Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

HH fer fram á opinbera athugun á 110% leiðinni

Hagsmunasamtök heimilanna hafa nú sent erindi til efnahags- og viðskiptaráðherra um að gera opinbera athugun á hinni svo kölluðu 110% leið.

 

Samtökin hafa fengið fjölda ábendinga um að aðferðarfræði við mat sé ekki samhæft og telja leiðina vera illa ígrundaða frá upphafi til enda. Bæði er leiðin óréttlát innbyrðis, ekki virðist gætt jafnræðis, og eins er leiðin óréttlát gagnvart öllum öðrum landsmönnum með lán undir þessu veðhlutfalli og einnig urðu fyrir miklu tjóni, sem enn er óleiðrétt.

Í lögum um sértryggð skuldabréf stendur "veðhlutfall af markaðsvirði íbúðarhúsnæðis skal að hámarki nema 80%

Hér má sjá erindið sem sent var til efnahags- og viðskiptaráðherra, fjármálaeftirlitsins, forsætisráðherra og fjármálaráðherra;

Hagsmunasamtök heimilanna fara þess á leit við efnahags- og viðskiptaráðherra að ráðuneytið kanni til hlítar svokallaðar 110% lánaleiðréttingarleiðir fjármálafyrirtækja fyrir yfirskuldsett heimili.

Þann 15. janúar s.l. undirrituðu lánveitendur á íbúðalánamarkaði meðfylgjandi samkomulag um aðlögun fasteignalána í þágu yfirveðsettra heimila. Var það í samræmi við 1. tölulið viljayfirlýsingar þeirra og ríkisstjórnarinnar frá 3. desember 2010. Í framhaldinu kynntu m.a. lánveitendur og Umboðsmaður skuldara svokallaða 110% leið, sem almennt úrræði fyrir heimili í fjárhagsvanda að tilteknum skilyrðum uppfylltum.

Fjöldi ábendinga og tilmæla, sem samtökunum hefur borist frá breiðum hópi lántakenda, bendir til þess að lántakendum hafi þvert á yfirlýst markmið stjórnvalda verið mismunað, sumum hverjum gróflega, allt eftir því hjá hvaða lánveitanda niðurfæranleg veðlán voru tekin. Dæmi eru un misháar lánaleiðréttingar, allt eftir lánveitanda, hvað sambærilegar eignir varðar, jafnvel sams konar íbúðir í sama húsi, keyptar um svipað leyti og á nánast sama verði. Skýringar kunna að finnast í því að bílar eða annað lausafé kemur til frádráttar.

Almennt úrræði getur samkvæmt orðanna hljóðan ekki þýtt annað en að umsækjendur standi jafnir að vígi gagnvart settum skilyrðum. Samtökin telja því með hliðsjón af jafnræðisreglunni, að samræma hefði þurft frá upphafi framkvæmd þessa úrræðis, til dæmis með því að miða verðmat fasteignar í öllum tilvikum við fasteignamat ríkisins.

Það er því mati samtakanna afar brýnt, að fram fari hlutlæg stjórnvaldsathugun á framkvæmd einstakra lánveitenda á áðurnefndu samkomulagi, svo úr því fáist skorið í hvaða mæli heimili hafi verið hlunnfarin. Jafnframt hljóta stjórnvöld að fylgja eftir svo veigamikilli aðgerð í þágu yfirskuldsettra heimila með vandaðri athugun, leiki grunur á því að lánveitendur hafi með markvissum og skipulegum hætti hagnast á framkvæmd hennar á kostnað lántakenda.

Samtökin óska enn fremur eftir afstöðu ráðherrans til 110% leiðinnar í ljósi ört vaxandi verðbólgu. Höfuðstóll verðtryggðra lána hækkar hratt, mun hraðar en verðlagshækkanir gefa tilefni til vegna þeirrar aðerðafræði sem notuð er og samtökin telja skorta lagastoð. Lög heimila ekki, að mati samtakanna, viðbótarlán fyrir þeim hluta verðbóta sem veldur vaxtavaxtatöku og margfeldisáhrifum í heildarendurgreiðslu, eins og núverandi framkvæmd á verðtryggingunni felur í sér. Draga má verulega í efa gildi þess að bjóða sem almennt skuldaúrræðið áframhaldandi yfirveðsetningu. Nú þegar verðbólga hefur “étið” upp megnið af þeim leiðréttingum sem yfirskuldsettum heimilum hefur þó boðist, og jafnvel gott betur, hvaða þýðingu hefur þá 110% leiðin að mati ráðherrans sem eina almenna skuldaúrræðið fyrir skuldsett heimili?

Þá er að engu haft, sparnaður og lífeyrir  þess fólks sem sparaði fyrir útborgun í húsnæði í stað þess að taka 80-100% lán. Neyðarlögin tryggðu innstæðueigendur án nokkurra skilyrða. Gengið var svo langt að greiða einnig út vexti og verðbætur, í stað þess að takmarka innstæðutrygginguna við höfuðstól eða setja þak á upphæð tryggingar. Full ástæða er því til að spyrja hvort þessi lagasetning standist sem stjórnvaldsaðgerð jafnræðisreglu laga, fyrst skuldir heimilanna hafa ekki fengist leiðréttar með almennum hætti?

Ráðherra hefur talað gegn almennri leiðréttingu með þeim rökum að hún umbuni þeim sem skuldsettu sig mest. Stjórnvöld forðast á hinn bóginn að nefna, að vel hefði mátt útfæra almennt úrræði eða leið, sem nær til allra þeirra sem urðu fyrir eignatjóni af völdum stökkbreyttra lána, með þaki eða tekjutengingu rétt eins og felst í 110% leiðinni. Sú leið sem hefur verið farin er líklega sú óskynsamlegasta og ósanngjarnasta sem völ var á.

Ástæða er til að nefna niðurstöður rannsókna Kenneth Rogoff, prófessors við Harvard, og Carmen Reinhart, sem eru virtustu sérfræðingar heims í fjármála- og skuldakreppum innan hagfræðinnar.  Rogoff segir að eina leiðin til að auka hagvöxt í Bandaríkjunum sé að afskrifa skuldir.  Sú leið sem hann mælir með, er að framleiða verðbólgu með aukinni peningaprentun í því skyni að færa eignir frá lánadrottnum til skuldara.  Fátt bendir til annars en að þessi leið verði farin í Evrópu og Bandaríkjunum svo stemma megi stigu við skuldakreppunni og forða Vesturlöndum frá annarri og enn verri fjármálakreppu.  Hætta er á að sú verðbólga sem hér um ræðir smitist til Íslands með ófyrirséðum afleiðingum fyrir heimili, atvinnulíf og ríkissjóð.

Vegna afleitrar framkvæmdar á verðtryggingu fjárskuldbindinga hér á landi er ofangreind leið því aðeins fær, að sn. “verðtryggð lán” verði færð yfir í “óverðtryggða” lánakerfið og húsnæðislán heimilanna færð samhliða flatt niður um þær hækkanir sem stökkbreytingar hruns og óðaverðbólgu eru völd að. Fyrir þessum tilbúnu reiknilíkanshækkunum er engin innstæða, óháð því hvort litið er til þjóðarframleiðslu eða ráðstöfunartekna heimilanna. Raunar gæti þurft að leiðrétta mun meira ef skoðun samtakanna á ólögmæti framkvæmdarinnar reynist rétt. Breytilegum vöxtum ber að standa undir staðgreiðslu vaxta og verðbóta, eins og kveðið er að mati samtakanna á um í lögum nr. 38 um vexti og verðtryggingu. Þannig eru lán verðtryggð í öðrum löndum, en ekki margverðtryggð og vaxtavaxtareiknuð eins og viðgengst hérlendis. Það myndi auk þess stuðla að árangursríkari efnahagsstjórn, að stýrivextir Seðlabankans nái óhindrað að hafa tilætluð áhrif hverju sinni.

Carmen Reinhart sendi á dögunum erindi til fjölmiðla þar sem hún segir leiðréttingu á skuldum heimila einu raunhæfu leiðina til að auka hagvöxt í skuldugum hagkerfum.  Nouriel Roubini, hagfræðiprófessor við New York háskóla tekur í sama streng og segir afskriftir skulda 50% heimila í Bandaríkjunum forsendu fyrir áframhaldandi hagvexti og efnahagsbata.

Hagsmunasamtök heimilanna líta svo á að virtustu hagfræðingar heims með sérfræðiþekkingu á fjármála- og skuldakreppum séu í meginatriðum samsinna kröfum samtakanna, enda hafa samtökin ávallt talið kröfurnar efnahagslega nauðsyn rétt eins og réttlætismál.  Viljum við hvetja ráðherra til að kynna sér málflutning og rannsóknir umræddra hagfræðinga í ljósi þeirra aðstæðna sem uppi eru í efnahagsmálum á Íslandi, og ekki síst vegna þess að hér um ræðir virtustu sérfræðinga heims á sínu sviði.

 


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum