Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Samkeppniseftirlitið krefst frestunar fullnustuaðgerða vegna gengistryggðra lána - HH láta vinna lögfræðiálit

Neytendur og lántakendur unnu áfangasigur með ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 4/2012 um undanþágubeiðni Samtaka Fjármálafyrirtækja vegna fyrirhugaðs samráðs um viðbrögð við dómi hæstaréttar í máli 600/2011 þar sem afturvirk endurákvörðun og innheimta seðlabankavaxta af áður gengistryggðu láni var dæmd ólögmæt. Í innsendum umsögnum Hagsmunasamtaka heimilanna vegna málsins var mælt gegn því að beiðnin yrði samþykkt og gerð athugasemd við að ekki væri gert ráð fyrir þeim aðilum og stofnunum sem eiga að gæta hagsmuna neytenda.



Samkeppniseftirlitið hefur nú hafnað undanþágubeiðni SFF, en fallist á að fjármálafyrirtæki sem í hlut eiga hafi samráð um þröngt afmörkuð verkefni er lúta að viðbrögðum við áðurnefndum dómi og höfðun frekari dómsmála um úrlausnarefni sem enn standa óleyst. Þess er krafist að haldnar séu skýrar fundargerðir slíkra samráðsfunda að viðstöddum fulltrúa Umboðsmanns skuldara auk Neytendastofu og Talsmanns Neytenda óski þau eftir því.

Athygli skal vakin á því að lánveitendum sem aðild eiga að samstarfinu er gert að fresta öllum fullnustuaðgerðum vegna lána sem ljóst er að falli undir dóm Hæstaréttar. Hagsmunasamtök heimilanna telja það líklega geta átt við um flest áður gengistryggð lán, en vísa að öðru leyti til dómsorða Hæstaréttar. Þá er sett sem skilyrði fyrir samráði að fjármálafyrirtækin krefjist ekki málskostnaðar og skuli í dómsmálum sem höfðuð verði í kjölfarið leitast eftir málum þar sem skuldarar eru að mati umboðsmanns skuldara hvað best til þess fallnir að halda uppi vörnum.

Hagsmunasamtök heimilanna fagna því að Samkeppniseftirlitið skuli taka tillit til heildarhagsmuna neytenda í ákvörðun sinni og hafi komið að hluta til móts við þau sjónarmið sem samtökin settu fram í umsögnum sínum. Samtökin ítreka að ýtrasti réttur neytenda skuli virtur í hvívetna og neytendur njóti ávallt vafans eins og lög gera ráð fyrir. Þá skal tekið fram að félagsfundur samtakanna samþykkti um helgina ályktun þess efnis að lögfræðiálit verði unnið vegna dómsins og lögfræðilegra álitaefna.

Dómur Hæstaréttar Íslands í máli nr. 600/2011
Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 4/2012 um undanþágu vegna samstarfs


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum