að hún stendur vörð um réttindi fólks með lausnamiðaðri ráðgjöf, aðgang að lögfræðilegu áliti og eftirfylgni innan stjórnsýslustofnana í álitamálum ef þörf krefur. Stjórn samtakanna heldur áfram í sínu hlutverki við hagsmunagæslu og að beita sér fyrir lagabreytingum og opinberum aðgerðum til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna

 

(Frétt af vef ráðuneytisins - 13. mars 2023: Félags- og vinnumarkaðsráðherra veitir 200 milljónir króna í styrki til frjálsra félagasamtaka)

 


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum