Áskorun til innanríkisráðherra um framlengingu nauðungarsölufrestunar
Hagsmunasamtök heimilanna hafa beint eftirfarandi áskorun til innanríkisráðherra, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, og hafa upplýsingar um áskorunina jafnframt verið sendar til allra helstu fjölmiðla landsins.
Efni áskorunarinnar er í samræmi við ályktun borgarafundar í mars 2013, ályktun aðalfundar HH í maí 2013, kröfur sem settar voru fram á fundi með ráðherra í október 2013, niðurstöður álitsgerðar HH um ólögmæti nauðungarsalna án undangengins dóms frá nóvember 2013, og ályktun aðalfundar HH í maí 2014.
21. ágúst 2014
Efni: Áskorun um framlengingu frestunar á nauðungarsölum heimila
Hagsmunasamtök heimilanna skora á innanríkisráðherra að fyrirskipa undirmönnum sínum, sýslumönnum landsins, að fresta nauðungarsölum enn um sinn, þar til Alþingi hefur fjallað um bráðabirgðarákvæði sem nú er í gildi um frestun á nauðungarsölum. Innanríkisráðherra lagði fram frumvarp á Alþingi sem samþykkt var þann 19. desember síðastliðinn sem bráðabirgðarákvæði við lög um nauðungarsölur nr. 90/1991. Bráðabirgðarákvæðið kveður á um tímabundna frestun á nauðungarsölum og framlengingu á samþykkisfresti fram yfir 1. september næstkomandi. Ef ekkert verður að gert munu nauðungarsölur hefjist á ný af fullum þunga 1. september, áður en Alþingi kemur saman á haustþingi þann 9. september og áður en alþingismenn fá tækifæri til að fjalla um málið. Auk þess má búast við því að sýslumenn muni þá ganga frá uppgjöri á nauðungarsölum sem þegar hafa farið fram en eru á samþykkisfresti og þarf einnig að fresta á sömu forsendum.
Framlenging á frestun nauðungarsalna er nauðsynleg í ljósi þess að umsóknarfrestur um leiðréttingar vegna verðtryggðra fasteignalána rennur ekki út fyrr en 1. september og munu niðurstöður umsókna ekki verða ljósar fyrr en að þeim tíma liðnum. Einnig er vert að hafa í huga að beðið er ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í tveimur málum sem rekin eru fyrir dómstólum um lögmæti útfærslu verðtryggðra neytendalána. Auk þess er svipað mál vegna íbúðaláns rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á vegum Hagsmunasamtaka heimilanna sem tekur á húsnæðislánum neytenda. Verði niðurstaða einhverra þessara dómsmála neytendum í hag mun það breyta verulega stöðu lántakenda, í mjög mörgum tilfellum jafnvel á þann veg að þeir sem annars stæðu frammi fyrir nauðungarsölu geti staðið við skuldbindingar sínar og þar með haldið heimilum sínum. Enn og aftur minna Hagsmunasamtök heimilanna á skaðabótaskyldu þá sem gæti skapast ef ráðherra stöðvar ekki tafarlaust nauðungarsölur og framlengir samþykkisfrest í þeim tilfellum þar sem nauðungarsala hefur farið fram en uppgjöri þeirra mála hefur enn ekki verið lokið. Einnig vilja Hagsmunasamtök heimilanna hvetja innanríkisráðherra til að beina þeim tilmælum til skiptastjóra að þeir haldi að sér höndum og ljúki hvorki skiptalokum né selji eignir á veðhafafundum á sömu forsendum.
Grípi innanríkisráðherra ekki til ráðstafana er hætta á að holskefla nauðungarsalna muni ríða yfir í byrjun september sem muni leiða til aukins húsnæðisvanda og félagslegrar upplausnar.
Virðingarfyllst,
f.h. Hagsmunasamtaka heimilanna
Vilhjálmur Bjarnason, formaður