Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Verðtrygging lánsfjár

Verðtrygging lánsfjár

Íslensk heimili búa við lánaumhverfi sem einkennist af því að meirihluti húsnæðislána og annara neytendalána eru verðtryggð, en almennar heimildir til að verðtryggja lánsfé voru leiddar í lög árið 1966 og festar enn frekar í sessi árið 1979. Síðan þá gafst íslenskum heimilum ekki kostur á að fjármagna húsnæðiskaup nema með verðtryggðum lánum, eða allt fram til ársins 2011 þegar óverðtryggð húsnæðislán byrjuðu smám saman að ryðja sér til rúms. Þau eru þó ekki “óverðtryggðari” en svo að vaxtakjör þeirra eru jafnan ákvörðuð þannig að þau virðist vera óhagstæðari en vextir og verðbætur verðtryggðu lánanna og fyrir vikið er vaxtastig hér á landi hærra en ella.

Verðtryggð lán hafa þann stórfellda innbyggða hönnunargalla að þær verðbætur sem falla á þau eru aldrei staðgreiddar nema að litlu leyti en bróðurpartur þeirra bætist við höfuðstól lánsins á hverjum gjalddaga sem gerir að verkum að hann hækkar í stað þess að lækka við hverja afborgun eins og í eðlilegu lánaumhverfi. Auk þess þarf að greiða sífellt hærri upphæð í vexti þar sem þeir reiknast af síhækkandi höfuðstól. Fari árleg verðbólga umfram afborganir lána leiðir þessi eiginleiki jafnframt til peningaprentunar í bankakerfinu sem eykur enn við þá verðbólgu sem annars væri og er þannig hluti af ósjálfbærum vítahring þar sem lánin hækka verðbólgu sem hækkar lánin sem hækkar verðbólgu sem hækkar lánin, og svo koll af kolli. Þegar lántakandinn ræður svo ekki lengur við greiðslubyrðina er oft eina leiðin út úr þeim vanda að endurfjármagna lánið eða skuldbreyta því og lengja lánstímann, en þá hefst sama hringrásin aftur nema nú frá hærri byrjunarpunkti en í upphafi, og svo allt upp á nýtt og koll af kolli í hvert sinn sem sama staða kemur upp þ.e. að lántakandinn ræður ekki lengur við síhækkandi greiðslubyrðina. Rannsóknir hafa sýnt að þegar verðtryggt langtímalán hefur þannig verið endurfjármagnað einu sinni eða oftar, greiðist það aldrei upp heldur mun það að óbreyttu hækka og hækka út í hið óendanlega, eða þangað til lántakandinn verður gjaldþrota. Lánið verður því bókstaflega óborganlegt og að sannkölluðu sjálfskaparvíti.

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð beinlínis til þess að berjast gegn neikvæðum fjárhagslegum og efnahagslegum áhrifum verðtryggingar lánsfjár og fyrir því að á Íslandi verði komið á eðlilegu lánaumhverfi fyrir heimili og neytendur, sambærilegu því sem þekkist í öðrum vestrænum ríkjum. Þar ákvarðast kostnaður lána eingöngu með vöxtum og eftirstöðvar þeirra fara lækkandi með hverri afborgun þar til á endanum er lánið uppgreitt og lántakandinn hefur sannarlega eignast það sem hann keypti fyrir lánsféð, til að mynda húsnæði. Til að útrýma þeirri skaðsemi sem hlýst af mikilli útbreiðslu verðtryggingar hér á landi er nauðsynlegt að afnema hana, að minnsta kosti á lánum til heimila og neytenda. Enn fremur hafa samtökin barist fyrir leiðréttingu þeirra gríðarlegu stökkbreytinga sem urðu á eftirstöðvum verðtryggðra lána neytenda vegna efnahagshrunsins 2008, enda heyrði til undantekninga ef löglega var staðið að slíkum lánveitingum fyrir þann tíma, þar sem lánveitendur lögðu sig markvisst fram um að halda þeim kostnaði sem hlýst af verðtryggingunni leyndri fyrir lántakendum.

Þrátt fyrir að baráttan fyrir afnámi verðtryggingar hafi tekið langan tíma er það loksins komið á dagskrá stjórnvalda, en í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur er skýrt kveðið um að taka eigi markviss skref í átt að fullu afnámi hennar. Þá hafa fyrri ríkisstjórnir viðurkennt að hluta það tjón sem verðtryggingin hefur valdið heimilunum og leiðrétt stökkbreytingar á skuldum þeirra að litlu leyti en þó engan veginn að fullu. Hagsmunasamtök heimilanna berjast því enn fyrir fullum bótum til handa heimilunum fyrir allt það tjón sem þau hafa mátt þola.


Spurt og svarað

 - Almennt um verðtryggingu -

 

Hver er munurinn á verðtryggðum og óverðtryggðum lánum?

Á meðan verðtryggð lán eru jafn útbreidd og þau eru hér á landi, er helsti munurinn á þessum tveimur tegundum lána sá að í “óverðtryggðu” lánunum eru verðbæturnar staðgreiddar sem hluti af vaxtakjörum, en í verðtryggðu lánunum er verðbótum sífellt bætt á höfuðstólinn og þannig er í raun tekið nýtt lán fyrir þeim í hverjum mánuði sem safnar svo á sig vöxtum út lánstímann til viðbótar við grunnvexti lánsins. Eina leiðin út úr þessu fyrirkomulagi er að afnema verðtryggingu þannig að forsendur geti skapast fyrir raunverulegri samkeppni um vaxtakjör, sem er alls ekkert náttúrulögmál að þurfi alltaf að vera hærri en verðbólgustig á hverjum tíma, enda eru bankar að mestu leyti ónæmir fyrir verðbólgu í slíku umhverfi.

 

Hvort er hagstæðara að taka óverðtryggt eða verðtryggt lán?

Til lengri tíma eru verðtryggð lán alltaf óhagstæð. Miðað við núverandi fyrirkomulag stendur valið þó í raun aðeins um að staðgreiða verðbætur eða fresta greiðslu þeirra. Spurningin snýst því raunverulega aðeins um hvort það sé hentugra fyrir hvern og einn lántakanda að greiða meiri kostnað af óverðtryggðu láni í byrjun lánstímans en í heildina minna þegar upp er staðið, eða fá lægri greiðslubyrði af verðtryggðu láni í byrjun lánstímans en síhækkandi og mun meiri kostnað þegar upp er staðið í lok lánstímans. Með afnámi verðtryggingar gætu fyrst skapast forsendur fyrir lægri vöxtum en ella og þá yrði til framtíðar mun hagstæðara að taka óverðtryggt lán, en að taka verðtryggt eða “óverðtryggt” lán í núverandi lánaumhverfi hér á landi.

 

Hvernig eru greiðslur af óverðtryggðum lán reiknaðar?

Greiðsla af láni samanstendur venjulega af vöxtum og afborgun af höfuðstól, auk tilkynningargjalds (einnig þekkt sem seðilgjald). Vextirnir eru reiknaðir þannig að eftirstöðvar höfuðstóls eru margfaldaðar með gildandi vaxtaprósentu á undangengnu vaxtatímabili og deilt í þá upphæð með fjölda gjalddaga á ári (algengast 12 eða mánaðarlega). Afborgun af höfuðstól fer eftir því hvort lánið er með jöfnum afborgunum eða er svokallað jafngreiðslulán (annuitet). Jafnar afborganir eru reiknaðar þannig að einfaldlega er deilt í eftirstöðvar höfuðstóls með fjölda gjalddaga sem eftir eru ógreiddir á lánstímanum. Afborganir af jafngreiðsluláni eru aftur á móti reiknaðar þannig að upphæð þeirra dreifist þannig á lánstímann að heildargreiðsla vaxta og afborgunar verði alltaf sú sama á hverjum gjalddaga, að því gefnu að vextir haldist óbreyttir.

 

Hvernig eru greiðslur af verðtryggðum lánum reiknaðar?

Hægt er að reikna þær á tvo vegu sem skila þó sömu niðurstöðu ef ekkert annað spilar inn í. Annars vegar samkvæmt reglum Seðlabanka Íslands þannig að höfuðstóll láns sé leiðréttur í hlutfalli við breytingu á vísitölu neysluverðs frá síðasta gjalddaga og svo séu afborgun og vextir reiknuð af þeim höfuðstól með sömu aðferð og ef lánið væri óverðtryggt. Hins vegar samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, þannig að afborganir og vextir séu reiknuð eins og lánið sé óverðtryggt, en svo bætist verðbætur á hverja greiðslu.

 

Lagaleg álitaefni

Er löglegt að verðtryggja lán til neytenda?

Samkvæmt íslenskum rétti er það meginregla að verðtrygging er óheimil nema hún sé sérstaklega heimiluð með lögum. Slíka heimild er að finna í lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 en hún er þó háð því skilyrði að verðtrygging megi aðeins taka mið af vísitölu neysluverðs en ekki gengi erlendra gjaldmiðla svo dæmi sé tekið. Þegar rætt er um afnám verðtryggingar er í raun átt við að fella þessa heimild brott úr lögum, sem er afar einföld aðgerð.

 

Samræmist verðtryggingin Evrópureglum?

Með Evrópureglum er hér átt við þær reglur sem Evrópusambandið setur sér og taka í kjölfarið gildi hér á landi í gegnum EES-samninginn. Ekkert í þeim reglum leggur bann verðtryggingu en þær gera ekki heldur beinlínis ráð fyrir henni nema með þeim hætti sem EFTA-dómstóllinn hefur skorið úr um, þ.e. að svo lengi sem neytendur séu upplýstir um eiginleika hennar og þann viðbótarkostnað sem getur fallið til á lánstímanum af völdum hennar. Þó má deila um hvort skilmáli sem leggur einhliða alla áhættuna á neytandann, geti talist vera réttmætur samkvæmt EES-reglum á sviði neytendaverndar. Íslenskir dómstólar hafa þó hingað til sýnt af sér tregðu til að taka slík sjónarmið til greina þegar á það hefur reynt.

 

Um hvað snúast þá dómsmál um verðtryggð lán?

Hagsmunasamtök heimilanna hófu málarekstur fyrir dómstólum vegna verðtryggðra neytendalána árið 2012. Sá málarekstur byggist ekki á því að verðtrygging sé ólögleg, enda er hún í sjálfu sér ekki bönnuð, heldur að fram að fjármálahruninu 2018 og jafnvel lengur var nánast aldrei gerð grein fyrir þeim kostnaði sem hlýst af verðtryggingu í lánasamningum við neytendur. Samkvæmt ráðgefandi áliti EFTA dómstólsins stóðst sú framkvæmd ekki þær kröfur sem EES-reglur gera til upplýsinga um kostnað við lántöku. Engu að síður taldi Hæstiréttur Íslands að íslensk lög heimiluðu þetta, sem þýðir að þau voru í andstöðu við réttindi neytenda samkvæmt EES-reglum. Brot gegn slíkum reglum varðar jafnan skaðabótaskyldu hlutaðeigandi EES-ríkis og þess vegna var einboðinn sá kostur að höfða skaðabótamál gegn íslenska ríkinu til að láta reyna á þessi mikilvægu réttindi neytenda. Þegar þetta er skrifað er málið í áfrýjunarmeðferð til Landsréttar en nánari upplýsingar um framgang þess koma jafnan fram í fréttum á vefsíðum samtakanna.

 

Nánar um afnám verðtryggingar lána til neytenda

Hvers vegna þarf að afnema verðtryggingu?

Til þess að koma á eðlilegu vaxtaumhverfi hér á landi þar sem vaxtamyndun ræðst ekki einvörðungu af því að tryggja öðrum samningsaðilanum hagnað af viðskiptunum alveg sama hvað dynur á í hinu efnahagslega umhverfi. Verðtryggð lán til langs tíma eru flókin og áhættusöm fjármálaafurð sem ætti að verja neytendur fyrir. Hin mikla útbreiðsla verðtryggingar lánsfjár hér á landi hefur stuðlað að mun hærri verðbólgu og vaxtastigi en ella hefði þurft að verða og dregur úr skilvirkni stýritækja Seðlabanka Íslands sem þarf fyrir vikið að taka harkalegri ákvarðanir en ella um beitingu þeirra. Eina leiðin til að komast út úr þessum ógöngum er að afnema verðtryggingu lána til neytenda og vinna svo úr því í framhaldinu að koma böndum á vaxtastig húsnæðislána.

 

Hvernig er hægt að afnema verðtryggingu?

Það er einfalt. Minnsta mögulega aðgerðin er að bæta einni stuttri setningu við 13. gr. laga um vexti og verðtryggingu sem segir að ákvæði verðtryggingarkafla laganna eigi ekki við um neytendalán og fasteignalán til neytenda. Þar með yrði ekki heimilt að verðtryggja slík lán en við það yrðu líka mörg önnur lagákvæði sem gera ráð fyrir verðtryggingu óþörf. Til að auðvelda afnám verðtryggingar lána til neytenda hafa Hagsmunasamtök heimilanna smíðað frumvarp sem tekur á öllu þessu. Það hefur verið lagt fram á Alþingi nokkrum sinnum, með aðlögun að gildandi rétti hverju sinni.

 

Getur afnám verðtryggingar haft neikvæð áhrif?

Til langs tíma væri afnám verðtryggingar jákvætt en til skamms tíma er ekki útilokað að einhver neikvæð áhrif gætu orðið af mjög skyndilegri breytingu á rótgrónu fyrirkomulagi. Þess vegna er eðlilegt að gera ráð fyrir aðlögunartíma þannig að ekki verði um mikla röskun að ræða, en tillögur Hagsmunasamtaka heimilanna gera einmitt ráð fyrir því að slík aðlögun muni eiga sér stað af hluta til af sjálfu sér. Til þess að sú aðlögun heppnist er aðkomu stjórnvalda þörf að vissu marki til að styðja við framgang hennar. Hagsmunasamtök heimilanna hafa tillögur að slíkri eftirfylgni einnig á reiðum höndum.

 

Hvað mun taka við eftir afnám verðtryggingar?

Eðlilegt lánaumhverfi, svipað því sem þekkist í flestum löndum í okkar heimshluta, þar sem lánakjör eru einfaldlega ákvörðuð með vöxtum sem ráðast af verðmyndun á heilbrigðum markaði. Erfitt er að segja nákvæmlega til um útkomuna en engu að síður hníga öll rök að því að til lengri tíma geti lánakjör neytenda orðið hagstæðari hér á landi en þau eru núna.

 

Hvernig eiga tekjulágir að standast greiðslumat vegna óverðtryggðra lána?

Til þess að svara þessari spurningu þarf fyrst að fjalla um hvernig er staðið að greiðslumati vegna verðtryggðra lána í núverandi umhverfi. Greiðslubyrði þeirra er vissulega lægri í byrjun en greiðslubyrði “óverðtryggðra” lána með þeim háum vöxtum sem leiða af útbreiðslu verðtryggingar í lánaumhverfinu. Það er þó skammgóður vermir því greiðslubyrði verðtryggðra lána fer sífellt hækkandi strax frá fyrsta degi og ekki þarf mikla verðbólgu til að hún verði áður en langt um líður orðin hærri en greiðslubyrði af hliðstæðu óverðtryggðu láni sem helst óbreytt ef það er jafngreiðslulán eða fer jafnvel lækkandi sé það með jöfnum afborgunum. Greiðslumat sem tekur ekki mið af þessum staðreyndum heldur horfir aðeins til greiðslubyrði á fyrsta gjalddaga en ekki til loka lánstímans er í raun blekking sem felur í sér grófa fölsun á raunverulegri greiðslugetu, auk þess að brjóta í bága við tilmæli evrópska bankaeftirlitsins um framkvæmd greiðslumats vegna fasteignalána til neytenda. Eina leiðin út úr þessari sjálfheldu er að afnema verðtryggingu svo vextir “óverðtryggðra” lána geti lækkað og orðið raunverulega óverðtryggðir. Þegar það markmið næst getur neytandi jafn auðveldlega staðist ófalsað greiðslumat fyrir óverðtryggðu láni eins og hann getur nú staðið falsað greiðslumat fyrir verðtryggðu láni.


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum