Aðgerðir Hagsmunasamtakanna vegna vaxtadóms Hæstaréttar nr. 600/2011
Frá því að Hæstiréttur kvað upp dóm í máli nr. 600/2011 þann 15. febrúar síðast liðinn þar sem endurútreikningar áður gengistryggðra lána voru dæmdir ólöglegir hafa fulltrúar Hagsmunasamtaka heimilanna setið tvo fundi með efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis og einnig farið á fund innanríkisráðherra þar sem Hæstaréttardómurinn og áhrif hans hafa verið rædd.
Hagsmunasamtök heimilanna hafa bent á það á þessum fundum að mögulega eigi neytendur betri rétt en þann sem kemur fram í þeim dómum sem fallnir eru, ef litið er til laga um neytendalán og Evróputilskipananir. Lögð var á það áhersla á þessum fundum að stjórnvöld þurfa ekki síður að óttast skaðabótaskyldu gagnvart neytendum heldur en fjármála-fyrirtækjum. Ef neytendum er hins vegar tryggður ýtrasti réttur samkvæmt neytendalöggjöfinni í vafaatriðum þurfa stjórnvöld ekki að hafa neinar áhyggjur af skaðabótaskyldu, því þannig er einfaldlega farið að lögum.
Fulltrúar okkar settu fram kröfu um að allar aðfarir yrðu stöðvaðar og öll innheimta fryst eða til þess mælst að fólk deboneri greiðslum, eða þær settar í einhvern lágmarksfarveg í þeim tilfellum þar sem augljóst er að fólk skuldar ennþá stórar fjárhæðir, en ekki ríkir óvissa um hvort bankinn sé í vanskilum við lántakendur.
Þá lögðu fulltrúar samtakanna til að dómsmál til að leysa úr fleiri ágreiningsefnum fengju flýtimeðferðir innan kerfisins og í þeim þyrfti ráðgefandi álits EFTA dómstólsins. Einnig að komið yrði á sjálfvirkri endurupptöku mála þar sem fólk hefur nú þegar misst eignir sínar á grundvelli ólögmætra lána og ólögmætra endurútreikninga, auk þess sem tryggja þyrfti þeim einstaklingum skaðabætur.
Í síðustu viku sendu Hagsmunasamtökin erindi til Samkeppniseftirlitsins þar sem því var harðlega mótmælt að stofnunin veiti Samtökum fjármálafyrirtækja (SFF) undanþágu frá bannákvæðum samkeppnislaga, en SFF hefur óskað eftir slíkri undanþágu í þeim tilgangi að aðildarfélögin geti ráðið ráðum sínum í kjölfar vaxtadóms Hæstaréttar. Í sama bréfi var því einnig mótmælt að samráðsvettvangur um Hæstaréttardóm 600/2011 hefur verið stofnaður undir forystu skrifstofustjóra í Efnahags- og viðskiptaráðinu þar sem sitja fulltrúar ráðuneyta, eftirlitsstofnana, Fjármálaeftirlitsins og Samtaka fjármálafyrirtækja. HH telur að stjórnvöldum beri skylda til að tryggja aðkomu eftirlitsaðila fyrir hönd neytenda að því borði, s.s. Neytendastofu, Talsmanns neytenda og/eða Umboðsmanns skuldara.
Auk þess var sent erindi til banka, sparisjóða og bílafjármögnunarfyrirtækja þar sem þeim tilmælum var beint til fjármálafyrirtækja að þau dragi til baka innheimtu á áður gengistryggðum lánum eða setji hana í ákveðinn farveg næstu vikur eða mánuði. Einnig að allar aðfarir, s.s. nauðungarstölur og vörslusviptingar verði dregnar til baka eða þeim frestað á meðan réttaróvissa ríkir.
Þá fóru fulltrúar HH á fund sýslumannsins í Reykjavík og ræddu um mikilvægi þess að stöðva aðfarir og vísa frá þeim málum sem mikil óvissa ríkir um.