Fimm algengar rangfærslur um verðtrygginguna
Þau varnaðarorð að fjármálakerfið fari aftur fjandans til verði verðtrygging numin úr gildi, eru vinsæl á meðal verðtryggingarsinna. Slík varnaðarorð fela þó oftar en ekki í sér rangfærslur og órökstuddar klisjur. Í samantektinni hér að neðan er stiklað á algengsustu rangfærslunum sem sett hafa svip á umræðuna í gegnum tíðna.
1. Verðtrygging er sanngjörn þar sem hún tryggir að þeir sem taka lán greiði raunvirði þeirra til baka
Rangt. Þessi „tryggingarþáttur“ er líklega einn mesti spuni Íslandssögunnar. Í núverandi mynd tryggir verðtryggingin mun fremur að þeir sem taka verðtryggðar krónur að láni, greiða þær að margfalt til baka, sé á annað borð einhver hreyfing á verðbólgunni - sem hefur verið venjan í þau rúmlega 30 ár sem þessi verðtrygging hefur verið við lýði.
Það rétta í málinu er, að verðbætur eru lagðar við höfuðstól verðtryggðra lána í samræmi við breytinar á vísitölu neysluverðs. Við það þenst höfuðstóll út ásamt afborgun og verðbótum. Í raun myndar verðtryggingin jafn galið ástand og hér ríkti á árunum áður en henni var komið á fót. Eini munurinn er sá að í stað þess að verðbóglugróði myndist lántakandans megin eins og raunin var með sífellt verðminni afborgunum, þá hirða lánastofnanir nú margfalt hærri verðbólgugróða en þá þekktist nokkurn tímann, þökk sé verðbótafærslum við höfuðstól.
2. Verðtrygging er nauðsynleg ráðstöfun í baráttunni gegn verðbólgunni
Rangt. Ekki þarf annað en að líta til síendurtekinna verðbólguskeiða og verðbólguskota sem riðið hafa yfir íslensku þjóðina frá því verðtrygging var tekin upp í Ólafslögunum svonefndu árið 1979. Allan 9. áratuginn geisaði hér verðbólga sem aldrei fyrr og náði verðbólgan þriggja stafa tölu um tíma, þrátt fyrir verðtrygguna. Það var svo ekki fyrr en með þjóðarsáttarsamningnum árið 1990 sem tókst að koma böndum yfir óðaverðbólguna, en hann byggðist á samkomulagi sem tókst með Samtökum atvinnulífsins (þá Vinnuveitendasamband Íslands) og ASÍ um launafrystingu. Launþegum var með öðrum orðum gert að „greiða“ niður verðbólguna með umsömdum kjaraskerðingum. Verðtrygging kom þar hvergi nærri nema síður sé.
3. Verðtrygging stuðlar að stöðugleika fjármálakerfisins
Rangt. Sýnt hefur verið fram á að verðtryggingin stuðlar þvert á móti að óstöðugleika innan fjármálakerfisins, m.a. með samanburði á vaxtaþróun hér á landi og erlendis, þar sem verðtrygging þekkist ekki nema í afmörkuðum tilvikum og þá í nokkuð annarri útfærslu en hér á landi, s.s. á lánsfjármörkuðum fagfjárfesta. Einnig hefur verið fjallað um þá óæskilegu bjögun sem verðtryggingin hefur óhjákvæmilega í för með sér innan fjármálakerfisins. Allri verðbólgu- og gengistryggingaráhættu er veitt viðstöðulaust til lántakenda, sem ýtir undir áhættusækna fjármálastarfsemi og metnaðarlausari rekstur lánastofnana. Auk þess dregur verðtryggingin úr virkni vaxtaákvarðana Seðlabankans sem hagstjórnartækis, sem á þó að heita einn helsti hornsteinn peningamálastefnunnar og um leið hagstjórnar hér á landi. Fyrir vikið skila þessar ákvarðanir ekki tilætluðum árangri, hvort heldur ætlunin er að slá á þenslu (öðru nafni verðbólgu) eða samdrátt (kreppu). Það segir sig síðan sjálft, að bíti helsta hagstjórnartækið illa út af verðtryggingunni, þá hlýtur að vera forgangsmál að losna við hana svo stuðla megi markvisst að auknum og varanlegri stöðugleika.
Síðast en ekki fer þeim fjölgandi sem benda á innbyrðis tengsl vaxta og hagvaxtar, en í þeim felst að „innstæðulausir“ vextir valda verðbólgu og þar með óstöðugleika. Það þýðir að verðtryggingin er í eðli sínu verðbólguhvetjandi, vegna þess að verðbætur eru í raun vextir sem leggjast á lán óháð hagvexti hverju sinni. Þessi viðkvæmu tengsl undirstrika einnig mikilvægi þess að vextir séu lágir á samdráttar- eða krepputímum eða innan þolmarka veikburða hagvaxtar.
4. Verðtrygging er hagstæð fyrir lántakendur þar sem verðtryggðir raunvextir eru lægri en óverðtryggðir
Þar sem enn hefur ekki tekist að sýna fram á, að vextir verðtryggðra íslenskra lána séu lægri en vextir sambærilegra óverðtryggðra lána erlendis, eða geri sig líklega til þess, stenst þessi fullryðing ekki í reynd. Þvert á móti eru raunvextir verðtryggðra íbúðalána hér á landi mun hærri en þekkist í nágrannalöndunum okkar. Því er hins vegar ekki að neita, að verðtryggingin ætti að þrýsta raunvaxtastiginu niður, vegna þess að hún dregur úr verðbólgu- og gengishættunni hjá lánveitandanum. Einhverra hluta vegna virðast svo einföld lögmál ekki gilda á íslenskum íbúðalánamarkaði, jafnvel ekki þó að öll áhættan sé lántakandans megin eins og tíðkast hér á landi.
5. Verðtrygging er forsenda þess að sparifé landsmanna haldi verðgildi sínu
Rangt. Eina raunhæfa trygging sparifjáreigenda er stöðugleiki, vel rekið fjármálakerfi og skynsöm hagstjórn. Ekkert fær því breytt, hvorki séríslenska verðtryggingin eða aðrar hagrænar hrossalækningar. Nú, þegar eitt versta verðbólguskeið síðustu áratuga stendur yfir, eru raunvextir innlánsreikninga neikvæðir. Það þýðir að þrátt fyrir verðtrygginguna rýrnar verðgildi sparifjárins okkar dag frá degi. Síðast en ekki síst, er helsti sparnaður þjóðarinnar, lífeyrisgreiðslur úr lífeyrissjóðunum okkar, ekki verðtryggður, þrátt fyrir lögbundna aðild allra launþega. Á því hafa landsmenn fengið að kenna ítrekað undanfarin ár, með skertum lífeyrisréttindum.
Eins og sjá má, halda varnarræður verðtryggingarsinna ekki vatni. Þar með er þó ekki sagt að dómadagsspár þeirra séu alveg út í loftið. Afnám verðtryggingar felur í sér annað og meira en einfalt pennastrik, en að hér verði stórfellt hrun á hins vegar ekki við nein rök að styðjast.
Þegar allt kemur til alls, hvað er svona eftirsóknarvert við kerfi sem fær að sögn ekki þrifist án verðtryggingar gjaldmiðilisins? Sem veitir allri verðbólgu- og gengisáhættu til þeirra sem taka almenn verðtryggð íbúðalán?
Og hvers vegna er fjármálakerfið jafn einsett og raun ber vitni á þessa gölnu aðferðafræði, sem einskorðast við afleiðingar verðbólgunnar í stað þess að komast fyrir orsakir hennar?
Séu kostir og gallar verðtryggingarinnar vegnir og metnir blasir við, að því fyrr sem við losum þjóðfélagið úr viðjum hennar, þeim mun fyrr getum við hafist handa við að byggja upp heilbrigt fjármálakerfi, frumforsendu þess að hér geti þrifist velmegun og velferð til framtíðar. Vilji er allt sem þarf ásamt uppbyggilegri umræðu um það, hvernig verði sem best að afnámi verðtryggingar.