Kvörtun Hagsmunasamtaka heimilanna til Umboðsmanns Alþingis
Á heimasíðu Umboðsmanns Alþingis segir:
“Samkvæmt 11. gr. laga nr. 85/1997 skal umboðsmaður tilkynna Alþingi og jafnframt hlutaðeigandi ráðherra eða sveitarstjórn, eftir því sem við á, ef hann verður þess var að "meinbugir" séu á gildandi lögum eða almennum stjórnvaldsfyrirmælum. Í 11. gr. starfsreglna umboðsmanns er við "meinbugi" á lögum og almennum stjórnvaldsfyrirmælum bætt "meinbugum" á starfsháttum í stjórnsýslu.
Í greinargerð með frumvarpi því sem síðar varð að lögum nr. 13/1987 segir svo um 11. gr. laganna:
"Meinbugir á lögum eða reglum geta verið nánast formlegs eðlis, svo sem misræmi milli ákvæða, prentvillur, óskýr texti o.fl. Einnig geta meinbugir verið beinlínis fólgnir í efnisatriðum, svo sem mismunar milli manna, reglugerðarákvæði skorti lagastoð eða hreinlega að telja verði ákvæði ranglátt mælt á huglægan mælikvarða. Allt þetta getur umboðsmaður látið til sín taka skv. 11. gr. frv."
Samkvæmt þessu er ljóst að umboðsmanni er veitt mjög verulegt svigrúm til að láta málefni til sín taka samkvæmt heimild í 11. gr.”Eins er þess getið að Umboðsmaður Alþingis sé heimilt að taka upp mál að eigin frumkvæði.
Hagsmunasamtök heimilanna vilja með þessu bréfi benda Umboðsmanni Alþingis á meinbugi í lögum nr. 151/2010. Lögin standast að mati samtakanna ekki meginreglu íslenskra laga um bann við afturvirkri lagasetningu og að krafa ljúki tilvist sinni með greiðslu á henni. Samtökin telja að 18. gr. laga 151/2010 sem veitir heimild til þess að endurreikna þegar greidda kröfu með vöxtum Seðlabanka Íslands standist ekki fyrrgreindar meginreglur. Þá telja samtökin að sú framkvæmd við útreikninga hjá bönkunum að vaxta-vaxtareikna og leggja við höfustól þrátt fyrir að greitt hafi verið af lánum hafi ekki skýra lagastoð í nefndri 18. gr. sem skýra verður þröngt. (Þá telja samtökin að lögin standist ekki bann við ójafnri samningsstöðu neytenda, sbr. lög um vexti (38/2001) og neytendarétt (121/1994, 57/2005). )
Samtökin vilja beina þeirri beiðni til Umboðsmanns Alþingis að hefja tafarlaust sjálfstæða rannsókn á lögum 151/2010 þannig að þau verði borin saman við ofannefnd lög og önnur þau lög er málið kunna að varða, sem og eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og þær Evróputilskipanir er hafa verið innleiddar hér á landi er varða neytendarétt.s.s. ;
1. [Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/29/EB frá 11. maí 2005 um óréttmæta viðskiptahætti gagnvart neytendum á innri markaðnum.]1)
2. Tilskipun ráðsins 87/102/EBE frá 22. desember 1986 um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna varðandi neytendalán (Stjtíð. EB L 42, 12. febrúar 1987, bls. 48) eins og henni var síðast breytt með tilskipun 98/7/EB.)
3. Tilskipun ráðsins 93/13/EBE frá 5. apríl 1993 um óréttmæta skilmála í neytendasamningum.
Meðfylgjandi er útdráttur/yfirlit Hagsmunasamtaka heimilanna á kvörtun er send var til eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) ásamt umsögn Umboðsmanns skuldara um lög nr. 151/2010.
Þá vilja samtökin einnig benda á eftirfarandi blaðagreinar lögmanna máli sínu til stuðnings; "Eru fjármálafyrirtækin vísvitandi að hagnast á röngum aðferðum við endurútreikning ólögmætra lána?" eftir Gunnlaug Kristinsson, Fréttablaðið 30. mars 2011.
Sigurður G. Guðjónsson hrl. "Siðleg lögleysa" Pressan 3. apríl 2011.
Sigurður G. Guðjónsson hrl. "Til efnahags- og viðskiptaráðherra" Pressan 16. maí 2011.
Hagsmunasamtök heimilanna óska eftir að fá svar við þessari beiðni frá
Umboðsmanni Alþingis hið fyrsta.