Hjálpið okkur að hjálpa ykkur!
Bréf frá formanni til félagsmanna, gesta neytendatorgs og umræðuhóps Hagsmunasamtaka heimilanna.
Kæru félagsmenn og konur,
Hafi einhver efast um þörfina fyrir Hagsmunasamtök heimilanna þarf sá hinn sami ekki lengur að velkjast í neinum vafa
um hversu mikilvæg þau eru, því það hefur komið skýrt í ljós á undanförnum dögum og vikum.
Undanfarnar vikur hafa sýnt að það þarf stöðugt að halda því á lofti og minna á að heimilin eru grunnstoð hagkerfisins, ekki síst á óvissutímum, og að að þeim þarf að hyggja. Þau eiga ekki að vera einhver “afgangsstærð” í aðgerðum ríkisstjórnarinnar sem “líka njóta góðs af aðgerðum” sem þó miðast fyrst og fremst við þarfir atvinnulífs eða fjármálafyrirtækja.
Heimilin eru ein af grunnstoðum samfélagsins og það á ekki að bjóða þeim upp á að hirða bara molana sem hugsanlega falla til þeirra af borðum fyrirtækja og banka.
Hagsmunabarátta heimilanna á tímum veirunnar
Ég er gríðarlega stolt af baráttu okkar í HH á þessum fordæmalausu tímum. Við höfum sýnt það og sannað að við verjum heimilin með kjafti og klóm og gefum ekkert eftir þegar kemur að hagsmunum þeirra.
Hér er nokkuð af því sem Hagsmunasamtökin hafa gert síðan C-19 setti þjóðfélagið á hliðina:
11. mars: HH beina áskorun til ríkisstjórnarinnar - Viðspyrnu er þörf fyrir hagkerfið og heimilin
18. mars: Áskorun til ríkisstjórnarinnar og alþingismanna - Heimilin eru grunnstoðir samfélagsins!
24. mars: Grein eftir forystufólk HH - Hagsmuna fjármálafyrirtækja gætt en heimilin sniðgengin
24. mars: Umsögn um aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru
24. mars: Fjarfundur með efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis um aðgerðir vegna heimsfaraldurs
24. mars: Formaður HH í viðtali í þættinum Rauða borðinu á Samstöðinni, ásamt verkalýðsforkólfum
25. mars: Fjarfundur með fjárlaganefnd Alþingis um aðgerðir vegna heimsfaraldurs kórónuveiru
26. mars: HH senda frá sér fréttatilkynningu vegna afstöðu Seðlabankastjóra til þaks á verðtryggingu
26. mars: Formaður HH í viðtali í Reykjavík síðdegis um aðgerðir ríkisstjórnarinnar
31. mars: HH senda spurningar til forsætisráðherra í umræðuþátt á RÚV um stöðu heimilanna
03. apríl: Visir.is birtir opið bréf formanns HH til forsætisráðherra - „Alveg eins og var gert eftir hrun”
06. apríl: Formaður HH í Bítið á Bylgjunni og Stöð 2 um stöðu heimilanna í efnahagssamdrætti
16. apríl: Formaður HH í viðtali í þættinum Rauða borðinu á Samstöðinni, ásamt verkalýðsforkólfum
17. apríl: Grein eftir formenn HH og VR - Erum við öll í sama báti?
20. apríl: Umsögn um frumvarp um rafræna málsmeðferð hjá sýslumönnum og dómstólum
20. apríl: Fréttatilkynning birt og send til fjölmiðla - Dómsmálaráðherra vill "síma-nauðungarsölur"
21. apríl: Fjarfundur með allsherjarnefnd Alþingis um frumvarp um símafyrirtökur sýslumanna o.fl.
21. apríl: Formaður HH í viðtali í þættinum 21 á Hringbraut um stöðu heimilanna
Eins og sjá má af þessum lista hafa Hagsmunasamtökin lagt mikið á sig til að vekja athygli á málstað heimilanna. Við höfum sent frá okkur samtals 9 fréttatilkynningar, áskoranir og greinar á þessum rúma mánuði og höfum uppskorið nokkra athygli almennings og fjölmiðla fyrir vikið, en minna fer því miður fyrir viðbrögðum stjórnvalda.
Það verður varla annað sagt en að þetta séu mikil afköst, ekki síst ef það er haft í huga að við erum sjálfboðaliðasamtök. En þrátt fyrir það höfum við haft okkur meira í frammi og brugðist hraðar við en aðrir aðilar sem hafa bæði mikið fjármagn og fjölda starfsmanna.
Hjálpið okkur að hjálpa ykkur
Það hefur oft verið mikilvægt, en sjaldan sem nú, að við hjá Hagsmunasamtökunum höldum vöku okkar og látum í okkur heyra til verja málstað heimilanna og nú leitum við til ykkar um stuðning.
Stuðningur getur t.d. falist í því að vera dugleg að deila á facebook því sem við erum að skrifa um málefni heimilanna, viðtölum og fleiru slíku. Það skiptir gríðarlega miklu máli að dreifa boðskapnum sem víðast.
Að undanförnu hefur orðið mikil fjölgun í facebook hóp samtakanna og þar hafa um 800 manns bæst í hópinn á örfáum vikum. Bara það er til marks um þá athygli sem barátta HH er að fá og þann stuðning sem hún nýtur og í þessum fjölda felst gríðarlegur kraftur og áhrifamáttur, sérstaklega ef allir leggjast á eitt.
Einnig hefur orðið nokkur fjölgun í skráðum félagsmönnum en hún er ekki nema brotabrot af fjöldanum sem hefur bæst við inni á facebook.
Við viljum hvetja ykkur sem ekki hafið enn skráð ykkur í samtökin
til að gera það sem allra fyrst!
Vægi okkar sem samtaka byggist að miklu leyti á fjölda félagsmanna.
Ég veit ekki hvort við gerum okkur öll grein fyrir því hversu stór samtök Hagsmunasamtök heimilanna eru, það er a.m.k. alveg ljóst að stjórnmálamenn og margir fréttamenn átta sig ekki á því, annars myndu þau aldrei voga sér að hunsa samtökin með þeim hætti sem hefur verið gert.
Ef Hagsmunasamtök heimilanna væru bandarísk væru félagsmenn nær 9 milljónir miðað við höfðatölu. Samkvæmt lauslegri leit ná engin óhagnaðardrifin samtök vestanhafs nema minna en helmingi þess fjölda og til samanburðar má nefna að í Amnesty International eru “ekki nema” 7 milljónir meðlima á heimsvísu.
Við erum RISASTÓR samtök en þar sem félagsgjöld okkar eru valkvæð, höfum við ekki úr miklu að spila og það gerir okkur erfitt fyrir og þyngir róðurinn oft mikið, ekki síst þegar litið er til þess að barátta okkar er við aðila sem ráða yfir nær öllu fjármagni landsins, Ríkið og bankana.
Ekkert jafnræði!
Það er ekki hægt að sleppa því að minnast á að á meðan Hagsmunasamtök heimilanna hafa úr um 13 milljónum á ári að spila fyrir allan rekstur, laun og dýran málarekstur, hefur Umboðsmaður skuldara að meðaltali haft úr 555 milljónum að spila á hverju ári og er með 17 starfsmenn, án þess að sinna nokkrum málarekstri fyrir neytendur, en fyrir utan laun er það dýrasti liðurinn í rekstri HH.
Þessi upphæð hefur reyndar farið lækkandi og árið 2018 var hún ekki nema 284 milljónir, sem hlýtur að hafa verið erfitt fyrir UMS. Það ár var heildarlaunakostnaður Umboðsmanns skuldara nær 216 milljónir, eða að meðaltali 1 milljón á mánuði á mann á meðan heildarlaunakostnaður Hagsmunasamtaka heimilanna þetta sama ár var 6,2 milljónir, eða um 516 þúsund samtals á mánuði, sem skiptist á okkar tvo frábæru starfsmenn.
Ef fólk þarf að leita aðstoðar vegna skuldamála á það að hafa val!
Það er í hæsta máta óeðlilegt að “ríkisbákn” á framfæri fjármálafyrirtækja, sé það eina sem ríkið býður skuldurum upp á.
Þó okkur hjá Hagsmunasamtökunum þyki kostnaðurinn við embættið út úr öllu korti, þá er það í raun sjálfsögð krafa að í nafni valfrelsis og jafnræðis, verði þessu fjármagni skipt jafnt á milli UMS og Hagsmunasamtaka heimilanna.
Svo er því miður ekki og framlög ríkisins til okkar hafa hreint út sagt verið smánarleg á undanförnum árum, eða 1,5 milljónir á ári undanfarin 3 ár.
Við treystum því alfarið á ykkur, kæru félagsmenn.
408 krónur á mánuði
Greiðsluseðlar vegna félagsgjalda samtakanna eru gefnir út einu sinni á ári en þau eru nú kr. 4.900, eða 408 krónur á mánuði.
Fyrir þetta gjald gera samtökin allt sem í þeirra valdi stendur til að verja heimili þitt.
Fyrir þetta gjald gerir þú okkur kleift að “taka slagi” sem enginn annar tekur.
Það var engin sem barðist fyrir heimilin 2008 og við vitum öll hvernig það fór.
Við getum ekki lofað árangri, en við getum lofað því að leggja okkur öll fram og gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir að það sem gerðist eftir síðasta hrun endurtaki sig.
Við treystum á þitt framlag og þinn stuðning!
Núna er einmitt sá árstími sem greiðsluseðlar HH eru jafnan gefnir út og verða þeir sendir í heimabanka félagsmanna á næstu dögum.
Við veltum því fyrir okkur að fresta því í ljósi þess að aðstæður eru víða erfiðar, en niðurstaðan varð sú að gefa þá samt út núna því við þurfum að geta staðið skil á okkar skuldbindingum, greitt laun og rekið starfsemina.
Svo er rétt að minna á að um valfrjáls gjöld er að ræða þannig að þeir sem ekki geta greitt félagsgjöld á þessum tíma geta einfaldlega sleppt því að svo stöddu og (vonandi) greitt síðar án nokkurs aukakostnaðar.
Mig langar engu að síður að biðla til allra sem mögulega geta greitt félagsgjöldin að gera það.
Við þurfum á ykkar stuðningi að halda til að geta haldið baráttunni áfram og varið hagsmuni heimilanna á þessum skrýtnu tímum.
Hjálpið okkur að hjálpa ykkur!
Að lokum vil ég óska öllum félagsmönnum gleðilegs sumars í trausti þess að við munum öll eiga skjól undir öruggu “þaki”.
Kær kveðja
Ásthildur Lóa Þórsdóttir
formaður Hagsmunasamtaka heimilanna
Ef þú ert ekki enn orðinn félagi og/eða vilt styrkja Hagsmunasamtök heimilanna á þessum tímum má leggja inn á reikning samtakanna hjá Sparisjóði Suður-þingeyinga.
Reikningsnúmer: 1110-26-5202, kt. 520209-2120
Margt smátt gerir eitt stórt!