Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

110% bankavæn skuldaleiðrétting

Frestur til að sækja um 110% skuldaaðlögun hjá bönkunum rennur út nú um mánaðamótin. Verði ekkert frekar að gert í lánamálum heimilanna, munu fjármálastofnanir, í skjóli stjórnvalda, komast upp með að leiðrétta aðeins þann hluta skuldavandans sem að þeim snýr, að undanskyldu 20% vaxtaleiðréttingu Landsbankans sem gengur ekki nægilega langt að mati Hagsmunasamtaka heimilanna.

Eftir stendur stökkbreyttur höfuðstóll lána hjá þorra almennings sem nánast engar leiðréttingar fær þar sem hin sérstaka vaxtabót í gegnum vaxtabótakerfi ríkisins getur ekki talist annað en móðgun miðað við þá hækkun sem fólk hefur séð á lánum sínum.

Eins og Hagsmunasamtökin hafa ítrekað bent á, nær 110% leiðin einungis til þess hluta lántaka sem er skuldsettastur m.v. veðsetningarhlutfall. Hún er því sértæk aðgerð, en ekki almenn.



Almennar og réttlátar aðgerðir miðast við að lántakendur sitji allir við sama borð og fólki þar með ekki mismunað. Á milli hjóna getur 110% leiðin veitt allt að 30 milljóna króna leiðréttingu, á meðan þeir sem eru með minna veðsettar eignir fá enga leiðréttingu þrátt fyrir að hafa orðið fyrir sama forsendubrestinum, þ.e. hækkun höfuðstóls lána. Við misrétti og mismunun þessara bankavænu skuldaleiðréttinga verður ekki unað.

Frá heimilum landsins séð felur þessi leið á hinn bóginn í sér mikla mismunun og misrétti, þar sem mætti segja að verið sé að umbuna þeim sem sitja uppi með yfirveðsettar eignir. Svokallaðar skuldaleiðréttingar eins bankans bæta að mati hagsmunasamtakanna litlu úr skák og eru í raun móðgun við almenna lántakendur bankans eins og rakið er í blaðagrein eftir Jónínu Óskarsdóttur í Fréttablaðinu í dag.

Við mismunun og misrétti þessara bankavænu skuldaleiðréttinga verður að mati Hagsmunasamtakanna ekki unað. Þá er með öllu ólíðandi að hver bankastofnun virðist útfæra þessa svokölluðu 110% leið að eigin geðþótta, því ekki eru allir sem miða við fasteignamat ríkisins. Með því móti eru bankarnir í raun að skammta sjálfum sér afborganir fólks til næstu áratuga utan ramma laga og reglna.

Að mati Hagsmunasamtaka heimilanna næst ekki friður um lánamál heimilanna fyrr en almenn leiðrétting verður gerð á stökkbreyttum lánum með einhvers konar útfærslu á flatri niðurfærslu sem miðar við stöðu þeirra 1. janúar 2008.

 

Ítarefni:

Hlusta á viðtal við Andreu J. Ólafsdóttur formann HH í Reykjvík síðdegis

Sjá blaðagrein Jónínu Óskarsdóttur í Fréttablaðinu

Sjá grein eftir Þórð Magnússon og Svipunni (svipan.is)


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum