Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Ályktun stjórnar HH: Lánveitendur beri ábyrgð á rangri framkvæmd verðtryggingar

Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna (HH) vill að gefnu tilefni árétta að fyrirliggjandi dómsmál um lögmæti verðtryggingar byggist alfarið á rökum sem einungis eru reist á grundvelli gildandi laga á Íslandi. Ekkert í þeim málatilbúnaði byggir á neinum tilgátum um ranga innleiðingu tilskipana um neytendarétt, heldur þvert á móti á móti á réttri og vandaðri innleiðingu þeirra í lög hér á landi frá upphafi. Sé hinsvegar einhver vafi um það hvað þau þýði megi gjarnan skýra lögin um neytendalán með hliðsjón af fyrirmælum þeirra tilskipana sem voru innleidd á sínum tíma.

Dómsmál það sem samtökin hafa beitt sér fyrir (vegna verðtryggðs láns) fjallar um meint brot á neytendarétti sem er alfarið á ábyrgð lánveitenda að mati stjórnar HH og að höfðu samráði við lögmenn sem unnið hafa að undirbúningi málsins sem byggir að öllu leyti á þessu. Íslensk lög eru í grundvallaratriðum í samræmi við tilskipanir sem gilda um neytendalán innan EES-ríkjanna.

Þetta sjónarmið styðja margvísleg gögn, þar á meðal greinargerð bankaeftirlits Seðlabanka Íslands (forvera FME) um upplýsingaskyldu vegna lánveitinga dags. 6. nóvember 1990 ásamt bréfi til viðskiptaráðuneytisins dags. 25. febrúar 1991 með beiðni um forgöngu þess fyrir því að svokallaðir virkir vextir yrðu lögfestir (einnig þekktir sem árleg hlutfallstala kostnaðar)# og umsögn eftirlitsins um hið upphaflega frumvarp til laga um neytendalán dags. 14. október 1992, auk tillögu sem var tekin orðrétt inn í breytingartillögu efnahags- og viðskiptanefndar ásamt skýringum í nefndaráliti þar sem segir orðrétt að vísitölubinding og verðlagsviðmiðun teljist til vaxtagjalda. Frumvarpið ásamt þessum breytingartillögum nefndarinnar hlutu samþykki Alþingis áður en þau tóku gildi í apríl 1993, og þar af leiðandi hlýtur vilji löggjafans að mega teljast hafa verið skýr að þessu leyti.

Sú afstaða sem kemur fram af hálfu framkvæmdastjórnar ESB í nýlegu áliti vegna fyrirspurnar Dr. Elviru Mendez við Háskóla Íslands, gefur ekki tilefni til þess að draga neinar ályktanir um að neitt misræmi sé milli íslenskra laga um neytendalán annars vegar og þeirra tilskipana sem þeim var ætlað að innleiða hinsvegar, eins og þau lúta að skyldu lánveitenda til að gera ráð fyrir verðbótum í lánskostnaði og árlegri hlutfallstölu. Með hliðsjón af fyrirliggjandi staðreyndum kemur því ekki til greina af hálfu HH að leita réttar neytenda á grundvelli meintra rangra innleiðinga að svo stöddu.

Svo virðist þó sem öfl í samfélaginu sem eru hliðholl óbreyttum fjármálageira vilji láta líta út fyrir að um ranga innleiðingu hafi verið að ræða, svo fjármálastofnanir geti reynt að firra sig ábyrgð og jafnvel beint kröfum að ríkissjóði. Hagsmunasamtök heimilanna harma slíkan málflutning og vilja gjarnan leiðrétta hverskonar misskilning sem kann að vera fyrir hendi varðandi þær aðgerðir HH sem snúa að verðtryggingu og málaferlum vegna neytendalána. Megin umkvartanir hafa snúið að því að framkvæmd útgáfu neytendalána hafi verið röng af hálfu lánveitenda að mati samtakanna og að það séu fyrst og fremst framkvæmdaaðilar sem beri óskipta einkaréttarlega ábyrgð á afleiðingum þess.

Lesa má umsögn HH um nýtt neytendalánafrumvarp hér.

 


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum