Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Tími til aðgerða er núna!

Tími til aðgerða er núna!

Núna upplifa margar fjölskyldur óvissu og jafnvel ótta um hvað framtíðin muni bera í skauti sínu. 

Áhrif Covid á atvinnulífið og þar með afkomu fjölskyldna eru meiri en vonast var til í vor og margir sjá fram á að geta ekki staðið við skuldbindingar sínar, t.d. hvað varðar fasteignalán. Hjá fæstum stafar það af „óskynsemi“ eða „of-fjárfestingum“, heldur vegna ástands sem ekki var á valdi fjölskyldna að sjá fyrir eða bregðast við.

Krafa Hagsmunasamtaka heimilanna er einföld: 

 

Enginn á að þurfa að missa heimili sitt vegna afleiðinga Covid-19!

Reyndar á engin fjölskylda nokkurn tímann að þurfa að missa heimili sitt vegna tímabundinna vandkvæða, hvort sem þau eru persónuleg, þjóðarinnar allrar, eða alþjóðleg.

Samkvæmt mannréttindasáttmálum sem Ísland hefur skrifað undir og staðfest eru það mannréttindi að eiga heimili. 

Engu að síður hafa a.m.k. 15.000 fjölskyldur misst heimili sín vegna síðasta hruns, vegna þess að þeir sem fóru fyrir fjármálageiranum virtu hvorki lög né leikreglur, heldur litu á neytendur sem peð í sínum ljóta leik.

Til að koma í veg fyrir að svipaðar hörmungar endurtaki sig, þarf að grípa til aðgerða NÚNA!

Það er of seint þegar skaðinn er skeður!

Þess vegna sendu Hagsmunasamtökin áskorun/fréttatilkynningu í vikunni á fjölmiðla og alla ráðherra ríkisstjórnarinnar til að minna á að þeir bera ALLIR ábyrgð á að verja heimili landsins og að þeim beri að setja hagsmuni þeirra ofar hagsmunum fjármálafyrirtækjanna.

Það liggur fyrir að þrátt fyrir digurbarkaleg orð fjármálaráðherra og Seðlabankastjóra í vor, um að verðbólgu yrði haldið í skefjum, að þeir eru að missa tök á henni.

Þar sem vextir hafa aldrei verið lægri á Íslandi í manna minnum, er kjörið tækifæri núna fyrir ríkisstjórnina að afnema verðtrygginguna á lánum heimilanna, og uppfylla með því sinn eigin stjórnarsáttmála.

Það allra minnsta sem ríkisstjórnin getur gert er að setja þak á verðtrygginguna og tryggja þannig heimilin fyrir skelfilegum og langvinnum áhrifum hennar á afkomu þeirra og fjárhag.

Þetta hefði að sjálfsögðu átt að gera í vor eins og Hagsmunasamtökin fóru ítrekað fram á enda sýna tölur um verðbólguvæntingar Seðlabanka Íslands að heimilin eru einu aðilarnir sem hafa reynst sannspáir um verðbólguvæntingar á þessu ári. Fyrirtæki, markaðsaðilar og markaðurinn sjálfur, vanmátu þær hins vegar.

Andvaraleysi stjórnvalda gagnvart þeirri vá sem mörg heimili standa frammi fyrir er algjörlega óforsvaranlegt. Sporin hræða og það má ekki gerast aftur að heimilum landsins verði fórnað á altari fjármálafyrirtækja eins og gert var eftir síðasta hrun.

Hagsmunasamtök heimilanna munu gera allt sem í þeirra valdi stendur til að verja heimili landsins fyrir sterkum hagsmunaaðilum. Þetta er ójafn leikur því það er ekki nóg með að hagsmunasamtök fjármálafyrirtækja (SFF) séu með beinan aðgang að stjórnvöldum, heldur hafa þau líka aðgang að ómældu fjármagni til að kosta hagsmunabaráttu sína.

Við þetta berjast Hagsmunasamtök heimilanna í sjálfboðavinnu. Fjármagnið er lítið sem ekkert, en réttlætið, lögin og Stjórnarskráin, eru svo sannarlega okkar megin, að ógleymdri hugsjóninni fyrir réttlátu Íslandi og eldmóðnum sem fleytir okkur langt.

Hér er tengill á fréttatilkynningu okkar frá því í gær ÍTREKUN: Tryggjum heimilunum skjól undir öruggu þaki.

Ef þú vilt leggja Hagsmunasamtökum heimilanna lið getur þú skráð þig í samtökin hér og greitt valfrjáls félagsgjöld kr. 4.900 á ári.

 

Okkur munar um allan stuðning!

 

Ásthildur Lóa Þórsdóttir

formaður Hagsmunasamtaka heimilanna




© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum