HH krefjast rannsóknar á svokölluðu “vaxtagreiðsluþaki”
Hagsmunasamtök heimilanna hafa beint erindum til Neytendastofu, Fjármálaeftirlitsins, Talsmanns neytenda og Umboðsmanns skuldara þar sem vakin er athygli á og farið fram á rannsókn á viðskiptaháttum Íslandsbanka við markaðssetningu á lánveitingum og þjónustu þeim tengdum sem gengur undir markaðsheitinu “vaxtagreiðsluþak óverðtryggðra húsnæðislána”.
Þrátt fyrir að notkun hugtaksins “þak” gefi í skyn að hámark sé á þeim breytilegu vöxtum sem slík lán geta borið, er í raun ekki um neina hámarksvexti að ræða heldur fjármálaafurð þar sem lántakendum gefst kostur á að velja “vaxtagreiðsluþakið” sjálfir en þó þannig að það sé nokkuð hærra en grunnvextir. Hækki lánveitandinn síðar vexti lánsins umfram hið svokallaða “þak” safnast umframvextir hinsvegar upp og færast á höfuðstól lánsins árlega. Höfuðstólshækkunin dreifist svo á þær afborganir sem eftir eru og kemur til jafngreiðslu út lánstímann með vöxtum.
Þannig er ekki um að ræða að vaxtakostnaður sé hámarkaður, heldur getur þvert á móti orðið ófyrirsjánlegur í framtíðinni eftir því hversu háir vextir verða á hverjum tíma. Ómögulegt er að átta sig á hvernig slíkt lán muni hegða sér þegar breytilegir vextir kunna síðar að bætast við höfuðstól og ofan á þá leggjast svo fyrirfram óþekktir vaxtavextir, og vextir líka á þá, allir misjafnlega háir.
Þetta er í grundvallaratriðum ólíkt því sem gildir um venjuleg einföld óverðtryggð lán sem algeng eru í samanburðarlöndum, en sá munur er ekki gerður ljós í kynningarefni bankans. Erlendis eru flóknar fjármálaafurðir eins og hér er lýst hinsvegar ekki boðnar öðrum en fagfjárfestum.
Ómögulegt er með öllu að reikna heildarkostnað við slíka lántöku svo marktækt sé. Með hækkun vaxta og höfuðstólsfærslu þeirra geta hæglega komið fram sömu áhrif og þekkjast af verðtryggingu lána, þegar höfuðstóll þeirra fer hækkandi umfram mánaðarlega afborgun og orsakar neikvæða eignamyndun lántakanda. Hér virðist því miður vera um að ræða enn eitt verkfærið sem lánveitandi geti jafnvel ef hann svo kýs notað til að ganga á eignir lántakanda.
Af þessum sökum hafa Hagsmunasamtök heimilanna vakið athygli eftirlitsaðila og óskað eftir rannsókn á því hvort svokallað “vaxtagreiðsluþak” og markaðssetning á fjármálaþjónustu undir vörumerkinu samræmist lögum um neytendalán og fjárfestavernd. Jafnframt er hvatt til almennra aðgerða gegn markaðssetningu flókinna og áhættusamra fjármálaafurða á neytendamarkaði.