Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Framkvæmdavald meðvirkt með fjármálaöflum

Full ástæða til rannsóknar Samkeppniseftirlitsins
Fljótlega eftir að samráð fjármálafyrirtækja hófst varðandi flýtimeðferð úrskurðar um gengistryggðra lánasamninga vöknuðu grunsemdir hjá stjórnarmönnum Hagsmunasamtaka heimilanna (HH) um að hagsmunir lántaka yrðu fyrir borð bornir í þessu samráði. HH lagði fram athugasemd til Samkeppniseftirlitsins (SE) um að slíkt samráð þyrfti að vera innan skýrra marka. Samkeppniseftirlitið var á sama máli og veitti undanþágu gegn ströngum skilyrðum. Eitt af skilyrðum SE var að Samtök Fjármálafyrirtækja (SFF) kæmu ekki að samráðinu nema í mesta lagi með því að veita fundaraðstöðu og ritara. Þetta var skýrt tilgreint af hendi SE og að opinber fulltrúi skuldara þ.e. Umboðsmaður skuldara væri einnig beinn aðili að samkomulaginu og Talsmaður Neytenda hefði valkvæða aðkomu.



Samkeppniseftirlitið hefur augljóslega tekið nýjustu athugasemdir HH til greina og hafið athugun á þeim atriðum sem samtökin hafa bent á. Af ýmsum ummælum þeirra sem að samráðinu stóðu virðist hlutverk SFF hafa verið mun stærra en skilyrði SE leyfðu.

Hönnuð atburðarás
Eftir fyrstu gengislánadóma hæstaréttar í júní 2010 (92/2010, 153/2010) fór af stað atburðarás sem kom okkur fyrir sjónir sem hönnuð atburðarás. Fjármálaeftirlitið (FME), Seðlabankinn og Efnahags og viðskiptaráðuneytið lögðust þá á eitt um að beita Hæstarétt þrýstingi og beinlínis gefa út leiðbeiningar fyrir Hæstarétt að fara eftir. Gefin voru út tilmæli til fjármálafyrirtækjaum að reikna svonefnda viðmiðunarvexti Seðlabankans af gengisbundnum lánum þar eð gengisbinding lánanna hafði verið felld úr gildi af Hæstarétti. Síðar þ.e. í september sama ár dæmdi Hæstiréttur í máli sem var nokkuð sérkennilegt svo vægt sé til orða tekið.

Fyrir bílalánafyrirtækinu Lýsingu hf fór Sigurmar K. Albersson hrl gegn Guðlaugi Hafsteini Egilssyni en flytjandi máls Guðlaugs var Gísli Baldur Garðarsson hrl. (471/2010) Greinargerð var þó ekki rituð af Gísla Baldri heldur var málið á höndum ungra og lítt reyndra lögfræðinga. Málið  var handvalið af Sigurmari og hann valdi einnig verjendur Guðlaugs því samkomulag var á milli aðila um að Lýsing greiddi allan málskostnað. Við fréttum svo síðar að lánaskjölin sjálf þ.e. frumritin hefðu týnst og aldrei verið borin fyrir réttinn heldur einhverskonar samkomulag um hvað hafi verið meint innihald viðkomandi lánasamnings.

Ekki er nóg með að framkvæmdavaldið íhlutaðist um málefni sem höfðu ratað í hendur dómsvaldsins (reyndar að áeggjan þáverandi viðskiptaráðherra) heldur láðist dómsvaldinu að sjá í gegn um sviðsetningu með sækjanda og verjanda úr einu og sömu herbúðunum.

Í niðurstöðu Hæstaréttar í máli 471/2010 er byggt á því að fyrir hendi sé eitthvað sem hægt sé að kalla “órjúfanleg tengsl” milli verðbreytingarákvæðis samnings og vaxtaákvæðis, sem er rökstutt þannig að LIBOR vextir hafi aldrei verið skráðir fyrir íslenskar krónur og því sé útilokað að styðjast við það viðmið. Sá augljósi galli er á þeirri röksemdafærslu að í reynd er ekkert er því til fyrirstöðu að miða við vexti sem skráðir eru fyrir annan gjaldmiðil en lánveitingin sjálf samanstendur af, svo lengi sem slíkir vextir eru á annað borð þekktir. Hvergi hafa verið færð rök fyrir því sérstaklega að óheimilt sé að miða vexti á lánum í íslenskum krónum við erlendar vaxtavísitölur, kjósi íslenskir lögaðilar að gera með sér slíka samninga. Um árabil hefur ríkt sá skilningur að vextir séu almennt frjálsir á Íslandi, en skilaboðin sem hæstiréttur sendir virðast þó ekki benda til þess.

Þegar lög sem byggja á tilskipunum um neytendarétt og úrskurðir frá Evrópudómstólnum um merkingu þeirra eru skoðuð, kemur í ljós að á þau hefur ekki verið reynt í neinum þeirra dóma sem fallið hafa hér á landi um lánasamninga, hvort sem er neytendum í hag eða óhag. Þar af leiðandi má færa rök fyrir því að lántakendur kunni í raun að eiga inni mun meiri rétt en náðst hefur að knýja fram nú þegar, og þann rétt hyggjast neytendur sækja sér á næstunni.

Í júní síðastliðnum úrskurðaði Evrópudómstóllinn í máli nr. C-618/10 að dómara í aðildarríki sé óheimilt að endurákvarða óskuldbindandi ákvæði í neytendasamningi í því skyni að heimila samninginn þannig breyttan, heldur megi aðeins fella slíkt ákvæði niður og samningurinn skuli gilda að öðru leyti óbreyttur. Sé tekið mið af því ásamt áðurnefndu fordæmi hæstaréttar um meint órjúfanlegt samband verðbreytingarákvæða og vaxta, vaknar óhjákvæmilega sú spurning hvort vaxtaákvæðin séu þá ekki jafnframt ógild og skuli einnig falla brott? Eftir stæði þá efnanlegur samningur, sem samkvæmt lögum ætti að gilda sem slíkur, sé það neytandanum í hag.

Leikrit 2 hafið í boði FME og SFF
Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna sér sig knúna til að upplýsa um að annað sambærilegt leikverk hefur verið hannað, undirbúið, og hrint í framkvæmd. Talsmenn fjármálafyrirtækjanna, FME og Seðlabankinn og fleiri þættir framkvæmdavaldsins eru í samstarfi um að fá hagstæða niðurstöðu fyrir bankana. Forstjóri FME, Unnur Gunnarsdóttir hefur gefið út yfirlýsingar sem virðast saklausar í fyrstu en eru eitraðar fyrir málstað skuldara. Í fyrsta lagi gefur FME út svonefndar sviðsmyndir og í því tilfelli að dómur fellur lántökum í hag er sú sviðsmynd kölluð “dekksta sviðsmynd”. Þá má spyrja fyrir hvern sú sviðsmynd er dökk? Fyrir hverju og fyrir hvern er FME eiginlega að tala? Vísbendingu um það má e.t.v. finna í ársskýrslu FME 2011 þar sem segir orðrétt í inngangi að hefði dómur fallið þannig að samningsvextir gengistryggðra lána stæðu, “hefði það ógnað fjármálastöðugleikanum og höggið á fjármálafyrirtækin hefði orðið allt að 350 milljarðar”. Stórfelld skuldsetning almennings í þágu fjármálafyrirtækja er í augum FME fjármálastöðugleiki. Erum við þau einu sem teljum þetta nokkuð einfalda sýn á fjármál í landinu?

Í öðru lagi lýsir Unnur því yfir að aðeins 5% lána falli undir dóm 600/2011, fordæmisgildið sé lítið. Að mati stjórnar HH reynir forstjóri eftirlitsstofnunar með þessu að hafa áhrif á málarekstur fyrir dómstólum. Hlutdrægni forstjórans er æpandi en svo sem ekki ný stefna hjá þeirri stofnun sem hún er í forsvari fyrir. Viðtal við forstjóra FME í Morgunblaðinu leiðir í ljós einhliða afstöðu forstjórans og er augljóst að heimilin í landinu eiga ekki málsvara innan þessarar stofnunar, langur vegur er í þann veruleika. Í stað þess að vera eftirlitsstofnun sem veitir fjármálafyrirtækjum aðhald telur FME það sitt hlutverk að gera fjármálafyrirtækjum kleift að halda eiginfjárhlutfalli þeirra réttu megin við strikið. Þetta var staðfest af fulltrúa FME á fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis 22. ágúst sl.  sem hélt því fram fullum fetum að hlutverk FME væri að tryggja að eiginfjárhlutfall bankanna færi ekki undir tilskilin mörk. Spurningin er þá hvenær bundinn var endir á eftirlitshlutverk FME og því gefið það hlutverk að TRYGGJA eiginfjárhlutfall bankanna með aðgerðum gegn lántökum eða aðgerðarleysi þegar lánastofnanir brjóta lög á kostnað viðskiptavina? Hvar var eftirlitið þegar bankar brutu lög með gengistryggingu lána? Hvar er eftirlitið þegar lánastofnanir brjóta á sjálfsögum rétti um sanngjarna málsmeðferð?

Er ekki eitthvað bogið við áherslur FME? Hvenær sjáum við stjórn og forstjóra hjá FME sem veitir fjármálastofnunum AÐHALD en beinir ekki sjónum sýnum að viðskiptavinum þeirra eins og þeir eigi að sæta eftirliti og aðhaldi þessarar stofnunar?

Samráðið
Er eðlilegt að þeir sem brutu lögin séu aðilar að einhverskonar samráði um hvernig þeir séu lögsóttir, hvaða áherslur er lagðar til grundvallar og annað þvíumlíkt? Erum við þau einu sem teljum þetta skjóta skökku við og beinlínis rangt?

Eitt af því sem vekur grunsemdir HH um óheilbrigð áhrif fjármálafyrirtækja á flýtimeðferð þessara dómsmála er hvaða mál eru valin til flýtimeðferðar eða réttara sagt, hvaða málum var hafnað til flýtimeðferðar. Eitt þeirra mála er krafa hjónanna í máli 600/2011 á hendur Dróma um endurgreiðslu vegna oftekinna vaxta ofl. Þetta er dómsmálið sem olli öllu fjaðrafokinu hjá FME, Seðlabankanum, ráðuneyti efnahags og viðskipta og fjármálafyrirtækjunum, svo að FME taldi sig horfa fram á hugsanlega “dekkstu sviðsmynd”. Öðrum málum sem voru fjármálafyrirtækjunum óþægileg og leiða í ljós lögbrot og vanhæfni þeirra, var einnig ýtt út af borðinu af fulltrúum fjármálafyrirtækjanna. TN og UMS virðast hafa verið beitt þrýstingi til að samþykkja forgangsröðun fjármálafyrirtækjanna.

Leyndarhyggjan grefur undan trausti?
HH óskuðu eftir aðgangi að fundargögnum samráðs vegna gengislánadóms 600/2011 strax í júní. Þegar fulltrúi umboðsmanns skuldara bar við að hann þyrfti samþykki fjármálafyrirtækjanna fyrir afhendingu þessara upplýsinga vöknuðu strax grunsemdir hjá stjórn HH um að eitthvað í ferlinu þyldi ekki dagsins ljós.

Það sem er mikilvægt að skilja er að hér er verið að bera stór mál undir dómsvaldið í landinu, endanlegan úrskurðaraðila. Slíkt ferli verður að vera hafið yfir allan vafa í meðförum svo réttur neytenda verði ekki fyrir borð borinn einu sinni enn. Vegna þess hvernig réttarkerfinu er háttað á Íslandi er mjög auðvelt að nánast panta niðurstöðu ef hægt er að stýra sókn og vörn. Þetta er einmitt það sem gerðist í máli 471/2010 og þetta er nákvæmlega það sem framkvæmdavaldið (með undantekningum) ásamt fjármálafyrirtækjunum með SFF í broddi fylkingar eru að reyna enn og aftur.

Eftir það sem á undan er gengið ber HH augljóslega ekki traust til FME, SFF, Seðlabankans, þríburabankanna og fjármálaarma framkvæmdavaldsins í landinu. Stundum láta stöku fjölmiðlar sem svo að þessir aðilar séu hafnir yfir vafa en er hægt að treysta þessum stofnunum? Þessir aðilar hika ekki við að vera í samráði gegn lánþegum. Sjálft framkvæmdavaldið tekur höndum saman við fjármálafyrirtæki til að ráðast gegn hagsmunum skuldara. Þetta er eitthvað hið ógeðfelldasta samsæri sem íslenskur almenningur hefur staðið frammi fyrir. Nú sem aldrei fyrr er grundvallaratriði að öll ferli er varða dómtöku mála í málaflokki gengistryggðra lána séu fyrir opnum tjöldum og hafin yfir allan vafa. Jafnvel minnsti grunur um misferli grefur undan trausti og er til þess fallinn að málin dragist á langinn, auk þess að skapa hættu á að fólk treysti ekki niðurstöðunum.

Hvað með ofgreidd lán og endurupptöku mála?
Um árabil hafa fjármálafyrirtækinn innheimt bílalán af mikilli hörku. Meirihluti þessara lána voru með ólöglegum verðtryggingarákvæðum þ.e. gengistryggingu. Viðbúið er að þúsundir viðskiptavina hafi verið ofrukkaðir. Sjálf fyrirtækin hafa verið leyst upp, skipt um kennitölur, sett í gjaldþrot og allskyns kúnstum beitt til að komast hjá endurgreiðslu og/eða endurupptöku mála. Frjálsi fjárfestingabankinn er í skiptameðferð, Drómi, einhverskonar skoffín hlutafélag án innheimtuleyfis, Avant, SP-Fjármögnun ofl. eru horfin eða munu hverfa af sjónarsviðinu. Allt hefur verið gert til að gera það sem erfiðast fyrir þá sem þessi fyrirbæri hafa hlunnfarið að fá endurgreidd oftekin gjöld. Helgi Hjörvar, formaður efnahags og viðskiptanefndar Alþingis vakti máls á þessu atriði á nefndarfundi í liðinni viku. Engin raunveruleg svör bárust frá fulltrúum fjármálafyrirtækja og FME um hvernig ætti að vernda lántaka fyrir þessu óréttlæti. SFF hélt því fram að fjármálastofnanir hefðu í flestum tilfellum boðið viðskiptavinum að greiða kr. 5.000 á milljón (af upphaflegum höfuðstól) og þar sem þetta hefði ekki verið boðið, væri “tekið vel á móti fólki”. Þegar heimasíður fjármálafyrirtækja eru skoðaðar kemur hvergi fram að lántökum sé boðin ofangreind leið til afborgana á meðan óvissa varir nema á vef Dróma af öllum stöðum (vefurinn liggur reyndar niðri að því er virðist þegar þetta er skrifað). Þess ber þó að geta að Arion banki og Íslandsbanki hafa boðið sömu lausn án þess þó að gera það með áberandi hætti á vefsíðum.

Tilefni fundarins var grein eftir Lúðvík Bergsveinsson og Sigurvin Ólafsson af lögmannastofunni Bonafide og gáfu þeir skýrslu fyrir nefndinni. Lögmennirnir lögðu áherslu á að lántakar greiddu takmarkaða hlutfallslega fasta upphæð inn á lán þar til óvissu um þau hefði verið eytt. Í tilfelli bílalána verður þó ekki annað ályktað en að þau þau þurfi að frysta vaxtalaust á meðan úrlausn dómsmála fer fram og helst ætti að gera slíkt við öll lán af þessu tagi. Það er einfaldlega engan veginn verjandi að innheimta krónu af bílalánum að svo komnu máli og innheimta fyrrum gengisbundina húsnæðislána er vafasöm í besta falli á meðan óvissa er um vextina. Hagsmunasamtök heimilanna taka heilshugar undir málflutning lögmannanna og svo virtist sem þingmenn í nefndinni gerðu það margir einnig. Þeir komu okkur fyrir sjónir eins og þeir væru búnir að missa þolinmæðina gagnvart fjármálaöflum landsins, sem er fyllilega skyljanlegt og þó fyrr hefði verið!

Stjórn HH


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum