Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Ályktun um úrskurð Hæstaréttar varðandi lögbannskröfu á innheimtu gengislána

Aðildarhæfi HH og TN er tryggt með lögum að mati Hæstaréttar

Niðurstaða liggur fyrir vegna lögbannskröfu Hagsmunasamtaka heimilanna (HH) og talsmanns neytenda (TN) um stöðvun innheimtu á ólögmætum gengislánum. Samtökin telja að engar forsendur séu fyrir innheimtu þessara lána á meðan óvissa ríkir um innheimtanlegar eftirstöðvar þeirra.

Héraðsdómur hafnaði lögbannskröfunni á þeirri forsendu að TN og HH skorti aðild til að leita lögbanns til verndar heildarhagsmunum neytenda, og gætu því ekki komið fram fyrir hönd neytenda í heild. Þessu hafnar Hæstiréttur í dómi sínum og tekur af allan vafa um viðurkenningu á aðildarhæfi þessara tveggja aðila þ.e. aðildarhæfið er viðurkennt!

Getur bankinn ekki farið á hausinn?

Dómurinn grundvallast aftur á móti á því að Hæstiréttur telur enga hættu á því að bankar geti orðið ógjaldfærir (gjaldþrota). Að mati Hagsmunasamtaka heimilanna stenst þetta enga skoðun, enda geta bankar farið á hausinn og viðskiptavinir geta orðið fyrir tjóni eins og framlögð sönnunargögn í málinu sýndu með óyggjandi hætti að mati sóknaraðila.

Þrátt fyrir það var ekki fallist á að slíkt gæti gerst aftur, og taldi dómurinn yfirlýsingar bankans, hins brotlega aðila, næga tryggingu fyrir því. Samtökin telja að með þessu hafi sönnunarbyrði í reynd verið snúið við, í staðinn hefði dómurinn átt að krefja verjendur um að þeir sýndu fram á gjaldfærni Landsbankans vegna væntanlegra endurkrafna viðskiptavina, en það var þó ekki gert. Vafinn er til staðar og hann hefði átt að túlka í þágu neytenda, lögin eru skýr hvað það varðar.

Í ljósi þessa dóms virðist því miður sem Landsbankinn og aðrar fjármálastofnanir hafi frjálsar hendur um að brjóta á rétti lántaka. Hagsmunasamtök heimilanna harma þá niðurstöðu.

Lesa má dóminn í heild sinni hér

Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum