Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Ályktun stjórnar HH vegna dóms Hæstaréttar í máli 600/2011

Dómur Hæstaréttar er áfangasigur

Hagsmunasamtök heimilanna (HH) fagna niðurstöðu Hæstaréttar í máli nr 600/2011, 15. febrúar 2012. Hæstiréttur Íslands hefur nú staðfest réttmæti málflutnings HH um ólögmæti afturvirkrar lagasetningar í sambærilegum málum. Allir sjö dómarar Hæstiréttar voru sammála um þá meginreglu að lög gildi ekki afturvirkt. Jafnframt úrskurðar Hæstiréttur um að kvittanir hafi fullnaðargildi og vöxtum af greiddum kröfum því ekki haggað með íþyngjandi hætti. Samtökin vilja í því samhengi leggja áherslu á að Hæstiréttur hefur aldrei dæmt á þá leið að endurreikna ætti ólögmæt gengistryggð lán þannig að óverðtryggðir vextir seðlabankans leggist á greidda gjalddaga, heldur féllust málsaðilar þess máls á þá vexti á ógreiddar eftirstöðvar en slíkt samkomulag málsaðila hefur lítið fordæmisgildi fyrir rétti, hvað þá fyrir lagasetningu. Sumir þingmenn sem samþykktu lög 151/2010 hafa haldið því fram að dómurinn hafi verið afturvirkur, sem er ekki rétt.



Eftirlit með endurútreikningum
Eðlilegast væri að gengisbundin lán héldu þeim vöxtum sem voru á þeim í upphafi, en þó hefur ekki verið dæmt um hvort vextir myndu falla niður í tilfelli þeirra vaxta sem bundnir eru við gengi gjaldmiðla. Við teljum engar forsendur fyrir því að hækka vextina. HH vilja árétta að Hæstiréttur hefur einungis dæmt um eina tegund samningsvaxta, en gengistryggðir lánasamningar báru ekki allir sams konar samningsvexti. Samkvæmt dómnum skal lántakinn þ.e. veikari aðili samningsins, njóta vafans. Það ætti að vera útgangspunktur allra ákvarðana héðan í frá, þ.m.t. í útreikningum á afborgunum þar til óvissu hefur verið eytt.

Lög 151/2010 voru tilraun til að rétta hlut kröfuhafa

Í orði kveðnu setja stjórnvöld fram að verja eigi heimilin en verk þeirra segja þveröfuga sögu. Þrátt fyrir aðvaranir frá umsagnaraðilum voru lög 151/2010 samþykkt án þeirra nauðsynlegu varnagla sem hefði þurft að setja við afturvirkni og brotum á neytendarétti. HH hafa margoft varað stjórnvöld við afleiðingum þess að láta nauðungarsölur og vörslusviptingar á grundvelli vafasamra endurútreikninga fjármálastofnana fara fram. Slíkir gjörningar kunna að hafa bakað ríkinu og embættismönnum þess skaðabótaskyldu.

Þau slitu lögin, þau slitu friðinn
Stjórnvöld og fjármálastofnanir hafa í raun beitt tugi þúsunda heimila í landinu efnahagslegu ofbeldi með verkum sínum. Þau voru margsinnis hvött til að semja um sanngjarnar lausnir þannig að allir sætu við sama borð. Þess í stað kusu stjórnvöld að etja lánþegum gegn hver öðrum með lymskulegu tali um táknmyndir óhófs í tengslum við lánin. Einnig hefur kynslóðum verið att gegn hvor annarri þegar talað er um að dreifa byrðum af hruninu. Með “ömmu trompinu” er þannig t.d. réttlætt gríðarleg eignatilfærsla frá lántakendum til lífeyrissjóða í formi verðbóta sem eru tilkomnar af markaðsmisnotkun og vísvitandi lögbrotum fjármálafyrirtækja auk vanrækslu fjármálaeftirlits og Seðlabanka íslands.

Þegar velt er fyrir sér ábyrgð á því ómælda tjóni sem lántakendur hafa orðið fyrir ber að spyrja um ábyrgð og hverjir axla hana. Ábyrgðina telja HH að bankastjórnendur beri og hafa nú lagt fram kæru á næstum allar stjórnir og bankastjóra á árabilinu 2001-2012 fyrir að veita gengistryggð lán og innheimta með ólöglegum hætti.



Viðauki
Fjármálafyrirtæki eiga að veita þjónustu við miðlun fjármuna, þau eiga að smyrja tannhjól hagkerfisins en þess í stað snéru þau sér að veðmálum. Hefðbundinn bankarekstur og veðmál eiga ekki samleið. Þetta hefur verið margsannað og varnaglar settir í lög til að tryggja skýr mörk þarna á milli. Fjármálasnillingar og talsmenn þeirra í stjórnmálaflokkunum felldu slík lög úr gildi hérlendis sem og víða annarstaðar. Hrunið er meðal annars bein afleiðing af innkomu veðmangaranna inn í hefðbundna bankastarfsemi. Fleira kom til sem flýtti fyrir eins og spilling m.a. í formi samkrulls stjórnmálamanna og stjórnenda lífeyrissjóða við fjármálafyrirtækin.

Í stað þess að laða viðskiptavini til sín og semja við fólk fóru bankarnir í stríð við almenning. Þeir héldu að þeir væru yfir lögin hafnir og þeim var í raun hjálpað við það af núverandi stjórnvöldum. Gylfi Magnússon sagði að leysa ætti málin fyrir dómstólum. Þegar niðurstaðan var honum ekki að skapi hófst hann handa við að grafa undan lögum landins með dyggum stuðningi Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins. Fjármálaeftirlitið í landinu sem á að vernda almenning fyrir lögbrotum og mögulegri misnotkun fjármálastofnana á aðstöðu sinni, tók höndum saman við Seðlabanka og ráðherra viðskipta og efnahagsmála í aðför gegn stjórnarskrárbundnum hagsmunum tugþúsunda heimila. Gylfi Magnússon varð uppvís að því að stinga undir stól, lögfræðiálitum sem voru honum ekki þóknanleg. Lögin sem vísað var í voru alveg kýr skýr, það þarf ekki háskólapróf til að lesa þau og sannfærast um að gengisbinding lána hafi verið óheimil. Fjármálafyrirtæki höfðu vísvitandi selt fólki ólögleg lán og tekið svo stöðu gegn hagsmunum viðskiptavina sinna. Allt til að græða sem mest þau máttu án tillits til afleiðinganna fyrir samfélagið, þau sjálf og viðskiptavini þeirra.


Hverjir samþykktu lög 151/2010;

já:    Álfheiður Ingadóttir, Árni Páll Árnason, Árni Þór Sigurðsson, Ásmundur Einar Daðason, Ásta R. Jóhannesdóttir, Björn Valur Gíslason, Guðbjartur Hannesson, Jóhanna Sigurðardóttir, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Katrín Jakobsdóttir, Katrín Júlíusdóttir, Kristján L. Möller, Magnús Orri Schram, Mörður Árnason, Oddný G. Harðardóttir, Ólafur Þór Gunnarsson, Róbert Marshall, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Skúli Helgason, Steingrímur J. Sigfússon, Svandís Svavarsdóttir, Valgerður Bjarnadóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Þráinn Bertelsson, Þuríður Backman, Ögmundur Jónasson

nei:    Birgitta Jónsdóttir, Margrét Tryggvadóttir, Þór Saari
greiðir ekki atkvæði:
Ásbjörn Óttarsson, Birgir Ármannsson, Birkir Jón Jónsson, Bjarni Benediktsson, Eygló Harðardóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson, Helgi Hjörvar, Höskuldur Þórhallsson, Jón Gunnarsson, Ólöf Nordal, Pétur H. Blöndal, Ragnheiður E. Árnadóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Ingi Jóhannsson, Sigurður Kári Kristjánsson, Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson, Siv Friðleifsdóttir, Tryggvi Þór Herbertsson, Unnur Brá Konráðsdóttir, Vigdís Hauksdóttir, Þorgerður K. Gunnarsdóttir

fjarvist:     Atli Gíslason, Ólína Þorvarðardóttir

fjarverandi:     Árni Johnsen, Björgvin G. Sigurðsson, Einar K. Guðfinnsson, Guðmundur Steingrímsson, Jón Bjarnason, Kristján Þór Júlíusson, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Lilja Mósesdóttir, Össur Skarphéðinsson


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum