Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Ekki taka verðtryggð lán

Ekki taka verðtryggð lán ef þér er annt um fjárhagslega framtíð þína
Verðtryggingin er að mati stjórnar HH mikil ógn við fjárhagslega heilsu yfir 50% heimila í landinu. Reyndar er svo nú að allt að 20% heimila eru gjaldþrota eða hafa ígildi þeirra stöðu (greiðsluaðlögun). Önnur 20% til 30% heimila eru í hættu þar eð lítið má út af bera í fjármálum til að valda kollsteypu niður í fjárhagslegt kviksyndi. Til að vera sanngjarn að þá er ekki hægt að kenna verðtryggingu um öll málin með beinum hætti en hinar óbeinu afleiðingar verðtryggingar eru mjög afgerandi í íslensku hagkerfi þó ekki sé minnst á bein og mjög augljós neikvæð áhrif.



Af hverju vilja Hagsmunasamtök heimilanna afnám verðtryggingar á neytendalánum og leiðréttingu lána?
Verðtrygging er í raun leið lánveitenda til að fela háa vexti og velta kerfislægri áhættu yfir á lántaka. Þegar lántaki tekur verðtryggt lán skoðar hann greiðslubyrðina og gerir oftast grófa áætlun út frá tekjum sínum og atvinnumöguleikum. Lánin eru til allt að 40 ára en raunlíftími þeirra er líklega einhverstaðar í kring um 6 til 8 ár (vegna þess að lánin eru greidd upp við sölu fasteignar). Vextir á þessum lánum hafa verið þetta um og yfir 5% hérlendis. Vextirnir af lánunum eru alltaf greiddir upp mánaðarlega en verðbæturnar eru látnar safnast upp að hluta. Að mati stjórnar HH stangast þessu uppsöfnun verðbóta á við lögin um verðtryggð lán og er enn opin kæra samtakanna til umboðsmanns Alþingis. Hún hefur dagað uppi þar en það virðist dæmigert fyrir stór hagsmunamál almennings hjá stjórnsýslunni. Seðlabankinn komst í bili undan þessu máli með því að snúa því upp í deilu um reiknikúnstir. Ádeila samtakanna snerist ekki um það heldur hvort farið væri að lögum við innheimtu verðbóta.

Feluleikur með vextina
Að sjálfsögðu er æskilegt fyrir heimilin að vextir á íbúðalánum séu lágir. Það stoðar þó lítið að tala um lága vexti ef stærstur hluti þeirra er falinn í einhverskonar framvirkri flækju. Þegar verðbólga fer yfir tiltekin mörk (lánstíminn hefur mikil áhrif á þessi mörk) veldur hún margföldun á vöxtunum (í formi verðbóta). Sem dæmi að þá er lán til 25 ára með 5% vöxtum í 7% verðbólgu ekki jafngilt láni með 12% vöxtum heldur láni með um 20% vöxtum. Slík eru áhrif þess að verðbætur eru ekki greiddar upp mánaðrlega heldur færðar til höfuðstóls (heildar lánstími er tekinn saman til að fá þessa niðurstöðu). Selji lántaki fasteign eða endurfjármagni lán, greiðir hann upp þá eignaupptöku sem fólst í neikvæðri eiginfjársöfnun (negative amortization). Niðurstaðan er sú sama, raunvextir lántaka voru hærri fyrir vikið, mun hærri en 12%. Mörkin á neikvæðri eignasöfnun byrjar þegar verðbólga fer yfir 4% á 25 ára lánum og umfram 2% á 40 ára lánum. Allir þeir sem eru með 40 ára verðtryggð lán hafa verið að tapa eign sinni í íbúðarhúsnæðinu síðustu ár, - nema þeir hafi greitt upp vextina (verðbæturnar) auk einhvers af höfuðstólnum.

Lántakar ekki varnarlausir á meðan þeir geta greitt inn á höfuðstól
Sé greiðslubirði láns ekki mjög há á gefnu tímabili er möguleiki á því fyrir lántaka að greiða aukalega inn á höfuðstólinn. Slík greiðsla þarf að vera nógu há til að koma í veg fyrir uppsöfnun verðbóta og saxa á höfuðstólinn. Þetta er eins og er, að mér vitandi, eina sjálfsvörnin sem er til gegn áhrifum verðtryggingar. Slík aukagreiðsla segir þér hvaða raunvexti verið er að greiða af láninu þ.e. verðbætur + vextir. Þetta tekur þó ekki á kerfisvandanum sem felst m.a. í eftirspurn á markaði byggða á blekkjandi upplýsingum.

Óþægilegur sannleikur

Undanfarið hafa ýmsir hagsmunaaðilar eins og forsvarsmenn lífeyrissjóða verið að reyna að telja fólki trú um að verðtryggingin sé í raun til hagsbóta fyrir lántaka. Á meðan engin er verðbólgan, eru verðbætur að sjálfsögðu ekkert vandamál fyrir lántaka. Þannig eru lánin seld út á blekkingar. Lántökum er ekki gerð grein fyrir langtímaáhrifum verðbólgu á höfuðstól og greiðslubyrði lánsins. Þegar vextir lána eru svart á hvítu á pappír við lántöku getur lántaki gert þá áætlun í huganum og á pappír sem er framtíð hans svo mikilvæg. Þetta er afar mikilvægt fyrir eftirspurnina eftir lánunum og þar með eftirspurn á fasteignamarkaði. Séu lánin flóknari að gerð en svo að hægt sé að gera áreiðanlega áætlun við eldhúsborðið, eru þau of flókin. Þetta er orðalag það sem er notað í löggjöf um neytendavernd í Evrópusambandinu.

Nú hafa fjölmargir íslendingar bitra reynslu af verðtryggðum lánum og dregið hefur stórlega úr eftirspurn eftir slíkum lánum að okkur skilst. Það er góð þróun að mati HH en slæm að mati þeirra sem vilja selja þessi lán sem á tæknimáli fjármálageirans teljast til afleiðusamninga (derivatives). Þeir hafa því sumir hverjir kosið að tala lánin upp, þ.e. reyna að draga fram ímyndaða kosti þeirra. Mikil andstaða hefur verið við slíkar greinar á félagsmiðlunum (Facebook) og taka samtökin undir með þeirri andstöðu. 

Flótti í gengisbundin lán
Gengisbundin lán voru oft tekin af þeim voru búnir að brenna sig á verðtryggðum lánum. Það má segja að langvarandi einokun verðtryggðra lána hafi hrakið marga til að taka gengistryggðu lánin þegar þau buðust (sem reyndust svo ólögleg).

Kerfisvandi og tímasprengja
Megin kerfisgallinn við verðtryggð lán er að þau hafa leitt til meiri eftirspurnar eftir lánum en ella væri (ef fólk sæi vextina svart á hvítu) og þar með meiri eftirspurnar á fasteignamarkaði. Þetta leiðir svo til hækkunar fasteignaverðs og þar með krafna um hærri lán og afleiðingin er frekari efniviður í verðbólgubálið. Svona hafa ef til vill vel meinandi kerfissmiðir búið til sjálfvikt magnandi afturvirkni í kerfinu. Ef við ætlum ekki að fara út í allsherjar handvirka stýringu á fasteignaverði (einn veigamesti þáttur hagkerfisins), þurfum við að hafa kerfi sem leitar jafnvægis frekar en að virka eins og sveifluvaki. Seðlabankinn hefur reynt að nota stýrivexti til að hafa áhrif á eftirspurn eftir lánsfé en það hefur ekki gefist vel vegna þess hve stór hluti kerfisins er utan áhrifasviðs stýrivaxta. Besta leiðin til að almenningur hafi tilfinningu fyrir raunverði lánsfé er að geta séð (fyrir lántöku) hvaða vextir standa til boða.

Skerpa þarf á og framfylgja þarf þeim lögum sem í reynd banna verðtryggingu á lánum til almennings. Til að hafa stjórn á verðbólgunni verður Seðlabankinn að geta haft áhrif á peningamagn í umferð. Lang stærsti áhrifavaldur verðbólgu er útgáfa á “ódýru” lánsfé á markaði. Þegar bindiskylda banka var afnumin fljótlega eftir einkavæðingu þeirra sprautaðist mikið af lánsfé út í efnahagskerfið. Á sama tíma voru allir hissa hvað verðbólga jókst þrátt fyrir hækkanir SÍ á stýrivöxtum í hæstu hæðir (yfir 20% þegar verst lét).  Þessi skortur á aga í peningastjórnun landsins ásamt ábyrgðarleysi þeirra sem valda verðbólgu (peningaútgáfa lánastofnana í boði Seðlabankans) hefur gert fjárfestingu í íbúðarhúsnæði að þeirri áhættufjárfestingu sem raun ber vitni. Þessa þætti hafa hin Norðulöndin tekið föstum tökum enda hefur þar myndast stöðugleiki sem við hljótum að vilja sjá hérlendis.

Skynsemin kemur stundum utan frá
Neytendavitund og neytendavernd er mun þróaðri í Evrópusambandinu en á Íslandi. Þessu höfum við orðið áskynja þegar við skoðum þá dóma sem hafa fallið í neytendamálum í Evrópu. Íslenskir dómstólar hafa í reynd neitað að fjalla um neytendavernd að stórum hluta og hverfa ítrekað til annarra lagabálka í umfjöllun mála. Hér er ég ekki að álasa dómara sérstaklega því lögmennirnir sem sækja og verja mál eru hluti af dómstólum og bera ábyrgð á að bera þessi lög undir dómara. Ekki má heldur skilja sem svo að HH hafi einhverja drauma um Evrópusambandsaðild (samtökin taka ekki afstöðu til aðildar). Íslendingar hafa nefnilega erft margt úr löggjöf og ESB í gegn um EES. Það eina sem þarf að gera á Íslandi er að fara að gildandi lögum og skerpa á þeim í tilfelli neytendalána. Verðtrygging stangast á við löggjöf um neytendalán og samtökin eru að undirbúa þingfestingu á lögsókn gegn verðtryggingunni.

Formaður stjórnar HH,

Ólafur Garðarsson


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum