Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

HH krefja FME um íhlutun og nauðsynleg svör

Hagsmunasamtök heimilanna hafa nú sent erindi til Fjármálaeftirlitsins þar sem settar eru fram nokkrar af þeim spurningum sem mikið hefur verið fjallað um að undanförnu í fjölmiðlum og nýlega á borgarafundi í Háskólabíó. Samtökunum hafa borist fjölmargar fyrirspurnir frá félagsmönnum um hvernig beri að meðhöndla skuldabréf lögum samkvæmt. Hvort beri að þinglýsa þeim, hver hafi heimild til að innheimta þau og frá hvaða tíma og hvernig beri að skilja fullnaðargildi kvittana. Hafa samtökin gert sjálfstæða athugun á því og fá ekki betur séð en að á þessum atriðum séu hnökrar í núverandi framkvæmd ýmissa fjármálastofnana.

Fjármálaeftirlitið á lögum samkvæmt að hafa eftirlit með fjármálastofnunum og ber að senda þeim leiðbeinandi tilmæli ef athugun leiðir í ljós að ekki sé farið að lögum. Því er erindinu beint til Fjármálaeftirlitsins, enda hefur Hagsmunasamtökum heimilanna þótt mikilvægt að Fjármálaeftirlitið gangi úr skugga um framkvæmd mála og upplýsi bæði almenning og fjármálastofnanir um hvernig meðhöndlun skuldabréfa og innheimtu skuli háttað lögum samkvæmt.

Hagsmunasamtök heimilanna vonast til að FME bregðist fljótt við og geri skýra grein fyrir lagalega réttri framkvæmd þannig að lántakendur þurfi ekki að velkjast í vafa um hvað er rétt og rangt í þessum efnum í langan tíma.

 

Bréfið er svohljóðandi:

Hagsmunasamtök heimilanna óska eftir því að  Fjármálaeftirlitið leiðbeini samtökunum vegna skjólstæðinga sinna hvernig fjármálastofnanir skuli fara með framseld skuldabréf viðskiptavina sinna lögum samkvæmt. Er það skilningur samtakanna að mögulega geti skuldabréf sem framseld voru frá gömlu bönkunum til hinna nýju verið ógild í höndum nýju bankanna þar sem framsal hefur ekki réttilega átt sér stað. Þar sem óvissa ríkir um þetta atriði óska samtökin eftir því að Fjármálaeftirlitið lýsi löglegu og réttu framsali skuldabréfa sem ákvörðun eftirlitsins tekur til þ.á.m. við yfirfærslu eigna gömlu bankanna yfir í nýju bankana með því að taka afstöðu til þinglýsingarlaga og laga um áritun skuldabréfa (tilskipun 9. febrúar 1798) við framsal skuldabréfanna.

Sé skuldabréfið ennþá skráð á kennitölu gamla bankans þá er það skilningur samtakanna að nýr eigandi geti ekki innheimt það í eigin nafni nema ef rétt framsal hafi farið fram. Er sá skilningur réttur? Hverjum er lántakanda rétt að greiða þegar svo háttar til og hver getur áritað skuldabréfið með eftirstöðvum höfuðstóls?

Það er skilningur samtakanna að lögum samkvæmt eigi eigandi skuldabréfs eingöngu kröfurétt á eftirstandandi höfuðstól og vexti frá þeim degi sem hann eignast kröfuna, sbr. tilskipun 9. febrúar 1798. Fram að þeim degi á fyrrum eigandi skuldabréfsins kröfuna á bæði höfuðstólinn og vexti. Nýr lánadrottinn á því ekkert tilkall til vaxtagreiðslna fyrir þann tíma, áður en hann varð löglegur eigandi skuldabréfsins. Er þetta réttur skilningur?

Jafnframt er það skilningur samtakanna að hafi verið gefin út fullnaðarkvittun fyrir greiðslu, sem inniheldur afborgun af höfuðstól og vexti, sé þeirri kröfu lokið og ekki hægt að endurvekja og innheimta hærri vexti á það tímabil, sbr. tilskipun 9. febrúar 1798.  Er þetta réttur skilningur? Telja samtökin að við fullnaðarkvittun greiðslu hafi lántaki eignast eign (skuld hefur lækkað) sem varin er af stjórnarskrá, eignarréttarákvæði 72. gr. hennar,  sem ekki verði tekin af honum bótalaust. Lagaákvæði sem stangast á við  þetta stjórnarskrárákvæði séu því ógild. Íþyngjandi afturvirk lagaákvæði sem stangast á við 72. gr. stjórnarskrárinnar skal vikið til hliðar, sbr. Hrd. 274/2010.  Samtökin telja að 5. mgr. 18. gr. laga 38/2001, sbr. 5. mgr. 1. gr. laga nr. 151/2010,  sem heimili að tvíreikna vaxtatímabil þó að vextir séu greiddir sé að þessu leyti ógild og 3. mgr. sama ákvæðis um að vexti skuli reikna frá og með stofndegi peningakröfu, verði að skýra þannig að stofndagur kröfu miðist við ógreidda peningakröfu. Telur FME þessa lagatúlkun vera rétta?

Hafi skuldabréfið ekki verið áritað af gamla bankanum svo ljóst sé hver er eftirstandandi höfuðstóll, hvaða upphæð á nýr banki þá kröfurétt til? Það er skýrt í lögum um áritun skuldabréfa að við framsal er skylt að árita fjárhæð eftirstöðva á skuldabréf og raunar við hverja afborgun, sbr. tilskipun frá 9. febrúar 1798.

Jafnframt vilja samtökin biðja FME um leiðbeiningar varðandi hver hefur heimild til að innheimta lán fyrir þinglýstan eiganda. Til að skýra frekar hvað við er átt, þá er það til dæmis svo í tilfelli Dróma að hann er  þinglýstur eigandi af skuldabréfi sem Arionbanki er síðan að innheimta. Óska samtökin eftir skýringu á því hvaða lagaheimild Arionbanki hefur til innheimtunnar, sé hann ekki þinglýstur eigandi skuldabréfsins.

 

Í ljósi þess hve mikið hefur verið fjallað um þessi mál að undanförnu og staða lántakenda því ekki skýr hvað alla þessa þætti varðar er óskað eftir svari FME hið allra fyrsta. Jafnframt telja samtökin mikilvægt að FME sendi frá sér leiðbeinandi tilmæli til fjármálastofnana varðandi ofangreind atriði.


Heimildir:
Ólafur Jóhannesson, Lög og réttur (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 1975).
http://www.althingi.is/lagasafn/

1978 nr. 39 10. maí/ Þinglýsingalög.  http://www.althingi.is/lagas/137/1978039.html

2008 nr. 11 14. mars/ Lög um sértryggð skuldabréf. http://www.althingi.is/altext/stjt/2008.011.html

1798 9. febrúar/ Tilskipun um áritun afborgana á skuldabréf. http://www.althingi.is/lagas/138b/1798092.html

 


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum