Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Stjórnvöld hafa brugðist réttmætum væntingum heimilanna

Stjórnvöld hafa brugðist réttmætum væntingum heimilanna

Áskorun til ríkisstjórnarinnar frá Hagsmunasamtökum heimilanna

“...það er alveg á hreinu að það verður forgangsatriði hjá okkur að verja stöðu fólks [heimilanna] fyrir þessum skakkaföllum eftir þeim leiðum sem færar eru í því.”  

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í viðtalsþætti á RÚV 31. Mars 2020

Frá því í mars 2020 hafa Hagsmunasamtök heimilanna varað við fyrirsjáanlegu verðbólguskoti og þeim áhrifum sem það myndi hafa á húsnæðisskuldir heimilanna. Nú hefur sú áhætta raungerst og verðtryggðar skuldir heimilanna hækkað verulega.

Samtökin minna því á kröfur sínar frá því í mars í fyrra sem reyndar voru líka ítrekaðar í september, um að heimilin yrðu varin fyrir hækkun verðtryggðra skuldbindinga sinna vegna verðbólgu af völdum heimsfaraldurs kórónuveiru.

Í báðum tilfellum var kröfum HH svarað með því að benda á að ekki væri útlit fyrir mikla verðbólgu og það að setja þak á verðtryggingu lána heimilanna, gæti grafið undan trausti á því að seðlabankanum tækist það markmið sitt að halda verðbólgu í skefjum. 

Þrátt fyrir þær yfirlýsingar hefur verðbólga meira en tvöfaldast síðan þá og farið langt yfir verðbólgumarkmið stjórnvalda. Ef eitthvað traust var til þess að seðlabankanum tækist að halda verðbólgu í skefjum er því ljóst að það er algjörlega brostið og fyrrnefnd rök því fallin um sig sjálf.

Einu svör fjármálaráðherra við ítrekuðum fyrirspurnum um hvað yrði um verðtryggð lán heimilanna í verðbólguskoti, voru að hann hefði engar áhyggjur af verðbólguskoti. Nú er hins vegar komið í ljós að það hefði verið full ástæða fyrir hann til að hafa áhyggjur af verðbólguskoti og í raun ámælisvert að sjálfum fjármálaráðherra landsins hafi verið meira annt um trúverðugleika Seðlabankans en raunveruleika heimilanna. Núna eru heimilin að gjalda þess. Skaðinn er skeður, skaði sem svo auðveldlega hefði verið hægt að koma í veg fyrir. 

Það er einnig vert að minna á að forsætisráðherra sagði aðspurð í viðtali á RÚV þann 31. mars 2020 að “...það er alveg á hreinu að það verður forgangsatriði hjá okkur að verja stöðu fólks fyrir þessum skakkaföllum eftir þeim leiðum sem færar eru í því.”

Fjármálaráðherra hefur ítrekað fullvissað heimilin um að það væri engin ástæða til að hafa áhyggjur af aukinni skuldabyrði vegna Covid og með orðum sínum á RÚV gaf forsætisráðherra heimilunum tilefni til réttmætra væntinga, sem ekki hefur verið komið til móts við. 

Hagsmunasamtökin benda á að það er algjörlega "fær leið" að setja þak á verðtryggingu lána heimilanna og afleiðinga þessa verðbólguskots sem heimilin töldu sig varin fyrir. Það væri því eðlilegt að þakið væri miðað við verðbólgustigið þann dag sem loforðið var gefið og að ríkisvaldið bæti heimilunum þann aukakostnað sem hefur fallið á þau vegna aðgerðarleysis stjórnvalda.

Orðum fylgja ábyrgð. Ítrekaðar fullyrðingar ráðherra um "áhyggjuleysi og vernd" hafa áhrif á ákvarðanir heimilanna og líklegt að margir hafi trúað að verðtryggingin "veitti þeim skjól", eins og fjármálaráðherra hélt fram á Alþingi. Þau orð dæma sig sjálf, en meiri öfugmæli eru ekki til.  

Einnig er vert að benda á að þó margir hafi flúið verðtrygginguna á undanförnum mánuðum er það alls ekki á allra færi. Það eru einmitt þau sem verst standa sem ekki geta flúið verðtryggða leigu eða húsnæðislán. Það er engan veginn réttlætanlegt að þau greiði hæsta gjaldið vegna ástands sem þau bera enga ábyrgð á.

Það er algjörlega óásættanlegt að áhrifa þessa ástands á verðtryggð lán heimilanna gæti um ókomna tíð, því þegar verðtryggðu lánin hafa einu sinni hækkað þá lækka þau ekki aftur.

Í þessu felst einmitt einn stærsti galli verðtryggingarinnar. Heimilin súpa seyðið um alla framtíð vegna tímabundinnar hækkunar verðbólgu, á meðan lánveitendur hagnast um langa framtíð á þessari sömu tímabundnu hækkun.

Hagsmunasamtök heimilanna skora á forsætisráðherra, fjármálaráðherra og ríkisstjórnina alla að efna loforð þeirra um að bregðast við til varnar heimilunum vegna þess verðbólguskots sem nú er skollið á þeim, ásamt því að afnema verðtryggingu lána heimilanna.

Hagsmunasamtök heimilanna






© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum