Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Fasteignamat hækkar um 9% á næsta ári

Ef fram heldur sem horfir munu fasteignagjöld hækka talsvert næsta vor hjá þorra almennings, nema sveitarfélögin lækki álagningarprósentuna hjá sér til samræmis við snarhækkandi fasteignamat, en samkvæmt nýju fasteignamati mun það hækka um 9% að jafnaði á næsta ári. Heildarmat fasteigna lækkaði um 8,6% í ár og hér er því á heildina litið um verulegar breytingar að ræða á milli ára.



Hagsmunasamtökin vara við þeim auknu álögum sem hærra fasteignamat hefur í för með sér fyrir heimilin og draga í efa skynsemi þess að fasteignamat miðist óbreytt við fasteignamarkað sem er jafn ógagnsær og óskilvirkur og raun ber vitni, þó að heita megi ljóst að hátt fasteignamat þjóni mikilvægum hagsmuni banka og sveitarfélaga í því skuldaþjóðfélagi sem nú er við lýði.

Samkvæmt nýju fasteignamati Þjóðskrár Íslands, hækkar íbúðarhúsnæði um 9% að jafnaði, á meðan atvinnuhúsnæði lækkar lítillega.  Heildarmat fasteigna á landinu öllu nemur nú tæpum 4.400 milljörðum króna og hefur því hækkað um 6,8% hækkun frá síðasta ári. Mest hækkar það á Norðvesturlandi, en minnst á Austurlandi. Á höfuðborgarsvæðinu nemur hækkunin 6,5%.

Fréttastofa RÚV hefur eftir ónefndum sérfræðingum að hækkunina megi rekja til líflegri fasteignamarkaðar, en Þjóðskrá byggir mat sitt á þinglýstum kaupsamningum í febrúar ár hvert. Samkvæmt upplýsingum Hagsmunasamtakanna, má rekja verðhækkanir á fasteignamarkaði aðallega til þess, að fjármálafyrirtæki heimiluðu almennt talsverð fasteignakaup með yfirtöku áhvílandi lána í vor sem leið. Sá „líflegi fasteignamarkaður“ sem við það skapaðist veldur síðan því, að skattstofn fasteignagjaldanna bætir á heildina litið því sem næst tíund við sig.

Fasteignamatið myndar m.a. skattstofninn fyrir fasteignagjöld sveitarfélaga og stýrir veðrými fasteigna. Þjóðskrá Íslands gefur það út lögum samkvæmt 31. maí ár hvert, en það byggir í grunninn á þeim kaupsamningnum sem hafa verið þinglýstir í nýliðnum febrúarmánuði.

Auk þess sem núverandi fyrirkomulag gerir að verkum, að fasteignagjöld ráðast af kerfisbundnu mati á afar ógagnsæjum og óskilvirkum fasteignamarkaði, byggir fasteignamatið á söluverðmæti í einungis einum mánuði árinu á undan. Eins og sjá má er þessi aðferðafræði næm á markaðssveiflur og þjónar sem slík illa tilgangi sínum á óstöðugleikatímum. Til að draga úr svo alvarlegum annmarka hljóta stjórnvöld að taka þetta fyrirkomulag til endurskoðunar, ekki hvað síst með hliðsjón af þeirri vaxandi tilhneigingu sveitarfélaga til að færa sér lægra fasteignamat í nyt með hækkun fasteignagjalda. Sem dæmi gæti það dregið úr sveiflunæmni fasteignamatsins að það bygði á 6 eða 12 mánaða úrtaki í stað eins máðnaðar, eins og nú er.

Hagsmunasamtökin benda í þessu samhengi á þá erfiðleika sem það hefur í för með sér fyrir heimilin að fasteignamatið geti ýmist snarhækkað eða snarlækkað á milli ára. Hér er því enn einn óvissuþátturinn fyrir heimilin til að takast á við í útgjöldum.

Þá hlýtur það að vekja vaxandi ugg hjá almenningi, hvernig skuldasamfélagið sem við búum nú í er óhjákvæmilega þrýsta helstu útgjaldaliðum heimilanna jafnt og þétt upp á við á sama tíma og kaupmáttur launa rýrnar.

Hlusta á viðtal við Andreu J. Ólafsdóttur, formann samtakanna um fasteignamat 2012 á Rúv


Hlusta á viðtal við Andreu J. Ólafsdóttur, formann samtakanna um fasteignamat 2012 á Bylgjunni

 


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum