Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Frambjóðendur til stjórnar 2012

Guðmundur Ásgeirsson

Gunnar Magnússon

Jón Tryggvi Sveinsson

Ólafur Garðarsson

Sigrún Viðarsdóttir

Þóra Guðmundsdóttir

 

 

 

Guðmundur Ásgeirsson

 

 

Ég er 34 ára gamall þriggja barna einstæður faðir og búsettur miðsvæðis í Reykjavík. Ég hef prýðilegan bakgrunn af sviði raunvísinda og menntun í kerfisfræði, en tómstundir hafa meðal annars verið helgaðar íþróttum og menningarlífi. Auk starfa við hugbúnaðargerð og vefsmíði hef ég hef öðlast fjölbreytta reynslu á ýmsum sviðum, meðal annars af rekstri félagasamtaka, fasteigna og ökutækja auk margskonar skrifstofustarfa og utanumhalds um slíka starfsemi. Í umróti síðustu missera hef ég mestmegnis helgað mig greiningu og stefnumótun ýmissa þjóðfélagslega mikilvægra kerfa á borð við fjármálakerfið, með nauðsynlegar úrbætur og hagsmuni landsmanna allra að leiðarljósi. Undanfarið ár hef ég meðal annars í því skyni tekið virkan þátt í starfi Hagsmunasamtaka heimilanna, fyrst sem varamaður og síðar meir stjórnarmaður, en undanfarið hálft ár eða svo hef ég gegnt hlutverki ritara stjórnar samtakanna.

Hagsmunir og hagsmunatengsl:

Áramótastaða (meintra) skuldbindinga:
Kröfur vegna neytendalána (umdeildar): 4.071.936 kr.
Kröfur frá opinberum aðilum þ.m.t. LÍN: 5.445.362 kr.
Lausafjáreignir (samkvæmt kröfu framteljanda):  Bifreið, Toyota Corolla Verso árgerð 2007. Í meintri óréttmætri vörslu innheimtuaðila.

Árstekjur 2011:  Atvinnuleysisbætur.

Ferill á fjármálamarkaði:

Hef ekki unnið launuð störf í þágu hefðbundinna fjármálastofnana eða hagsmunaaðila.  Seldi hlutafjárarf fyrir um áratug síðan með hagnaði sem nam tæpum mánaðarlaunum.  Hef að öðru leyti aldrei átt fjármálaviðskipti nema vegna almennra neytendakaupa.

Stjórnmálatengsl:

Stofnfélagi og stjórnarmaður í Samtökum Fullveldissinna

Félagatengsl:

Hagsmunasamtök heimilanna - ritari fráfarandi stjórnar
Grastótarmiðstöðin - stofnandi og rekstrarstjórnarmaður
IFRI: Hugveita um úrbætur á fjármálakerfinu - stofnfélagi
Félag um samfélagsbanka - stofnfélagi og varamaður
Peningamálafélag Íslands - samstarfsaðili og félagi

Persónulegar áherslur frambjóðanda:

Hagsmunabaráttu heimilanna er hvergi nærri lokið, heldur færist hún þvert á móti í aukana og á að öllum líkindum enn eftir að ná hápunkti sínum í ókominni framtíð. Samtökin og sameiginlegur málstaður félagsmanna hafa undanfarið verið á góðri siglingu í rétta átt þó enn sé langt til lands. Nái ég kjöri til nýrrar stjórnar samtakanna vil ég stuðla að áframhaldandi starfi í þágu sömu markmiða sem og eflingu og þróun á innri starfsemi samtakanna.

Meðal þess sem ég vil leggja áherslu á eru: Áframhaldandi og aukin beiting þeirra heimilda sem samtökin hafa aflað sér til lögverndar heildarhagsmuna neytenda. Þrýstingur á lagasetningu og ýmsar aðgerðir til úrbóta, meðal annars með erindum til opinberra stofnana og annarra hagsmunaaðila, umsögnum og álitsgerðum á sviði löggjafar og dómsmála, skipulagningu friðsamlegra fjöldaaðgerða og viðburða, kynningarstarfi á opinberum vettvangi og fleiru í þá veru.

Dæmi um áherslur sem ég hef hug á og telja má til nýjunga eða áherslubreytinga: Nýlega voru stofnuð landssamtök um heildarhagsmuni og kjör heimila, en aðild HH að slíkum samtökum gæti verið spennandi möguleiki sem ég hef almennt jákvæða afstöðu til. Nýlega var hafinn undirbúningur málaferla vegna verðtryggingar, og hefur í því skyni verið stofnaður sérstakur starfshópur og málskostnaðarsjóður, en ég hef fullan hug á að fylgja því starfi eftir og tel það vera eitt mikilvægasta viðfangsefni samtakanna sem framundan er. Á kjörtímabili fráfarandi stjórnar var ráðinn starfsmaður á skrifstofu samtakanna og tel ég reynsluna af því hafa á heildina litið gefið góða raun og jafnframt verið lærdómsríka. Ég hef áhuga á aukinni fagmennsku í starfseminni, en þó ávallt af varfærni í samræmi við fjárhagsstyrk og þróun helstu verkefna og viðfangsefna. Sem dæmi um útvíkkunarmöguleika má nefna aukningu hlutfallslegra stöðugilda og aðkeyptrar þjónustu sérfræðinga, í því skyni að bæta greiningu upplýsinga um stöðu heimila og stuðla að úrlausn álitaefna, auk þess að geta í framtíðinni jafnvel boðið upp á beina ráðgjöf og þjónustu við félagsmenn og fjölskyldur þeirra.

Þessi verkefni og önnur sem kunna að lenda á dagskrá stjórnar Hagsmunasamtaka heimilanna er ég tilbúinn að fást við eftir bestu getu sem og hingað til. Samkvæmt samþykktum samtakanna er kosið til stjórnar sem skiptir með sér verkum og er því ekki kosið sérstaklega í embætti eða ábyrgðarstöður á aðalfundi. Ég vil þó láta þess getið fyrirfram að nái ég kjöri mun ég líklega íhuga þann möguleika að gefa kost á mér til slíkra starfa á vettvangi stjórnar. Ég býð mig því fram og fer þess á leit við félagsmenn Hagsmunasamtaka heimilanna að þeir styðji mig til áframhaldandi stjórnarsetu, með atkvæði sínu á aðalfundi samtakanna þann 31. maí næstkomandi.

 


 

Gunnar Magnússon

Ég er fjögurra barna faðir og stundaði sjómennsku yfir 30 ára tímabil. Á síðustu árum sjómennskunnar stofnaði ég fasteignafélag sem óx lafnt og þétt þar til kreppan skall á, en þá hækkuðu öll lánin samkvæmt gengi sem síðar var dæmt ólöglegt.

Enn þann dag í dag er ég að berjast við sömu öflin og vil láta gott af mér leiða. Ég bauð mig fram í varastjórn á síðasta kjörtímabili og sinnti því þar til þegar ég var færður í aðalstjórn sem var snemma á tímabilinu.  Ég tók þátt í stofnun Landsamtaka heimilanna og er þar fyrsti varamaður í stjórn.   Aðaláherslumál mín eru Lánasamningar heimilanna, neytendaréttur og lífeyrismál.

Ég býð mig fram og óska eftir því við félagsmenn að þeir styðji mig til áframhaldandi stjórnarsetu með atkvæði sínu á aðalfundinum þann 31. maí næstkomandi.

 

 

 


 

Ólafur Garðarsson

Ferill

Erindi á Borgarafundi á Akureyri 12. febrúar 2009

Hitajöfnun og hitaaðlögun í Draumalandinu17. maí 2009

Hlekkur á ræðu Austurvelli 23. maí 2009

 

 
Jón Tryggvi Sveinsson


Ég heiti Jón Tryggvi Sveinsson, 46 ára gamall upplýsingafræðingur. Ég vil bjóða mig fram til varamanns í stjórn Hagsmunasamtakanna 2012.

Fjölskylduhagir:
Maki, Sibeso Imbula Sveinsson, nemi í viðskiptafræði við H.Í.
Stjúpdóttir, Esther Ndiyoi Imbula, nemi í Borgarholtsskóla.

Sjálfboðin félagsstörf og áhugamál:
Ritari og stjórnarmaður í HIV-Ísland frá 2012.
Hef setið í stjórn sjálfboðaliðasamtakanna "Vinir Afríku" frá 2004, tek þátt í verkefnum í Sambíu
Varamaður í stjórn Leigjendasamtakanna, árin 1998-1999.
Var í stjórn Samskiptamiðstöðvar Vesturbæjar og talsmaður Húmanistahreyfingarinnar á Íslandi 1992 -1994


Sigrún Viðarsdóttir

Ágætu félagsmenn.

Ég, Sigrún Viðarsdóttir býð mig fram til áframhaldandi stjórnarsetu í Hagsmunasamtökum heimilanna.  Ég er á góðum aldri, einstæð móðir, menntaður sjúkraliði og lyfjatæknir, með mikinn áhuga á félagasstörfum og að láta gott af mér leiða.

Ég sat í varastjórn Hagsmunasamtaka heimilinna árið 2011 en fór fljótlega í stjórn sem meðstjórnandi árið 2011-2012. Sem eitt stærsta kjaramál heimilinna þá tel ég gríðarlega mikilvægt að halda áfram réttlætisbaráttunni fyrir leiðréttingum á stökkbreyttum gengis- og verðtryggðum lánum, bættri réttarstöðu neytenda og nýju lánakerfi að norrænni* fyrirmynd. (*óverðtryggð fasteignalán með 2-4% vöxtum) Ásamt því að sitja vikulega fundi HH þá starfaði ég með virkum hætti að undirskriftasöfnun HH, þ.e.  sá um að “smala” saman sjálfboðaliðum þar sem 38 þúsund undirskriftir söfnuðust á 6 mánuðum vegna kröfu íslendinga um afnám verðtryggingar og leiðréttingu á lánum heimilinna.  Forseti Íslands hefur nú þegar veitt áðurnefndum undirskriftum viðtöku.

Býð ég þvi krafta mina áfram til stjórnarstarfa fyrir árið 2012-2013. Þess má einnig geta að ég hef verið skipuð í trúnaðarráð VR 2012-2014  sem einnig er sjálfboðavinna en hlutverk þess er að vera stjórn félagsins ráðgefandi við gerð kjarasamninga og ýmis stærri mál. Er ekki tengd neinum stjórnmálaflokki né á ég hagsmuna að gæta í stjórnum banka eða fjármálafyrirtækja. Ég fer þess á leit við félagsmenn HH að þeir styðji mig til áframhaldandi stjórnarsetu, með atkvæði sínu á aðalfundi samtakanna fimmtudagskvöldið 31. maí næstkomandi.

 


 

Þóra Guðmundsdóttir

Ég heiti Þóra Guðmundsdóttir og er fædd 1959. Ég hef áhuga á að bjóða mig fram til stjórnar samtakanna. Ég tel lánakjör til húsnæðiskaupa vera eitt helsta hagsmunamál neytenda og hef mikinn áhuga á að bæta lánakjör okkar allra, en einnig tel ég mikilvægt að leiðrétta höfuðstól stökkbreyttra verðtryggðra lána.

Eitt af mínum hjartans málum er afnám verðtryggingarinnar. Mér finnst það fullkomlega óviðunandi að allri áhættu af almennri lánastarfsemi til íbúðakaupa skuli vera velt á lántakendur, auk þess sem ég er sannfærð um að tilvist verðtryggingarinnar geri alla hagstjórn óábyrgari þar sem hún gerir það að verkum að almenningur fær öll mistök á raðgreiðslum ef svo má segja.

Ég sit í stjórn Neytendasamtakanna, og er þar varaformaður.


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum