Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Úrskurður kveðinn upp í kærumáli HH gegn Umboðsmanni skuldara.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur kveðið upp úrskurð í kærumáli Hagsmunasamtaka heimilanna (HH) gegn umboðsmanni skuldara á þann veg að embættinu beri að afhenda samtökunum fundargerðir og önnur gögn samráðshóps fjármálafyrirtækjanna og Dróma hf. vegna gengislánadóms Hæstaréttar (nr. 600/2012). Meðal álitaefna sem reyndi á við meðferð málsins var bankaleynd samkvæmt þagnarskylduákvæðum laga um fjármálafyrirtæki, ákvæði upplýsingalaga um viðskiptahagsmuni, og lögboðið hlutverk embættis umboðsmanns skuldara.



Með ákvörðun sinni nr. 4/2012 þann 9. mars veitti Samkeppniseftirlitið aðildarfélögum Samtaka fjármálafyrirtækja (SFF) ásamt Dróma, undanþágu frá bannákvæðum samkeppnislaga, til afmarkaðs samstarfs um að hraða úrvinnslu mála vegna ólögmætra gengistryggðra lána. Áhersla var lögð á að neytendur skyldu njóta sanngjarnrar hlutdeildar í ávinningi samstarfsins, með skilyrðum sem kváðu á um þátttöku umboðsmanns skuldara í samráðinu ásamt fulltrúa Neytendastofu og talsmanns neytenda. Jafnframt skyldu haldnar skýrar fundargerðir og yfirlit um öll gögn sem lögð væru fram á fundum vegna samráðsins. Hópurinn lauk störfum í lok júní og var niðurstaðan sú að valin voru ellefu prófmál sem samráðshópurinn taldi að dómstólar þyrftu að skera úr um áður en endurútreikningar ólögmætra gengislána gætu hafist.

Hagsmunasamtök heimilanna óskuðu eftir því við umboðsmann skuldara að fá aðgang að fundargerðum og öðrum gögnum samráðshópsins, enda væri sjálfsagt að gegnsæi ríkti um val á prófmálum sem skera ættu úr um svo mikilvægt hagsmunamál neytenda sem endurútreikningur ólögmætra gengistryggðra lána er. Umboðsmaður synjaði beiðni samtakanna, á þeim forsendum að aðilum hópsins (einkum  fjármálafyrirtækjunum) þætti ekki ástæða til að láta umbeðin gögn af hendi, auk þess sem þau hefðu að geyma upplýsingar er vörðuðu einkamálefni lántakenda og féllu því undir þagnarskyldu. Hagsmunasamtökin kærðu synjunina til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, og gagnrýndu harðlega að ákvörðun um synjun væri tekin, að því er virtist samkvæmt geðþótta fjármálafyrirtækjanna. Það samræmdist ekki þeim sjónarmiðum að hagsmuna neytenda væri gætt  í samráðsferlinu, auk þess að ganga þvert gegn yfirlýstum tilgangi embættis umboðsmanns skuldara, sem er sá að “bæta stöðu einstaklinga sem eiga í skulda- og greiðsluerfiðleikum” og í því samhengi að “hafa hagsmuni skuldara og réttindi þeirra að leiðarljósi”.

Í úrskurði sínum tekur nefndin í meginatriðum undir sjónarmið HH í málinu, þar á meðal að eðli málsins samkvæmt hlyti það að vera í samræmi við tilgang aðkomu umboðsmanns skuldara að samráðinu, að þar fengju hagsmunir neytenda að njóta sín. Jafnframt var tekið til álita hvort stætt væri að halda leynd yfir gögnunum á grundvelli lagaákvæða um þagnarskyldu og einkaréttarlega viðksiptahagsmuni. Skoðun nefndarinnar á gögnum samráðshópsins leiddi hins vegar í ljós að flestöll hinna umbeðnu gagna innihéldu engar persónugreinanlegar upplýsingar um viðskiptavini fjármálafyrirtækja, auk þess sem nefndin taldi að almannahagsmunir gengju framar viðskiptahagsmunum fjármálafyrirtækja í tilfellum sem þessum. Var því umboðsmanni skuldara gert að afhenda hagsmunasamtökunum samtals 24 skjöl vegna málsins, eða öll þau gögn sem upphaflega hafði verið óskað eftir.

Um leið og samtökin fagna niðurstöðunni, telja þau með öllu ólíðandi að staða sem þessi geti yfir höfuð komið upp, að embætti umboðsmanns skuldara hafi orðið uppvíst að því að framfylgja ekki lögboðnu eftirlitshlutverk sínu í þágu neytenda, og þykir stjórn HH það ljóst að takmarkaðs skilnings gæti hjá embætti umboðsmanns skuldara um eigið hlutverk sitt samkvæmt lögum, eða þeim reglum sem settar voru um samráðsferlið. Niðurstaða úrskurðarnefndar styður þá afstöðu samtakanna að fullt tilefni hafi verið til virks aðhalds gagnvart þáttakendum í samráðsferlinu, sem samtökin veita nú með öflun gagna um störf hópsins og verða þau því næst skoðuð með hliðsjón af því hvort um frekara misferli kunni að hafa verið að ræða meðal samráðsaðila.


Nú þegar hálft ár er liðið frá því að samráðshópurinn lauk formlega störfum og aðgangur að upplýsingum um störf hans hefur loks verið veittur, er við hæfi að fara yfir stöðu þeirra mála sem samráðinu tengjast. Hagsmunasamtökin hafa heimildir fyrir því að af ellefu prófmálum sem valin voru í samráðsferlinu hafi sjö þeirra nú verið felld niður eða lokið án efnislegrar útkomu, en þau mál sem eftir standa snúast að mestu leyti um bílasamninga einstaklinga. Ljóst er að á þeim tíma sem samráð um val þessara prófmála og álitaefna í þeim stóð yfir var ekki fyrir hendi virkt aðhald með störfum hópsins, eins og afstaða umboðsmanns skuldara til upplýsingaleyndar ber  vott um. Hagsmunasamtök heimilanna gera því fyrirvara við hugsanlegar útkomur samráðsferlisins, sem geta varla orðið sérlega trúverðugar ef álykta má af vinnubrögðum samráðsaðila eins og þau birtast gagnvart sjónarmiðum um gegnsæi og neytendavernd sem leggja átti áherslu á.

Úrskurðinn í heild sinni má lesa hér.


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum