Á döfinni

Svört skýrsla um áhrif verðtryggingar fæst ekki birt

Þingmaður Flokks fólksins vitnaði í svarta skýrslu sem ekki hefur fengist birt, í ræðu sinni á Alþingi í gær. Umrædd skýrsla var skrifuð af Dr. Ólafi Margeirssyni hagfræðingi og Jacky Mallett, lektor við Háskólann í Reykjavík, samkvæmt beiðni tólf þingmanna úr fimm flokkum. Þau skiluðu skýrslunni til félagsmálaráðuneytisins í júní í fyrra en hún hefur ekki enn fengist birt, þrátt fyrir ítrekaða eftirgrennslan Hagsmunasamtaka heimilanna.

Þingmanninn Ásthildi Lóu Þórsdóttur, sem einnig er formaður Hagsmunasamtaka heimilanna, þraut þolinmæðin í gær og ákvað hún að kunngjöra tilvist skýrslunnar og vitna í kafla hennar um áhrif verðtryggingarinnar á heimilin og hagkerfið.

Samkvæmt því sem Ásthildur Lóa sagði í ræðu sinni er ljóst að skýrslan er óþægileg fyrir stjórnvöld sem hafa varið verðtryggingu á lánum heimilanna með kjafti og klóm, þrátt fyrir loforð um annað. 

Einnig mælti þingmaðurinn fyrir rétti neytenda til að breyta úr verðtryggðum lánum í óverðtryggð en í þeirri ræðu komu fram sláandi niðurstöður sem sýna svart á hvítu hve mikil áhrif 3,4% hækkun verðbólgu frá ársbyrjun hefur haft á verðtryggð lán.

Almenningur á rétt á að sjá þessa skýrslu, ekki síst þegar litið er til þess hvernig fjármála- og efnahagsráðherra hefur ítrekað vísað til verðtryggðra lána sem „lausnar“ fyrir lántakendur sem ekki ráða við gríðarlegar vaxtahækkanir undanfarinna mánaða.

Þau eru ekki lausn, heldur gildra!

Hagsmunasamtök heimilanna

Lesa áfram...

Ráðherra gengur erinda innheimtuaðila

Fjármála- og efnahagsráðuneytið birti í samráðsgátt stjórnvalda 6. júlí síðastliðinn, drög að reglugerð um heimildir einkaaðila til að birta gögn í stafrænu pósthólfi.

Þrátt fyrir að titillinn láti ekki mikið yfir sér er þó um að ræða stórfellda breytingu á einu af grundvallaratriðum réttarkerfisins, þ.e. birtingu á stefnum og ýmisskonar tilkynningum sem geta haft réttaráhrif. Með reglugerðinni er fyrirhugað að veita einkaaðilum heimild til að nýta stafrænt pósthólf stjórnvalda (island.is) til að birta slík gögn með rafrænum hætti í stað þess að afhenda þau viðkomandi í eigin persónu eins og hingað til.

Að svo stöddu er þó aðeins ætlunin að veita tveimur flokkum aðila heimild til rafrænna birtinga, þ.e. lífeyrissjóðum og aðilum sem stunda löginnheimtu (innheimtulögmönnum). Slíkum aðilum yrði þá heimilt að nota tölvukerfi ríkisins til að birta m.a. greiðsluáskoranir, beiðnir um nauðungarsölur eða fjárnám og stefnur til að höfða dómsmál í því skyni að innheimta kröfur.

Drög að reglugerð um heimildir einkaaðila til að birta gögn i stafrænu pósthólfi 

Það vakna ýmsar spurningar vegna þessarar reglugerðar sem Hagsmunasamtök heimilanna myndu vilja fá svör við: 

  • Hver fór fram á að þessi reglugerð yrði sett?

  • Af hverju er fjármálaráðherra að setja reglugerð í málaflokki sem heyrir ekki undir hann heldur dómsmálaráðherra?

  • Er það hlutverk ríkisstjórnarinnar að auðvelda einkafyrirtækjum aðfarir að almenningi, með því að draga úr möguleikum hans til að taka til varna, þegar fjölmörg dæmi sýna að oft er farið í slíkar aðgerðir á vafasömum forsendum?

  • Veit fjármálaráðherra að nú þegar er það svo að hægt er að ónýta réttindi neytenda gagnvart fjármálafyrirtækjum með því að halda réttarhöld af þeim fjarstöddum og dæmi um að það hafi verið gert? Vill ráðherra raunverulega fjölga slíkum tilfellum?

  • Þegar um er að ræða gjörðir sem hafa mikil áhrif á hagsmuni neytenda til langs tíma, er þá eitthvað að því að framkvæmdin hjá innheimtuaðilanum, útheimti aðeins meiri fyrirhöfn en einn músarsmell?

  • Hefur fjármálaráðherra kynnt sér það algjöra varnarleysi sem neytendur búa við gagnvart hverskyns kröfum fjármála- og innheimtufyrirtækja? Ef svo er, væri ekki réttara að ráðast í að bæta þá stöðu frekar en að auka enn á varnarleysið?

  • Þegar neytendur annars vegar og innheimtu- eða fjármálafyrirtæki hins vegar takast á, er aðstöðumunurinn vægast sagt gríðarlegur. Er það virkilega forgangsmál ráðherrans að koma þessari reglugerð á og auka þannig  aðstöðumuninn enn frekar?

  • Veit ráðherra ekki að fjöldi fólks getur af ýmsum ástæðum ekki notað rafrænar lausnir á þessu sviði og því er gríðarleg hætta á að sá hópur verði ekki var við rafrænar birtingar og verði þannig beinlínis fyrir réttarspjöllum? Er það virkilega ætlun ráðherra að innleiða rafræna aðskilnaðarstefnu hér á landi?

  • Samkvæmt lögum um samskipti við hagsmunaaðila ber ráðherra að halda skrá yfir þau.

    1. Hvaða samskipti við hagsmunasamtök fjármálafyrirtækja (SFF), lögmannafélagið eða aðra sem hafa hag af þessari reglugerðarsetningu hafði ráðherra og/eða ráðuneytið í aðdraganda þessarar reglugerðar, hversu mörg voru þau og á hvaða formi (fundir, símtöl, tölvupóstar)? Við óskum eftir öllu sem var skráð.

    2. Hvaða samskipti við neytendaverndarsamtök hafði ráðherra/ráðuneytið í aðdraganda þessarar reglugerðar, hversu mörg voru þau og á hvaða formi (fundir, símtöl, tölvupóstar)? Við óskum eftir öllu sem var skráð.

Hagsmunasamtök heimilanna er fylgjandi innleiðingu rafrænna lausna og leggjast alls ekki gegn „pappírslausum viðskiptum“ eins og í formi yfirlita og rafrænna greiðsluseðla en hér er um meira en það að ræða.

Hagsmunasamtök heimilanna mótmæla því harðlega að gengið verði á rétt neytenda frekar en þegar er, með því að auðvelda innheimtuaðilum jafn afdrifaríkar aðgerðir og þegar kemur að greiðsluáskorunum, beiðnum um nauðungarsölur eða fjárnám og stefnur til að höfða dómsmál í því skyni að innheimta kröfur.

Varðandi aðrar athugasemdir vísa samtökin í umsögn sína við reglugerðina og óska formlega eftir svörum fjármálaráðherra við spurningum sínum. Hér er um gríðarlega stór hagsmunamál að ræða fyrir neytendur á fjármálamarkaði og í þessum málum þarf fyrst og fremst að tryggja að neytandinn sé sannanlega upplýstur um hvað standi til, að andmælaréttur hans sé virtur og að honum gefist raunhæft tækifæri til að taka til varna.

Dómsmálaráðuneytið hefur ekki sinnt þeirri skyldu sinni og nú þegar fjármálaráðuneytið sér allt í einu ástæðu til að grípa inn í þennan málaflokk þá er það til að veikja málstað neytenda enn frekar. Það fordæma Hagsmunasamtök heimilanna og leggjast alfarið gegn umræddri reglugerð.

Almenningur er ekki fóður fyrir innheimtulögmenn!

Hagsmunasamtök heimilanna

 

Lesa áfram...

Frysting á verðtryggingu lána og húsaleigu

Frumvarp til laga á Alþingi

Ásthildur Lóa Þórsdóttir alþingismaður og formaður Hagsmunasamtaka heimilanna hefur mælt fyrir frumvarpi um tímabundna frystingu á verðtryggingu lána og húsaleigu vegna stöðunnar í efnahagsmálum. Með frumvarpi þessu er lagt til að frysta í ár, hækkanir á verðtryggðum skuldbindingum heimilanna vegna húsnæðis, sem hafa farið ört hækkandi að undanförnu vegna verðbólgu sem má að stóru leyti rekja til áhrifa heimsfaraldurs kórónuveiru. Frumvarpið var lagt fram 1. desember og mælt var fyrir því 18. janúar - 80/152 frumvarp til laga

Lesa áfram...

Stofnanir brugðust í hruninu

Það er skýr afstaða Hagsmunasamtaka heimilanna, að öll heimili eigi rétt á og skal tryggður aðgangur að óháðri lögfræðiráðgjöf og réttindagæslu gagnvart lánveitendum fasteignalána og annarra neytendalána. Afstaða samtakanna byggir á reynslu þeirra af efnahagshruninu og langvarandi áhrifum gjaldþrota bankanna 2008 á lífsskilyrði félagsmanna og annarra sem til samtakanna hafa leitað. 

Fólk var varnarlaust

Á árunum eftir hrun var eignarréttur fólks lítilsvirtur og fjölskyldur sem neyddust til að selja heimili sín festust í kjölfarið á ómannvænum leigumarkaði til langs tíma, án lánstrausts. Þetta fólk hafði þó ekkert rangt gert. Lán stökkbreyttust eftir gjaldþrot bankanna og hækkun greiðslubyrðar var mörgum ofviða en það sem meira var, bankarnir og lánastofnanir beittu ófyrirséðri hörku við innheimtu lána og gjaldfellingu þeirra. Stjórnkerfið og stofnanir eins og Alþingi og Umboðsmaður skuldara brugðust þessum fjölskyldum. Þrátt fyrir að lánveitendum væri skylt að gera upp eftir nauðungarsölur miðað við fullt markaðsverð fasteigna kröfðu þeir lántakendur engu að síður um meintar eftirstöðvar lána og skráðu fólk á vanskilaskrá til margra ára. Fólk var varnarlaust. Óteljandi álitamál fóru í gegnum dómskerfið og kærunefndir, með takmörkuðum árangri fyrir lántakendur og eini raunverulegi stuðningurinn var á vettvangi Hagsmunasamtaka heimilanna. Langvinn áhrif hrunsins á lífsskilyrði stórs hóps félagsmanna hafa hvorki verið viðurkennd né rannsökuð. Enn leita félagsmenn í ráðgjöf til að leysa úr þessum langtímavanda, þó mikið vatn hafi runnið til sjávar.

Lesa áfram...

Afstaða stjórnmálaflokka til verðtryggingar opinberuð

Undir þinglok lagði þingkonan Inga Sæland fram breytingartillögu við frumvarp um breytingu á lögum um fasteignalán til neytenda, sem var unnin í samvinnu við Hagsmunasamtök heimilanna.

Þessi hófsama tillaga snerist einfaldlega um að veita neytendum með verðtryggð húsnæðislán rétt til að breyta þeim í óverðtryggð lán, án íþyngjandi kostnaðar og án þess að þurfa nýtt greiðslumat og lánshæfismat, enda óþarft ef greiðslubyrðin hækkar ekki. Þetta hefði orðið mörgum heimilum til hagsbóta sem eru föst í gildru verðtryggðra lána, nú þegar verðbólgan er komin á flug.

Það hefði átt að vera auðvelt að fá tillöguna samþykkta þar sem hún samræmdist stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og stefnu margra flokka sem hafa sumir haft afnám verðtryggingar á stefnuskrám sínum árum saman. Jafnframt felur hún hvorki í sér boð né bann líkt og hefur helst verið gagnrýnt af ýmsum andstæðingum afnáms verðtryggingar sem segjast aðhyllast “valfrelsi neytenda”.

Þrátt fyrir stefnuskrár, fögur fyrirheit og loforð í tengslum við lífskjarasamninga um að taka markviss skref í átt til afnáms verðtryggingar, var tillagan felld með 27 atkvæðum gegn 8. Atkvæðin féllu alveg eftir flokkslínum og afstaða stjórnmálaflokka til að þess að veita neytendum valfrelsi um að afnema verðtryggingu húsnæðislána sinna liggur því fyrir eins skýr og hún getur orðið á þessu stigi.

Hagsmunasamtök heimilanna telja mikilvægt að nú í aðdraganda kosninga séu kjósendur vel upplýstir um afstöðu stjórnmálaflokkanna til afnáms verðtryggingar og valfrelsis neytenda á fjármálamarkaði ásamt afstöðu þeirra til þess að valfrelsi neytenda byggist á jafnræði en ekki mismunun eftir efnahag. Hér á eftir verður því gerð grein fyrir því hvernig hver flokkur um sig greiddi atkvæði um fyrrnefnda tillögu og hvernig sú afstaða kemur heim og saman við fyrri yfirlýsingar og verk þeirra.

Lesa áfram...

Áskorun til Alþingis vegna hugmynda um sölu bankanna

Hagsmunasamtök heimilanna ítreka að það má alls ekki selja bankana án þess að fyrst fari fram úttekt og rannsókn á eignum þeirra, þ.e. hve hátt hlutfall þeirra hefur verið fengið með löglegum hætti, því það eitt er þeirra raunverulega eign.

Ábyrg stjórnvöld geta ekki leyft sér að líta fram hjá því að verulegur vafi leikur á að staðið hafi verið löglega að öllum málum eftir hrun og að líkur eru á því að stóran hluta hagnaðar bankanna frá hruni megi rekja til þess að lög- og stjórnarskrárvarin réttindi hafi verið brotin á þúsundum einstaklinga. Eignir sem fengist hafa með ólöglegum hætti eða með því að beita krafti aflsmunar til að ná fram niðurstöðum sem ekki standast skoðun, eru eðli málsins samkvæmt ekkert annað en þýfi sem ber að skila til þeirra sem því var stolið af.

Það getur því ekki komið til greina að selja neina banka fyrr en gerð hefur verið Rannsóknarskýrsla heimilanna um aðgerðir stjórnvalda og banka í kjölfar hrunsins, afleiðingar þeirra fyrir heimilin í landinu og hagnað bankanna sem rekja má til þeirra.

Að selja bankana áður en slík rannsókn færi fram væri ekki aðeins brot gagnvart þeim sem fyrir brotum hafa orðið, heldur einnig gagnvart fjárfestum sem gætu þá hreinlega farið í skaðabótamál við ríkið fyrir að hafa leynt þá mikilvægum upplýsingum um galla á eigninni.

Á sama hátt og Alþingi tók af skarið og lét gera Rannsóknarskýrslu um aðdraganda og orsakir bankahrunsins, skora Hagsmunasamtök heimilanna á Alþingi að sjá til þess að gerð verði Rannsóknarskýrsla heimilanna um aðgerðir stjórnvalda eftir hrun og afleiðingar þeirra fyrir heimilin og hagkerfið. Það verður að gerast áður en bankarnir verða seldir.

Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur misst heimili sín frá hruni. Það er staðreynd sem verður að skoða því hún sýnir svo ekki verður um villst að eitthvað hafi misfarist með skelfilegum afleiðingum.

Það er hrein og klár lítilsvirðing og allt að því mannvonska, gagnvart þeim þúsundum einstaklinga sem í þessum hremmingum lentu, að hunsa ákall þeirra um áheyrn, hjálp og rannsókn og erfitt að trúa því að óreyndu að nokkur þingmaður vilji standa í vegi fyrir réttlæti með þeim hætti.

Hagsmunasamtök heimilanna beina því til Alþingismanna að hefja sig yfir pólitík og flokka í þessu mikilvæga máli, því það getur enginn, hvorki flokkur né tiltekinn stjórnmálamaður, verið þess virði að láta skelfingar 15.000 heimila afskiptalausar.

Það eru 11 ár frá hruni. 15.000 heimili hafa tekið á sig skömm sem ekki var þeirra. Það er kominn tími til að skila henni þangað sem hún á heima og veita þeim uppreist æru.

Við krefjumst Rannsóknarskýrslu heimilanna - fyrir heimilin og hagkerfið!

Lesa áfram...
Subscribe to this RSS feed

© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum