Kveðja fráfarandi formanns
Á þriðja aðalfundi samtakanna 31.mars sl. ákvað ég að stíga til hliðar úr framlínu samtakanna eftir að hafa starfað að krafti að hagsmunamálum heimilanna frá hruni. Allan tímann sem stjórnarmaður og lengst af sem formaður stjórnar. Við sem höfum starfað í framlínunni á þessum fyrstu árum samtakanna höfum bæði lagt metnað okkar í að ná árangri til hagsbóta fyrir heimilin og gera samtökin gildandi í umræðu um málefni heimilanna í landinu.
Þegar meta á árangur af störfum samtakanna þennan tíma ber að hafa í huga að verkefnin eru risavaxin og varða flókna og umfangsmikla þætti samfélagsins og efnahagslífsins, sem eiga sér sterka hagsmunaaðila sem verjast starfi Hagsmunasamtakanna af hörku. Ég fullyrði þó að þrotlaus málflutningur og aðgerðir stjórnar samtakanna hefur haft veruleg áhrif á opinbera umfjöllun um málefni heimilanna, meðvitund almennings um stöðu sína, áherslur á starfsháttum Alþingis, þau úrræði sem þegar eru komin fram af hálfu ráðuneytanna og fjölmargar tilboðsleiðir fjármálafyrirtækjanna.
Þrátt fyrir að margt hafi verið gert duga þau úrræði skammt í þeim vanda sem við er að etja. Skuldastaða heimilanna hefur verið að síversna frá innleiðingu verðtryggingar fjárskuldbindinga árið 1981 og hefur aldrei verið alvarlegri. Skuldir heimilanna fjórfölduðust á árunum 2000-2010 á meðan að ríkisstjórn hampaði sí bættri stöðu skulda og tekna ríkissjóðs. Heimilin hafa búið við fákeppni um húsnæðisform, þar sem sjálfseignarformið er um 87% markaðar og verðtryggð jafngreiðslulán með háum vöxtum eru ríkisform lánskjara. Saga verðtryggingar er saga stórfelldrar, kerfisbundinnar eignatilfærslu og skuldsetningar heimilanna, sem verður að stöðva. Með þessu kerfi er verið að ræna öllum sparnaði sem heimilin hafa lagt í fasteignir sínar og óheftar höfuðsólshækkanir endurspegla rán á framtíðartekjum heimilanna. Spurningar vakna um réttarstöðu neytenda gagnvart eignarrétti samkvæmt Stjórnarskrá Íslands og brotum á Mannréttindasáttmála Evrópu.
Nú er svo komið að um 60.000 heimili eru í afar þröngri stöðu og ráða illa við þá stöðu sem stjórnvöld og fjármálafyrirtæki hafa skapað. Aldrei hafa fleiri heimili verið þvinguð í greiðslu- og gjaldþrot. Aldrei hafa fjármálastofnanir yfirtekið jafn mörg heimili og nú. Ný innleidd greiðsluerfiðleikaúrræði virka illa við svo stórt kerfisáfall. Atvinnuleysi og landflótti er í sögulegum hæðum. Aldrei hafa jafn mörg fyrirtæki orðið gjaldþrota og síðast liðið ár. Um 50% allra fyrirtækja í landinu eru nú í fjárhagslegri endurskipulagningu og eru að færa um 6000 milljarða tap milli ára, sem þýðir að þau greiða ekki skatta.
Aðgerðir stjórnvalda eru alls ófullnægjandi og staðan er ólíðandi. Við eigum skýra sameiginlega hagsmuni með atvinnulífi, fjármálafyrirtækjum og hinu opinbera. Það er kominn tími til að stjórnvöld og fjármálafyrirtæki láti af þröngsýnni hagsmunagæslu sinni og gangist við ábyrgð sinni á stöðunni. Hlutirnir gerast ekki fyrirhafnarlaust og þeir breytast án efa ekki í þá átt sem við óskum eftir nema við tökum beinan þátt í að móta áherslur um samfélagið okkar til framtíðar. Hagsmunasamtök heimilanna hafa unnið til verulegra áhrifa í almennri umræðu og meðvitund innan stjórnsýslu og þings. Þó má betur ef duga skal. Stöðu heimilanna verður að breyta til batnaðar. Verkefnin eru risavaxin, brýn og mörg.
Á þessum tímamótum vil ég þakka félagsmönnum góðan stuðning og sýnt traust á umliðnum árum. Hagsmunasamtök heimilanna eru vissulega vonarneisti í þeim þrengingum sem við erum nú í. Stjórn samtakanna þarf þó enn breiðari stuðning félagsmanna til að ná frekari frekari árangri. Ég hvet ykkur því til að halda áfram uppi öflugri málefnaumræðu um bættan hag heimilanna sem víðast og með nýrri stjórn, afla nýrra félagsmanna og taka virkan þátt í starfi samtakanna.
Með góðri kveðju og von um bjartari tíma sem allra fyrst,
Friðrik Ó. Friðriksson, fyrrverandi formaður stjórnar.