Umboðsmaður ver ekki hagsmuni lántakenda
Biðraðir hjá Umboðsmanni skuldara eru áfellisdómur á stjórnvöld fyrir vanmat þeirra á eðli og umfangi vandans. Ef fram heldur sem horfir mun aðeins 27 beiðnum af tæplega 3.000 ljúka með samningum um greiðsluaðlögun á þessu ári, skv. frétt ríkissjónvarpsins. Slíkur árangur verður að teljast óásættanlegur fyrir lántakendur og sýnir glöggt hve tímafrek og óskilvirk úrræðin eru.
Þá er skv. heimildum Hagsmunasamtaka heimilanna átta mánaða bið hjá embættinu eftir efnislegri afgreiðslu, sem hlýtur að teljast með öllu óviðunandi fyrir þá sem verða að leita sér skuldaskjóls hjá Umboðsmanni.
Hluti vandans virðist sá að Umboðsmaður veigrar sér við að beita þeim lagaheimildum sem embættið þó hefur til að sinna þeirri lagaskyldu sinni, að bæta stöðu fólks í skulda- og greiðsluerfiðleikum.
Umboðsmaður hefur sem dæmi heimildir til að krefjst skýringa á endurútreikningum lána í lögum um persónuvernd og bráðabirgðaákvæði við lög um vexti og verðtryggingu. Ákvæðið veitir embættinu einnig heimild til að krefja fyrirtækin úrbóta, sé þess talin þörf, auk þess sem réttur neytenda gagnvart flóknum og ógagnsæjum lánaútreikningum er skýr.
Úrbótaheimild bráðabirgðaákvæðisins einskorðast ekki við skjólstæðinga embættisins eins og fram kemur í greinargóðri umfjöllun Talsmanns neytenda um endurútreikninga lána.
Stæði vilji til þess, gæti Umboðsmaður því gengið hart fram í rýni á endurútreikningum lána og krafist þess að fjármálastofnanir fylgi, sem dæmi, einni samræmdri og gagnsærri aðferð.
Með hliðsjón af því að afturvirkir lánaútreikningar standast auk þess ekki eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar, íslenskan kröfurétt, neytendalög, evróputilskipanir um neytendarétt og ganga þar að auki gegn meginreglu réttarkerfisins um afturvirkni lagasetningar þá er illskiljanlegt að Umboðsmaður nýti ekki til fulls heimildir sínar til að krefjast úrbóta skuldurum til handa í anda þessara laga sem eru jú gildandi lög.
Heimild og ítarefni:
Sjá frétt Ríkissjónvarpsins um biðraðir hjá Umboðsmanni skuldara
Sjá áskorun Hagsmunasamtaka heimilanna á Umboðsmanna skuldara
Sjá frétt á vef Umboðsmanns skuldara um biðraðir hjá embættinu
Hlusta á viðtal við formann HH á Bylgjunni, þar sem fjallað er m.a. um óviðunandi stöðu mála hjá embættinu