Málshöfðun gegn verðtryggingu
Dómsmál höfðað um lögmæti verðtryggðra neytendalána Íbúðalánasjóðs
Um liðna helgi voru fjögur ár liðin síðan útblásið bankakerfi Íslands hrundi með slíkum látum að þáverandi forsætisráðherra sá tilefni til að ákalla drottinn, hugsanlega í von um að stjórnvöld yrðu bænheyrð í ráðaleysi sínu. Hagsmunasamtök heimilanna hafa lengst af þessu tímabili beitt sér fyrir því að stemmt verði stigu við stökkbreytingum sem orðið hafa á lánum heimilanna í tengslum við fjármálakreppuna sem opinberaðist árið 2008 og sér enn ekki fyrir endann á. Stærsti einstaki liðurinn í þeirri baráttu hefur verið krafan um sanngjarna leiðréttingu á stökkbreyttum höfuðstól vegna verðtryggingar og vísitölutengingar neytendalána.
Framan af fólust baráttuaðferðir samtakanna öðru fremur í málflutningi á opinberum vettvangi um nauðsyn og sanngirni almennra stjórnvaldsaðgerða til að leiðrétta skuldastöðu heimila landsmanna vegna þeirra óvæntu og óvenjulegu kringumstæðna sem þá höfðu skapast. Hefur sá málflutningur átt víðtækan hljómgrunn meðal Íslendinga, en niðurstöður kannana gefa til kynna stuðning um 80% landsmanna við samtökin og kröfur þeirra, auk tæplega 37.000 þáttakenda í undirskriftasöfnun heimilanna á seinni helmingi ársins 2011.
Þrátt fyrir góðar undirtektir almennings, þrotlausa vinnu og sáttavilja samtakanna og félagsmanna þeirra gagnvart rökstuddum væntingum um þverpólitíska skjaldborg um heimilin, hafa raunverulegar lausnir á orsökum vandamálsins því miður látið á sér standa. Ótakmörkuð hækkun neytendalána vegna verðtryggingar fær enn að viðgangast, en aðgerðir til að takast á við óhjákvæmilegar afleiðingar hennar hafa að margra mati verið naumt skammtaðar og komið skammt til móts við raunverulegar framfærsluþarfir heimilanna.
Það sem hefur hinsvegar gefið umtalsverðan árangur er laganna bókstafur, þegar hann er þá í hávegum hafður. Þann 16. júní 2010 kvað Hæstiréttur upp úrskurð í máli þar sem tekist var á um gengistryggingu, og dæmdi hana ólöglega. Sá dómur og fleiri hafa leitt til niðurfærslu krafna á hendur heimilum sem nemur 150 milljörðum króna um síðustu áramót, samanborið við aðeins um 50 milljarða niðurfærslur vegna úrræða sem boðist hafa vegna verðtryggðra lána. Þann 15. febrúar kvað svo Hæstiréttur upp dóm í máli nr. 600/2011 sem ljóst er að muni jafnframt leiða til enn meiri niðurfærslu lána sem þegar hafa verið dæmd ólögleg.
Undanfarin misseri hafa Hagsmunasamtök heimilanna staðið fyrir ítarlegum rannsóknum á lagagrundvelli almennrar verðtryggingar neytendalána, með hjálp lögfræðinga og annarra sérfræðinga. Í stuttu máli er niðurstaðan sú að framkvæmd verðtryggingar eins og hún hefur þekkst hingað til kunni að brjóta í grundvallaratriðum í bága við lög sem hafa gilt hér á landi um árabil. Veigamest þeirra eru lög um neytendalán nr. 121 frá 21. september 1994 með breytingum samkvæmt lögum nr. 179 frá 20. desember 2000 þegar þau voru útvíkkuð þannig að þau næðu einnig til lána sem veitt eru neytendum til öflunar íbúðarhúsnæðis.
Nú kann það að koma einhverjum spánskt fyrir sjónir að lánsform sem hefur til margra ára verið notað og náð útbreiðslu hér á landi, gæti reynst ólögmætt. En þá er kannski við hæfi að rifja upp að þetta héldu margir líka um gengistryggð lán, þar til Hæstiréttur Íslands skar úr um ólögmæti þeirra í júní 2010. Sá dómur féll þrátt fyrir allt á grundvelli laga sem höfðu þá verið í gildi um árabil hér á landi, reyndar tóku þau gildi um svipað leyti og lögin sem nú reynir á varðandi hina almennu verðtryggingu.
Í þeim fjölda dómsmála þar sem hingað til hefur verið tekist á um lögmæti lánssamninga hefur sjónarmiðum neytendaréttar ekki verið haldið mjög í frammi. Nauðsynlegt er hinsvegar að fá úr því skorið hvort réttindi neytenda samkvæmt aðild Íslands að EES-samningnum hafi verið innleidd með fullnægjandi hætti í íslenskan rétt, eða hvort þeim sé ætlað að vera til skrauts? Lykilatriði í neytendalánalöggjöf er að lántökukostnaður skuli vera þekktur fyrirfram og gefinn upp miðað við raunverulegar forsendur, en með ótakmarkaðri verðtryggingu er það illmögulegt og hefur þar af leiðandi ekki tíðkast eða verið gert með ófullnægjandi hætti. Nú hefur hinsvegar verið höfðað mál til að láta reyna á lögmæti þessa fyrirkomulags og krefjast viðurkenningar á því að lánveitanda sé í raun óheimilt að innheimta lántökukostnað sem ekki er tilgreindur með árlegri hlutfallstölu kostnaðar í lánssamningi eins og lög kveða á um.
Hagsmunasamtök heimilanna hafa hlutast til um málssókn á þessum forsendum og þannig að málatilbúnaður þjóni fyrst og fremst hagsmunum neytenda frekar en lánveitenda. Efnisleg niðurstaða um lögmæti þess að innheimta ótakmarkaðan og ótilgreindan lántökukostnað gæti haft umtalsverða þýðingu fyrir stöðu tugþúsunda íslenskra heimila með verðtryggð lán, og markað straumhvörf fyrir neytendarétt á fjármálamarkaði. Mikilvægt er þó að hafa í huga að þetta er aðeins fyrsta skrefið af mörgum, á leið sem er löng og torfær. Hver sem niðurstaða þessa tiltekna máls kann að verða getur þurft að fá svör við fleiri álitaefnum. Afstaða samtakanna er almennt sú að allan vafa um lögmæti innheimtu skuli undantekningalaust túlka neytendum til hagsbóta.
18. október n.k. verður þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur mál sem mun marka tímamót í baráttunni gegn ótakmarkaðri verðtryggingu fasteignaveðlána miðað við vísitölu neysluverðs. Fulltrúar samtakanna verða viðstaddir þingfestinguna þar sem mun hefjast nýr kafli í baráttunni fyrir hagsmunum heimilanna.
Félagsmenn eru hvattir til að fylgjast vel með heimasíðunni á næstunni þar sem upplýsingar um framgang málsóknarinnar verða settar inn jafnóðum. Málsóknar af þessu tagi er frekar kostnaðarsöm og hefur því verið stofnaður sérstakur málskostnaðarsjóður. Félagsmenn sem vilja leggja málefninu lið eru hvattir til að gera það með framlögum í sjóðinn.
Reikningsnúmer: 1110-05-250427 kt. 520209-2120
F.h Hagsmunasamtaka heimilanna
Guðmundur Ásgeirsson, varaformaður stjórnar