Voru þingmenn blekktir?
Viðskiptanefnd Alþingis hefur undir höndum gögn, sem benda til þess að fyrirmælum laga nr. 151/2010 um endurútreikninga gengistryggðra lána sé ábótavant varðandi skyldur fjármálafyrirtækjanna.Um er að ræða útreikninga frá Efnahags- og viðskiptaráðuneytinu sem lagðir voru fram til grundvallar og til skoðunar fyrir þingmenn áður en frumvarpið var samþykkt. Séu þeir lýsandi fyrir þá aðferðafræði sem stjórnvöld sáu fyrir sér við uppgjör ólögmætra gengistryggðra lána bendir það ótvírætt til þess að umrædd löggjöf hafi verið samþykkt á fölskum forsendum, að mati Hagsmunasamtaka heimilanna.
Eins og fram kemur í viðtali við Andreu J. Ólafsdótturformann samtakanna, á Bylgjunni, komu þessi gögn ráðuneytisins til umræðu á fundi sem Viðskiptanefnd Alþingis boðaði til föstudaginn fyrir Hvítasunnu, vegna þeirrar vaxandi gagnrýni sem lögin sæta.Staða endurútreikninga á ólögmætum gengistryggðum lánum er að mati Hagsmunasamtaka heimilanna með öllu óásættanleg. Alvarlegir meinbugir eru á lögunum sem ganga á svig við m.a. meginreglur íslensk kröfuréttar, auk þess sem óljós fyrirmæli um framkvæmd gerir neytendum ókleift að verja lögvarða hagsmuni sína.
Á fundinum komu fleiri forvitnilegar upplýsingar fram. Meðal annars að einn af stærðfræðingum Raunvísindastofnunar, sem lagði mat á endurútreikninga fjármálastofnana, hafði sjálfur veitt einu fjármálafyrirtæki ráðgjöf um hvernig standa ætti að útreikningunum. Í raun má því líta svo á að viðkomandi sérfræðingur hafi með þessu verið að leggja mat á eigin verk.Eins kom fram að SP fjármögnun gaf út nýja lánasamninga á viðskiptavini sína án þess að fá undirskriftir þeirra, enda álítur fyrirtækið sig fara að lögum. Hins vegar sér SP-Fjármögnun, að því er virðist, enga ástæðu til að fara að öðrum gildandi lögum, svo sem neytendalögum og fá undirskrift viðskiptavinar á nýjan samning.
Endurreiknaðir samningar eru á bilinu 60 til 100 þúsund að mati Kjartans Georgs Gunnarssonar, framkvæmdastjóra SP fjármögnununar. Enn fremur töldu fjármálafyrirtækin að fólk væri alls ekki óánægt með útreikninga vegna þess hversu fáar kvartanir hefðu hlutfallslega borist til Umboðsmanns Skuldara og Hagsmunasamtaka heimilanna, bara örlítið brot af öllum samningum. Samtökin telja að þarna sé um hrokafullt viðhorf að ræða því margir neytendur sjá sér ekki fært að bera hönd fyrir höfuð sér. Þeir eru í raun beittir fjármálalegu ofbeldi og þvingunum og í tilfelli SP fjármögnunar fá þeir ekki einu sinni tækifæri til að skrifa undir, hvað þá hafna nýjum lánasamningum.
Á fundinum fóru þingmenn fram á að Umboðsmaður skuldara (UMS) bæði túlkaði lög og tæki skýra afstöðu með skuldurum. Spurt var hvort UMS skorti valdheimildir. Formaður HH fór fram á það að UMS einblíni ekki bara á lög nr 151/2010, því embættinu beri að vernda hagsmuni neytenda og beita sér fyrir því að önnur gildandi og rétthærri lög séu virt (t.d. Stjórnarskráin).
Sem kunnugt er hafa samtökin m.a. af þessum ástæðum skorað á bæði kjörna fulltrúa á Alþingi og Umboðsmann skuldara. Afstaða samtakanna virðist njóti vaxandi stuðnings jafnt utan þings sem innan, en sem dæmi um það síðarnefnda má nefna að Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, tók nýlega undir kröfur samtakanna um afnám laganna, í viðtali í hádegisfréttum Bylgjunnar. Þá hafa þingmenn Hreyfingarinnar lagt fram frumvarp þess efnis að lög 151/2010 verði felld úr gildi.
Undrun vekur að eiginkona lögfræðings Lýsingar í fordæmisgefandi máli um vexti á lánum með ólögmætri gengistryggingu sem Hæstiréttur úrskurðaði um þann 16. september 2010, skuli hafa tekið að sér að fóstra málið í gegnum þingið sem formaður efnahags- og skattanefndar, eftir að fyrrum formaður nefndarinnar ákvað að segja sig frá því vegna persónulegra hagsmuna.
Heimild og ítarefni:
Hlusta á viðtal í Reykjavík síðdegis við formann Hagsmunasamtakanna
Hlusta á viðtal í hádegisfréttum Bylgjunnar við Eygló Harðardóttur, alþingismann
Sjá áskorun Hagsmunasamtakanna á Alþingi
Sjá áskorun Hagsmunasamtakanna á Umboðsmann skuldara
Sjá frétt - Umboðsmaður skuldara ver ekki hagsmuni lántakenda