Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Hagsmunasamtök heimilanna kæra Umboðsmann skuldara til Úrskurðarnefndar um upplýsingamál

Hagsmunasamtök heimilanna (HH) hafa sent kæru til Úrskurðarnefndar um upplýsingamál vegna synjunar Umboðsmanns skuldara (UMS) á beiðni HH um aðgang að gögnum um samráð fjármálafyrirækja og UMS, ásamt Neytendastofu og Talsmanni neytenda, sem stofnað var til í kjölfar dóms Hæstaréttar í máli nr. 600/2012 um gengistryggð lán.

Hagsmunasamtök heimilanna beindu í febrúar síðastliðnum erindi til Samkeppniseftirlitsins þar sem aðkomu Samtaka fjármálafyrirtækja (SFF) að úrvinnslu stjórnvalda á málefnum er varða mikilvæga hagsmuni neytenda, var mótmælt. Að fengnum athugasemdum veitti Samkeppniseftirlitið með ákvörðun sinni nr. 4/2012, Samtökum fjármálafyrirtækja (SFF) fyrir hönd aðildarfélaga þeirra og Dróma hf, undanþágu frá samkeppnislögum til að hefja ,,afmarkað samstarf sem miðar að því að hraða úrvinnslu skuldamála sem varða gengisbundin lán, í framhaldi af dómi Hæstaréttar Íslands frá 15. febrúar sl.”

Í ákvörðunarorðum Samkeppniseftirlitsins er skýrt kveðið á um skilyrði fyrir veitingu undanþágu til samráðsins, þar á meðal að “Halda skal skýrar fundargerðir um fundi sem haldnir eru vegna samstarfsins.” ásamt ”yfirliti yfir öll gögn sem lögð eru fram á fundum eða verða til vegna samstarfsins.” Þann 12. júní síðastliðinn óskuðu HH eftir því að fá umrædd gögn afhent á grundvelli upplýsingaréttar, en barst þann 24. júlí sl. svar frá Umboðsmanni skuldara þar sem því var hafnað.

Umboðsmaður skuldara eða fjármálafyrirtækja?

Mikilvægt er að upplýsingar um samráðið verði gerðar opinberar svo allir séu í sambærilegri aðstöðu gagnvart þeirri óvissu sem uppi er um hvort og hvenær til standi að framfylgja lögum í þágu neytenda eins og skuldarar bíða óþreyjufullir eftir. Um er að ræða gögn varðandi starfsemi opinberra embættisstofnana sem hefur verið fyrirskipað með stjórnvaldsákvörðun að skuli haldin, meðal annars í því skyni að fyrirbyggja misferli eins og fram kemur í rökstuðningi Samkeppniseftirlitsins fyrir undanþágunni.

Með synjun á afhendingu gagnanna er neytendum, fjölmiðlum og öðrum hagsmunaaðilum gert ókleift að afla sér upplýsinga um samráðið og veita nauðsynlegt aðhald til að koma í veg fyrir röskun á samkeppnisstöðu. Aftur á móti er þröngum hópi tryggt forskot að mikilvægum upplýsingum þar á meðal staðreyndum um hverskonar lán og málsatvik séu til umfjöllunar, með hvaða hætti verði búið til þeirra mála sem verði flutt, og af hverjum. Á tungumáli fjármálamarkaða nefnist slíkt innherjaupplýsingar en hagnýting þeirra kallast misnotkun og er ólögmæt.

HH telja þá leynd sem haldið er yfir samráði stjórnvalda og fjármálafyrirtækja einungis til þess fallna að vekja tortryggni og gagnrýnivert að þannig sé öndverðum sjónarmiðum og hagsmunum mismunað gróflega. Jafnframt er ólíðandi að synjun um aðgang að viðkomandi upplýsingum sé rökstudd með því einu að vísa til afstöðu “annara aðila” að samráðinu, sem geta varla verið aðrir en fjármálafyrirtækin. HH gagnrýna harðlega að opinber stofnun skuli þannig ganga erinda brotlegra aðila þvert gegn stórfelldum hagsmunum almennings.


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum