Hagsmunasamtök heimilanna vilja að forsetinn beiti sér fyrir þjóðarhag
Hagsmunasamtök heimilanna (HH) áttu fund með þingmönnum síðdegis í gær í þeim tilgangi að ýta við þeim sem áhuga hafa á því að taka höndum saman á Alþingi og setja fram þingmál um kröfur samtakanna sem snúa að leiðréttingum lána, afnámi verðtryggingar eða þjóðaratkvæðagreiðslu um þær. Þeir þingmenn sem hingað til hafa lýst yfir áhuga að taka þátt í að setja málið á dagskrá þingsins koma allir úr stjórnarandstöðu.
Í ljósi nýlegrar könnunar sem Capacent Gallup gerði fyrir HH sem gefur til kynna að kröfur HH endurspegli vilja 80% þjóðarinnar og nýlegra ályktana á landsfundi sjálfstæðisflokksins má leiða líkur að því að nú sé kominn þjóðarmeirihluti og þingmeirihluti fyrir kröfum HH. Dragi stjórnvöld það í efa þykir samtökunum eðlilegt að setja málið í þjóðaratkvæði.
Nú hafa rúmlega 37 þúsund skrifað undir í undirskriftasöfnuninni á heimasíðu samtakanna. Þar sem enginn vilji til aðgerða af hálfu ríkisstjórnarinnar munu samtökin halda áfram að safna undirskriftum og hvetja þau 80% sem eru fylgjandi kröfunum til að skrifa undir.
HH afhentu forsætisráðherra um 34 þúsund undirskriftir þann 1. október síðast liðinn. Í kjölfarið var Hagfræðistofnun HÍ falið að meta hið svokallaða “afskriftasvigrúm” þríburabankanna og jafnframt leggja mat á þær fjórar leiðir sem HH lögðu til. Jafnframt lýsti forsætisráðherra því yfir í sjónvarpi að með því væri samt ekki verið að lofa neinu um aðgerðir! Er það mat HH að stjórnvöld séu í raun bara að kaupa sér tíma og frið fyrir mótmælum þar sem engin afgerandi yfirlýsing hefur komið frá þeim um að verða við kröfunum.
Þess má geta að á fundi með þingmönnum í gær kom fram að yfir hátíðirnar áttu fulltrúar ríkisstjórnarinnar í viðræðum við Hreyfinguna um að verja stjórnina falli þar sem komin er upp sú umræða í þinginu að leggja fram vantraustsyfirlýsingu. Var það krafa Hreyfingarinnar að þessi mál yrðu afgreidd ásamt fleirum ef þau ættu að verja stjórnina falli og lögðu þau til ákveðna nálgun sem ekki var fallist á. Í því samhengi má jafnframt geta þess að skuldavandi heimilanna hefur oft verið ræddur á Alþingi og þar hafa verið lagðar fram þó nokkrar tillögur í þá veru að leiðrétta fyrir forsendubrestinum og afnema verðtryggingu.
Hagsmunasamtök heimilanna hafa því komist að þeirri niðurstöðu að vænlegast sé að leita til forsetans og fá hann til að beita ákvæðum í stjórnarskránni til þess að fá málið afgreitt og þrýsta á stjórnvöld að bregðast við. Má í því samhengi benda á að samkvæmt 25. grein stjórnarskrárinnar hefur forsetinn heimild til að ,,leggja fyrir Alþingi frumvörp til laga og annarra samþykkta”. Samtökin hafa því farið fram á fund með forsetanum.