Dómsmáli HH um verðtryggð neytendalán áfrýjað til Hæstaréttar
Dómsmáli sem Hagsmunasamtök heimilanna reka fyrir hjón sem eru félagsmenn í HH hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar Íslands. Málið var upphaflega höfðað árið 2012 gegn Íbúðalánasjóði og er tilgangurinn með því að láta reyna á lögmæti kynningar verðtryggðra neytendalána. Þess er krafist í málinu að skilmálar láns hjónanna um verðtryggingu verði dæmdir óskuldbindandi þar sem þeim var ekki kynntur heildarlántökukostnaður lánsins við lántökuna líkt og lög gerðu ráð fyrir.
Þess má geta að samkvæmt niðurstöðum þjóðmálakönnunar Félagsvísindastofnunar HÍ í júni 2014 töldu 89% aðspurðra mjög eða frekar mikilvægt að fá efnislega niðurstöðu um það fyrir dómstólum hvort verðtrygging neytendalána kunni að hafa verið ólöglega framkvæmd og kynnt frá árinu 2001 eftir að húsnæðislán voru þá sett inn sem neytendalán.
Ljóst er að niðurstaða málsins gæti leitt til verulegrar lækkunarhúsnæðisláns stefnenda, ef fallist yrði á kröfur þeirra. Til merkis um það má nefna að sá héraðsdómari sem málinu var úthlutað til, vildi í fyrstu segja sig frá því vegna vanhæfis, þar sem hann væri væri sjálfur með verðtryggt húsnæðislán og ætti því verulegra hagsmuna að gæta af málinu. Sá úrskurður var kærður til Hæstiréttar sem sneri honum við og lagði fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Eftir að málið hófst árið 2012 var því fyrst vísað frá dómi af tæknilegum ástæðum. Með breyttum málatilbúnaði var því svo endurstefnt fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur í nóvember 2013. Eftir ítrekaðar tafir og bið eftir ráðgefandi álitum EFTA-dómstólsins í tveimur sambærilegum málum, var mál hjónanna loks tekið til efnislegrar aðalmeðferðar 5. janúar síðastliðinn. Þann 6. febrúar kvað Héraðsdómur Reykjavíkur upp dóm í málinu, þar sem var í meginatriðum fallist á allar helstu málsástæður okkar í málinu. Dómurinn taldi einhverra hluta vegna þær ástæður ekki nægilega veigamiklar til þess að leiða til ógildingar verðtryggingarskilmálanna, en með áfrýjun mun það koma til kasta Hæstaréttar Íslands að skera úr um afleiðingar þess að lánið sem um ræðir hafi verið ólöglega úr garði gert.
Hagsmunasamtök heimilanna munu fyrir 13. maí skila greinargerð sinni til Hæstaréttar, og Íbúðalánasjóður fær þá líklega frest fram að 11. júní til að skila sinni greinargerð. Málið verður í kjölfarið sett á dagskrá Hæstaréttar, og tekið til meðferðar þar síðar á þessu ári, en búast má við að dómur geti fallið í Hæstarétti með haustinu. Hagsmunasamtök heimilanna binda að sjálfsögðu vonir við að fallist verði á málsástæður og kröfur stefnenda málsins, enda gæti það leitt til verulegrar lækkunar verðtryggðra neytendalána, og stuðlað að því að leysa þann skuldavanda sem íslensk heimili hafa mátt glíma við allt frá fjármálahruninu sem varð árið 2008.