Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Áskorun Hagsmunasamtaka heimilanna á Alþingi

Hagsmunasamtök heimilanna skora á Alþingi að nema lög nr. 151/2010 tafarlaust úr gildi og taka þau til endurskoðunar fyrir áætluð þinglok, 9. júní 2011. Á lögunum eru alvarlegir meinbugir, með þeim afleiðingum að innheimta banka og sparisjóða á endurútreiknuðum lánum brýtur í bága við meginreglur kröfuréttar, neytendaverndar og jafnvel stjórnarskrá, auk þess sem fullkomin óvissa ríkir um réttmæti laganna samkvæmt reglum evrópska efnahagssvæðisins og þeim Evróputilskipunum sem hafa verið innleiddar í íslensk lög.



Þá er með öllu óviðunandi að fjármálafyrirtækjum hafi verið gert kleift á grundvelli laga nr. 151/2010 að útfæra hvert um sig sína eigin endurútreikninga á lánunum. Geti jafn margar aðferðir rúmast innan laganna og raun ber vitni er ógjörningur að skera úr um réttmæti þeirra. Sýnir það glöggt markleysu þessarar lagasetningar að hvorki Lagastofnun Háskóla Íslands né Háskólans í Reykjavík hafa séð sér fært að veita álit um rétta túlkun laganna og í úttektum óháðra sérfræðinga hafa komið fram skiptar skoðanir.

Meginregla í íslenskum kröfurétti er að lánveitendum sé óheimilt að beita afturvirkum innheimtuaðgerðum á kostnað lántakenda. Þá er réttur neytenda skýr í landslögum og Evróputilskipunum gangvart ógagnsæjum viðskiptaháttum og torskildum lánasamningum. Í báðum tilvikum er um frumforsendu þess að ræða að almenningur geti gætt lögvarinna hagsmuna sinna. Vandséð er hvernig lög nr. 151/2010 geti gert einstaklingum mögulegt að standa skil á réttum greiðslum af lánum sínum, en lög sem gera kröfu um ómöguleika eru ekki aðeins vafasöm frá sjónarmiði mannréttinda heldur beinlínis móðgun við heilbrigða skynsemi.

Með vísan í gögn frá Talsmanni neytenda (http://talsmadur.is/Pages/57?NewsID=1429) og Umboðsmanni skuldara (http://www.ums.is/um-umbodsmann/umsagnir-um-thingmal/nr/266) er enn fremur ljóst, að innheimta fjármálafyrirtækja á grundvelli laga nr. 151/2010 á ólöglegum gengistryggðum lánum er ekki aðeins ámælisverð heldur er þar rökstutt hvernig hún er ólögleg. Þess má geta að talsmaður neytenda lagði til við viðskiptanefnd Alþingis að leitað yrði til ESA áður en lögin yrðu samþykkt. Umboðsmaður skuldara rökstuddi svipaða afstöðu í umsögn sinni um málið - þ.e. að lögin stæðust ekki Evrópureglur um neytendarétt og lagðist gegn því að skuldurum yrði í kjölfar endurútreiknings gert að sæta hækkun á eftirstöðvum höfuðstóls, eða eftir atvikum gert að greiða bakreikning t.d. vegna þegar efndrar skuldbindingar. Þá má minna á að T alsmaður neytenda hvatti Hæstarétt formlega í bréfi sl. haust að leita ráðgefandi álits frá EFTA-dómstólnum um hvort breyta mætti samningum neytenda eftirá - til þess að tryggja að Evrópureglur um neytendavernd yrðu virtar.

Í stað þess að leitast við að vanda til við lagasetningu og bæta það tjón sem ólögleg gengistryggð lán hafa valdið viðskiptavinum þeirra, er þvert á móti reynt að hafa mest mest fé út úr þeim með vægast sagt vafasömum hætti.

Hagsmunasamtök heimilanna hafa nú sent kvörtun til ESA er varða umrædd lög og telja samtökin að stöðva beri ólögmæta innheimtu fjármálafyrirtækja á grundvelli laga nr. 151/2010 nú þegar. Á meðan endurskoðun umræddra laga fari fram verði fjármálafyrirtækjum gert skylt að hverfa frá allri innheimtu og innheimtuaðgerðum er þau varða.

© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum