Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Mismuna bankar lántákendum í 110% leiðinni?

Hagsmunasamtök heimilanna hafa farið farm á við Árna Pál Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, að framkvæmd lánastofnana á 110% leiðinni verði rannsökuð.



Samtökunum hefur borist fjöldi ábendinga og tilmæla frá stórum hópi fólks sem bendir til þess að lántakendum hafi þvert á yfirlýst markmið stjórnvalda verið mismunað allt eftir því hjá hvaða lánveitanda niðurfæranleg veðlán voru tekin. Dæmi eru um gjörólíka málsmeðferð, hvað sambærilegar eignir varðar, jafnvel sams konar íbúðir í sama húsi, keyptar um svipað leyti og á nánast sama verði.

Að mati samtakanna getur almennt úrræði ekki þýtt annað en að umsækjendur standi jafnir að vígi gagnvart settum skilyrðum. Samtökin telja því með hliðsjón af jafnræðisreglunni, að samræma hefði þurft frá upphafi framkvæmd þessa úrræðis, til dæmis með því að miða verðmat fasteignar í öllum tilvikum við fasteignamat Þjóðskrár Íslands.

Það er því að mati samtakanna brýnt, að fram fari hlutlæg stjórnvaldsathugun á framkvæmd einstakra lánveitenda á áðurnefndu samkomulagi, svo úr því fáist skorið hvort og þá í hvaða mæli heimili hafi verið hlunnfarin. Jafnframt hljóta stjórnvöld að fylgja eftir svo veigamikilli aðgerð í þágu yfirskuldsettra heimila með vandaðri athugun, svo meta megi árangur hennar ásamt framkomnum ábendingum.

Samtökin hafa enn fremur óskað eftir afstöðu ráðherrans til 110% leiðinnar í ljósi ört vaxandi verðbólgu, nú þegar verðbólga hefur „étið” upp megnið af þeim leiðréttingum sem yfirskuldsettum heimilum hefur þó boðist. Hver sé þá þýðing leiðarinnar sem eina almenna skuldaúrræðið fyrir skuldsett heimili.

Í bréfi samtakanna til ráðherra, er einnig bent á verðtryggingarkerfið hindri að öllum líkindum stjórnvöld í að taka fjármála- og skuldakreppu þjóðarinnar réttum tökum. Eins og sýnt hefur verið fram á af virtustu hagfærðingar heims á þessu sviði, er nauðsynlegt að lækka skuldir heimila og fyrirtækja svo vinna megi bug á afleiðingum fjármálakreppunnar, þrátt fyrir þá verðbólgu sem af því hlýst. Á Íslandi myndu slíkar stjórnvaldsaðgerðir hins vegar stuðla að aukinni skuldsetningu, þökk sé verðtryggingunni.



Sjá bréf Hagsmunasamtakanna til ráðherra


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum